Ketill Kristjánsson fæddist 12. desember 1924 í Haukadal, Biskupstungum í Árnessýslu. Hann lést á Landakoti í Reykjavík 10. desember 2015.

Foreldrar hans voru hjónin Kristján Loftsson, f. 1887, d. 1983, frá Kollabæ í Fljótshlíð, Rangárvallasýslu, og Guðbjörg Greipsdóttir, f. 1893, d. 1973, frá Haukadal.

Þau Kristján og Guðbjörg eignuðust alls 13 börn, fimm syni og átta dætur, og náðu tíu þeirra fullorðinsaldri en þrjú dóu í æsku. Systkini hans voru: Greipur Kjartan, Sigurgeir, Elín, Jóhanna, Loftur, Sigríður, Auður, Katrín og Áslaug. Af systkinunum frá Haukadal og Felli eru nú á lífi Sigríður, Auður og Áslaug.

Ketill ólst upp í Haukadal fyrstu æviárin en á fimmta aldursári taka foreldrarnir sig upp með fjölskylduna og flytja að Felli. Ketill gekk í Íþróttaskólann í Haukadal og var síðan tvo vetur í Héraðsskólanum á Laugarvatni. Á uppvaxtarárunum vann Ketill við bú foreldra sinna á Felli, auk þess var hann í mörg ár hjá Ræktunarsambandi Suðurlands.

Árið 1951 eignast Ketill soninn Berg, f 27.10., með Áshildi M. Öfjörð. Bergur er kvæntur Gunni Sigdísi Gunnarsdóttur. Dætur þeirra eru: a) Svandís, f. 1972, gift Ragnari Hólm Gíslasyni. Þau eiga þrjú börn, Daníel Berg, Ívar og Sigdísi Erlu: b) Heiðrún, f. 1975.

Ketill og Ingibjörg Einarsdóttir gengu í hjónaband árið 1955 og hófu búskap á Torfastöðum í Biskupstungum. Foreldrar Ingibjargar voru Guðrún Ingimarsdóttir frá Efri-Reykjum i Biskupstungum og Einar Gíslason, bóndi í Kjarnholtum. Ketill og Ingibjörg höfðu því verið í hjónabandi í 60 ár. Börn þeirra eru: 1) Guðrún Björg, f. 17.4. 1957, gift Kristófer Einarssyni. Börn þeirra: a) Einar Óli, f. 1980, kvæntur Sólveigu Hörpu Kristjánsdóttur, þau eiga tvö börn, Elvý Elenóru og Kristófer Huga. b) Elísabet Inga, f. 1983, í sambúð með Brynjari M. Lárussyni. 2) Ingibjörg, f. 4.12. 1958. 3) Kristján, f. 8.9. 1961. Hann var kvæntur Elínu Ebbu Björgvinsdóttur og dætur þeirra eru: a) Elínborg, f. 1982, gift Daða Frey Ólafssyni og eiga þau soninn Hrafnkel Frey; b) Eva Dögg, f. 1984, gift Garðari Eyjólfssyni og eiga þau tvær dætur, Sögu og Lukku; c) Katla Björg, f. 1990, í sambúð með Kjartani Árna Sigurðssyni. Með fyrrverandi sambýliskonu sinni, Ragnhildi Kristjánsdóttur, á Kristján tvíburana Ketil og Kolfinnu, f. 2000. 4) Einar, f. 20.5. 1963. Hann er kvæntur Yvonne Michele Ketilsson og eru börn þeirra: Leif Gunnar Ketilsson, f. 1994, Leah F. Ketilsson, f. 1996, og Lauren K. Ketilsson, f. 2000.

Á Torfastöðum í Biskupstungum bjuggu Ketill og Inga í þrjú ár, næstu fimm árin bjuggu þau á Tóftum í Stokkseyrarhreppi. Árið 1963 flytja þau til Þorlákshafnar með fjögur börn og gerðust ein af frumbyggjunum. Þar byggðu þau sér einbýlishús í C-götu 10, sem þau bjuggu í til ársins 1997 er þau fluttu í Kópavoginn, þar sem Ketill bjó til æviloka. Í Þorlákshöfn vann Ketill ýmis störf.

Ketill verður jarðsunginn frá Kópavogskirkju í dag, 18. desember 2015, og hefst athöfnin kl. 13.

Um undra-geim, í himinveldi háu,

nú hverfur sól og kveður jarðarglaum;

á fegra landi gróa blómin bláu

í bjartri dögg við lífsins helgan straum.

