Smámál fær tugi klukkustunda og fjölda nefndarfunda á Alþingi Íslendinga

Landsmenn eru löngu farnir að huga að jólum og eru uppteknir við annað en það málþófskarp sem nú fer fram á Alþingi. Og ekki er að undra að þeir hafi lítinn áhuga á að fylgjast með þingstörfum þessa dagana.

Eitt lýsandi dæmi um hvernig umræðan þar gengur fyrir sig er lítið frumvarp frá utanríkisráðherra um málefni þróunarsamvinnu Íslands, sem gengur út á að færa þau mál undir einn hatt í nafni einföldunar og aukinnar skilvirkni.

Ætla mætti að ekki þyrfti að hafa um þetta mjög mörg orð. Málið er tiltölulega einfalt og þingmenn geta verið annaðhvort meðmæltir því eða andsnúnir. Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur hins vegar tekið þá afstöðu að þetta mál sé vel til þess fallið að tefja þingstörf og hefur í haust rætt það í fjörutíu klukkustundir í þingsal. Og þetta bætist við þá umræðu sem fram fór á liðnu þingi, þegar nánast sama mál fékk einnig rækilega meðferð.

En þetta er ekki allt. Í löngum dagskrárumræðum í gær var þetta mál mjög rætt og þá upplýsti Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, að málið hefði verið rætt á sextán fundum nefndarinnar.

Útilokað er að halda því fram að þetta litla mál um tæknilega útfærslu á því hvar verkefni þróunarsamvinnu skuli unnin kalli á alla þessa umræðu. Nema að vísu umræðan hafi þann tilgang að halda þinginu uppteknu og að halda þingmönnum frá því að ræða og afgreiða það sem máli skiptir.

Getur verið að það eitt hafi áhrif á framgöngu stjórnarandstöðunnar á þingi um þessar mundir?