Áhugi Mikill áhugi er á því að ferðast á Evrópumótið í fótbolta. Fjórar ferðaskrifstofur bjóða upp á pakkaferðir.
Áhugi Mikill áhugi er á því að ferðast á Evrópumótið í fótbolta. Fjórar ferðaskrifstofur bjóða upp á pakkaferðir. — Morgunblaðið/Golli
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Ferðaskrifstofur eru nú í óðaönn að setja saman pakkaferðir á Evrópumótið í fótbolta sem hefst í Frakklandi í júní á næsta ári.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Ferðaskrifstofur eru nú í óðaönn að setja saman pakkaferðir á Evrópumótið í fótbolta sem hefst í Frakklandi í júní á næsta ári. Eins og fram hefur komið leikur Ísland í það minnsta þrjá leiki í keppninni og fara þeir fram í Marseille, St. Etienne og París. Því krefst nokkurrar yfirlegu að skipuleggja ferðir á áfangastaðina eftir því hvort fólk er á höttunum eftir því að sjá einn, tvo eða þrjá leiki Íslands riðlakeppninni.

Hafa borgað staðfestingargjald

Ingibjörg Eysteinsdóttir hjá Gamanferðum segir að vel yfir 200 manns hafi þegar boðað komu sína á leiki landsliðsins með því að greiða staðfestingargjald. Hafði gjaldið þegar verið greitt fyrir helgi eða áður en fyrir lá hvar Ísland myndi leika leiki sína í Frakklandi næsta sumar. „Síminn hefur mikið hringt í [gær]morgun og fólk er að spyrja út í það hvernig pakkarnir muni líta út,“ segir Ingibjörg.

Lokaundirbúningur í gangi

Forráðamenn Vita-ferða voru í París til þess að ná samningum við hótel og við að skipuleggja flug á leikina. Þar fengust þær upplýsingar að búist væri við því að búið yrði að útbúa pakkaferðir á næstu dögum. Svipaða sögu var að segja hjá Úrvali-Útsýn þar sem þær upplýsingar fengust að pakkaferðir yrðu tilbúnar í vikunni.

Hörður Hilmarsson, hjá ÍT-ferðum, segir að skipulagning sé í fullum gangi. „Við vorum búin að taka frá eitthvað af flugsætum en bættum svo fleirum við um helgina,“ segir Hörður. Hann segir töluvert um að fyrirspurnir hafi borist frá þeim sem hafa áhuga á því að fara á leiki landsliðsins. „Við skráðum töluvert marga niður fyrst. Svo hættum við að taka niður skráningar og ætlum nú að byrja á því að hafa samand við þá sem settu sig í samband við okkur fyrst. Svo höldum við áfram að taka við skráningum. Nú vita allir hvenær leikirnir eru og því auðveldara að fylgja áhuganum eftir,“ segir Hörður.

34 þúsund miðar í boði

Ef að líkum lætur ættu áhugasamir ekki að lenda í vandræðum með að tryggja sér miða á leiki landsliðsins í Frakklandi.

Fram kemur á vef UEFA að hvert þátttökuland fær um 20% miðafjölda á leikina. Ísland hefur leik á EM 14. júní við Portúgal og fer hann fram á Stade Geoffroy-Guichard leikvanginum í St. Etienne. Hann tekur 42 þúsund manns í sæti og Ísland fær 7.000 miða.

Annar leikurinn gegn Ungverjalandi fer fram í Stade Vélodrome í Marseille 18. júní. Völlurinn tekur 67.394 áhorfendur en Ísland fær 12.000 miða.

Leikurinn við Austurríki fer fram 22. júní á Stade de France í París. Völlurinn tekur um 81.338 áhorfendur og fær Ísland heila 15.000 miða.