[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Olíumarkaðir voru opnaðir með nokkrum látum í gær og á tímabili var verðið á tunnu af Brent-hráolíu komið í 36,33 Bandaríkjadali en svo lágt hefur verðið ekki verið síðan í niðursveiflunni í desember 2008.

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Olíumarkaðir voru opnaðir með nokkrum látum í gær og á tímabili var verðið á tunnu af Brent-hráolíu komið í 36,33 Bandaríkjadali en svo lágt hefur verðið ekki verið síðan í niðursveiflunni í desember 2008. Sú lækkun sem markaðurinn horfði upp á í gær kemur í kjölfar frekari lækkana í liðinni viku en þá tilkynntu forystumenn OPEC-ríkjanna að ekki yrði dregið úr olíuframleiðslu á þeirra vettvangi.

Hallsteinn Arnarson, sérfræðingur hjá IFS-greiningu, segir að hráolíumarkaðurinn einkennist af mikilli óvissu.

„Hvorki OPEC-ríkin né Bandaríkin virðast ætla að draga úr framleiðslu svo nokkru nemi og birgðastaðan á heimsvísu er mikil. Minni hagvöxtur og eftirspurn í nýmarkaðsríkjum hefur neikvæð áhrif og þá ríkir mikil óvissa um það hversu mikið af olíu muni koma á markaðinn frá Íran en aflétting viðskiptabanns á landið opnar á þann markað á nýju ári.“

Hallsteinn bendir þó á að nýjasta spá Bandarísku orkumálastofnunarinnar (e. EIA) geri ráð fyrir því að tunnan af Brent-hráolíunni kosti að meðaltali 56 Bandaríkjadali á næsta ári.

„Það verð er töluvert frá því verði sem við sjáum í dag. Að okkar mati er verð á hráolíu í þeim fasa í dag að það sé að reyna að finna botninn, og að það sé í raun og veru ómögulegt að segja til um hvar eða hvenær það nákvæmlega gerist. Fyrsta vísbending um mögulegan botn og viðsnúning í Brent-hráolíuverði væri sannfærandi hækkun upp fyrir 47 dollara á tunnuna,“ segir Hallsteinn. Hækkun upp í 47 dollara jafngilti 26% hækkun á verði olíunnar frá því verði sem fæst fyrir hana á mörkuðum í dag.

Offramboðið leynir sér ekki

Hallsteinn segir að svokallað „contango“-ástand ríki nú á markaðnum. Það geri markaðsaðilum kleift að hagnast með því að kaupa og geyma olíu en láta hana af hendi fyrir hærra verð í framtíðinni.

„Þetta er augljóst dæmi um offramboð á markaðnum. Lækkunin nú tengist mögulega líka því að markaðsaðilar eru farnir að færa sig úr janúarsamningunum og yfir í samningana með afhendingu í febrúar, sem sést meðal annars á því að meiri viðskipti hafa átt sér stað með þá síðarnefndu frá 10. desember síðastliðnum. Svo virðist sem aðilar á markaði búist ekki við miklum verðhækkunum á næstunni.“

Vinnur gegn verðbólgunni

Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Íslandsbanka, segir þróunina á olíumörkuðum hafa áhrif hér heima.

„Bensínið vegur þungt í vísitölu neysluverðs og eftir því sem það hefur farið lækkandi þá hefur það unnið gegn verðbólguþrýstingi. Þetta gerist á sama tíma og gengi krónunnar hefur styrkst. Það er heppilegt að þetta skuli gerast á þessum tíma þegar aðrir þættir á borð við kjarasamninga þrýsta á verðlagið upp. Það er hins vegar ekki hægt að treysta á að þessi þrýstingur verði til staðar, næst þegar innlendur verðbólguþrýstingur eykst.“

Þá segir Ingólfur að verðbólguspá Seðlabankans hafi ekki staðist og að þróun olíuverðs hafi þar meðal annars haft áhrif.

„Seðlabankinn hefur ofspáð verðbólgunni undanfarið og við teljum að verðbólgan muni haldast talsvert undir nýjustu spá Seðlabankans næstu misseri. Reiknum við því með að verðbólgan verði um og á tíma undir 2% fram á mitt ár en að hún aukist þá og sigli yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á seinni helmingi ársins. Er þetta talsvert hagfelldari verðbólguþróun en Seðlabankinn reiknar með.“