(Benedikt Gröndal)

Það er alltaf sárt að kveðja þá sem standa manni næst. Nú þegar elskulegur tengdafaðir minn er genginn, þá er margs að minnast þegar farið er yfir farinn veg. Ég minnist tengdapabba sem glaðværs og duglegs manns sem alltaf var tilbúinn að aðstoða ef hann mögulega gat. Sérstaklega átti það við ef eitthvað þurfti að smíða og laga til þá var hann alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd. Ketill var góður smiður og betri læriföður í þeim efnum var varla hægt að fá. Þegar Ketill hætti á vinnumarkaði var hann rúmlega sjötugur og réðst þá strax í smíði myndarlegs sumarbústaðar fyrir fjölskylduna að Felli í Biskupstungum. Bústaðurinn er staðsettur á dásamlegum útsýnisstað á landareigninni og þar undi hann hag sínum afar vel og vildi helst dvelja þar öllum stundum með Ingu. Tengdapabbi hafði mikla ánægju af söng og hafði afar fallega tenórrödd sem hann hélt ótrúlega vel til dánardægurs og líklega leið aldrei sá dagur sem hann tók ekki lagið sér og öðrum til ánægju. Í 90 ára afmæli sínu á síðasta ári söng Ketill einsöng fyrir afmælisgesti og tókst vel upp.

Nú í október þegar hann dvaldi hjá okkur Lillu í tvo daga, þá orðinn heilsulítill, vildi hann endilega taka lagið með henni, þau sungu saman nokkur lög og höfðu gaman af. Þá var ákveðið að fara á skype og tala við dóttursoninn, Einar Óla í Danmörku, og endaði sá símafundur í samsöng á milli landanna þar sem þau þrjú sungu saman nokkur lög og skemmtu sér hið mesta. Nú nýlega þegar Elísabet Inga dóttir okkar kom í heimsókn til hans á spítalann tók hann eftir því að von var á nýju langafabarni og við sýndum honum þrívíddarmynd af litlu ófæddu dömunni sem er væntanleg nú um áramótin, þetta þótti honum stórfurðulegt að hægt væri að gera og gladdist yfir því að hægt væri að kíkja í pakkann. Tengdapabbi hafði einstaklega notalega nærveru, alltaf yfirvegaður, brosmildur og vildi hafa eitthvað fyrir stafni. Hann þakkaði langlífi sitt því að hann hafi alltaf unnið mikið og gætt hófs í mat og drykk.

Ég er þakklátur fyrir þá gæfu að hafa átt vegferð með Katli í tæp 40 ár.

Ég og fjölskylda mín þökkum og blessum minningu góðs manns. Megi góður Guð styrkja okkur öll sem syrgjum.

Kristófer Einarsson.

Hann afi minn var enginn venjulegur karl. Hann var góður karl sem vildi öllum vel og hafði fá orð um veikleika annarra. Hann var vinnusamur og handlaginn smiður, söngelskur og skemmtilegur og það var alltaf stutt í grínið. Í barnslegri minningunni þá er hann hávaxinn í gráum jakka, með grátt hár en fagurgljáðan skalla og keyrir um á hvítum pick-up-bíl. Hann hafði stórt hjarta og risastórar klunnalegar en hlýjar hendur sem gátu samt á undraverðan hátt klætt litla stelpurófu í fingravettlinga sem var síðan vandlega pakkað undir ermastroffið á úlpunni því ekki mátti vera bert á milli. Mér þótti kraftaverki líkast hvaða fínhreyfingar voru mögulegar með þessum tröllslegu hrömmum.

Afi hafði alltaf tíma og þolinmæði til að tala við börn. Hann var mér góður afi og hann var dætrum mínum góður langafi, en það eru ekki margir níræðir menn sem leiða börn á öðru ári í berjamó, setjast á gólfið til að púsla eða baksa við að koma upp hengirúmi í tré fyrir kröfuharða sex ára prinsessu, en hann afi minn gerði þetta allt.

Sem börn, þá lögðum við systurnar leið okkar reglulega til afa á Reykjabrautina og þá voru oft einhverjir vinir með í för. Við svöruðum þegar hann ávarpaði okkur Immu og Lillu eins og ekkert væri eðlilegra, þó svo að við heitum sjálfar Eva og Ella og hin nöfnin tilheyri dætrum afa sem honum þótti við svo líkar. Af hverju kallar afi þinn þig Immu? spurði vinkona mín hissa eftir eina heimsóknina en mér fannst ekkert eðlilegra, því fyrir mér var þetta bara eitt af því skondna sem var svo skemmtilegt og sjarmerandi við hann afa minn.

Eins og áður sagði, þá var hann afi þegar með skalla þegar ég kom til sögunnar. Ég þurfti snemma á lífsleiðinni að ræða þessa vöntun á hári við manninn og þá stóð ekki á svörum. Hann hafði verið að keyra svaka hratt á bíl með engu þaki og hárið fauk bara af. Ég trúði auðvitað hverju orði og ímyndaði mér að hann hefði verið á hermannajeppa. Ég sá hann fyrir mér þeysast Óseyrarbrautina í Þorlákshöfn á ofsahraða á grænum Willys, með engu þaki, og rétt í þann mund þegar hann brunar fram hjá söluskálanum þá fýkur hárið af. Ég var sennilega byrjuð að hanga í Skálanum á kvöldin þegar það rann upp fyrir mér að það væri sennilega önnur og eðlilegri skýring á skallanum hans afa.

Elsku afi minn. Ég kveð þig með söknuð í hjarta. Þegar ég hitti þig síðast varstu aftur orðinn barn. Þú talaðir fallega um foreldra þína og sagðist ákveðinn ætla heim í sumar. Áður hafði ég heyrt þig segja að þú værir ekki veikur, heldur bara gamall. Gamall maður hvílir nú lúin bein og ég sé þig fyrir mér ungan aftur, í sumarblíðu í sveitinni þinni. Vertu sæll afi minn.

Eva Dögg Kristjánsdóttir.

Afi Ketill var góður og ljúfur maður. Hann var með stóran faðm sem umvafði mann þéttu og hlýju faðmlagi og svo var hann líka með óvenjustórar hendur og hlýjar. Ég hafði svo sem aldrei veitt þessu athygli með stærðina á höndunum fyrr en ég var orðin fullorðin og vinkona mín hafði það á orði að afi minn væri með stærstu hendur sem hún hefði séð. Ég var aftur minnt á handastærðina þegar sonur minn fæddist en hendurnar hans voru óvenjustórar miðað við ungbarn og minntu á hendurnar hans afa. Það er sko ekki leiðum að líkjast.

Þegar ég var krakki þá bjó afi í Þorlákshöfn eins og við systur en amma dvaldi hins vegar langdvölum á höfuðborgarsvæðinu. Í þau skipti sem maður kom við á Reykjabrautinni lumaði afi iðulega á Canada dry og brúnni lagtertu. Ein mest ljóslifandi minningin mín úr barnæsku er af afa Katli hjá mér við innganginn vaskahúsmegin á Reykjabrautinni að syngja „Hver var að hlæja“. Reyndar var afi alltaf syngjandi, hann söng fyrir okkur barnabörnin allar heimsins vísur og hann trallaði líka og söng fyrir langafabörnin enda lagviss og með fallega söngrödd.

Afi og amma áttu lengi vel hjólhýsi á Laugarvatni og það voru farnar ófáar ferðir með afa þangað á hvíta pikkanum þar sem hann benti á fjöllin og önnur kennileiti í náttúrunni á leiðinni og þuldi upp fyrir okkur nöfnin á þeim. Einu sinni tók afi sig til, útvegaði bát og réri með barnabörnin út á Laugarvatn. Það vildi ekki betur til en að kallinn datt í vatnið í miðri ferð og er ferðarinnar helst minnst fyrir það.

Afi var ótrúlega hraustur líkamlega allt fram undir það síðasta og lét sig ekki muna um að skella sér niður á fjóra fætur og bjóða langafabörnunum á hestbak. Hann settist líka alltaf með litlu langafabörnunum á gólfið og lék við þau á þeirra plani. Á hverju hausti passaði hann sig að hreinsa upp öll ber á landinu þeirra ömmu við bústaðinn og mátti iðulega sjá rassinn á honum standa út í loftið einhvers staðar uppi í brekku og einhvern tíman fyrir ekki svo löngu þá sá hann ástæðu til að spyrja okkur systur hvort að við treystum okkur upp brekkuna, hann þá 87 ára og við rétt um þrítugt!. En það var einmitt uppi í bústað þar sem hann undi sér best, í hlíð heimafjallsins með útsýni yfir sveitina.

Í lokin læt ég hér fylgja vísuna sem afi söng svona eftirminnilega fyrir mig og ég mun aldrei gleyma:

Hver var að hlæja þegar ég kom inn?

Kannski' að það hafi verið kötturinn.

Æi nú, jæja, látum hann þá hlæja,

kannski' að hann hlæi ekki' í annað sinn.

(Höfundur ókunnur.)

Elsku afi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Þú lifir í hjörtum okkar.

Elínborg (Ella), Daði

og Hrafnkell Freyr.