Hátíð Óhætt er að slá því föstu að það verði kátt á jólunum í næstu viku, hvað svo sem menn vilja kalla frídagana góðu sem framundan eru.
Hátíð Óhætt er að slá því föstu að það verði kátt á jólunum í næstu viku, hvað svo sem menn vilja kalla frídagana góðu sem framundan eru. — Morgunblaðið/Kristján
Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Framundan eru í næstu viku fjórir frídagar og hefur það vakið hina árlegu umræðu um hvenær tala megi um „brandajól“.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Framundan eru í næstu viku fjórir frídagar og hefur það vakið hina árlegu umræðu um hvenær tala megi um „brandajól“. Stutta svarið er að nákvæm skilgreining á hugtakinu er ekki til, en það er notað þegar jól falla þannig á vikudaga að margir helgi- og frídagar lenda í röð. Mun að minnsta kosti óhætt að tala um „litlu brandajól“ í ár þegar aðfangadag ber upp á fimmtudag og sunnudagurinn er fjórði frídagurinn í röð.

Í bók Árna Björnssonar þjóðháttafræðings Sögu daganna kemur fram að elsta heimildin um hugtakið er runnin frá Árna Magnússyni prófessor um 1700. „Brandajól kalla gamlir menn á Íslandi þá jóladag ber á mánadag, áttadag á mánadag og þrettánda á laugardag,“ skrifaði hann. Mismunandi skilningur hefur verið lagður í hugtakið alla tíð og spilar þar inn í að árið 1770 voru þriðji í jólum og þrettándinn afhelgaðir af Danakonungi. Þá hefur laugardagur orðið almennur frídagur.

Orðið „branda“ vafist fyrir fólki

Orðið „branda“ hefur líka vafist fyrir mönnum. Samkvæmt bók Árna er algengasta skýringin sú að merkingin komi frá eldibrandi eða eldiviði. Þurftu menn að draga að mikinn eldivið fyrir jólin þar sem þeir máttu ekki vinna á jólafrídögunum. Þetta er þó ekki vitað með vissu og kemur nafngiftin efalaust til með að valda mönnum heilabrotum áfram.

Í fyrra, þegar aðfangadagur var á miðvikudegi og frídagarnir urðu fimm, urðu nokkrar umræður um þetta mál. Niðurstaðan varð þá, samkvæmt úrskurði Árna Björnssonar þjóðháttafræðings í samtali við Morgunblaðið, að það væru stóru brandajól, en það orð er líka gamalt í málinu.

Í Sögu daganna telur Árni eðlilegast að tala um stóru brandajól þegar aðfangadagur fellur á mánudag eða miðvikudag og litlu brandajól þegar aðfangadag ber upp á sunnudag eða fimmtudag eins og núna.

Brandajól
» Nú er yfirleitt talað um brandajól þegar margir frídagar lenda í röð.
» Elsta heimildin um orðið er frá því um 1700.
» Breytingar á helgidögum og frídögum hafa áhrif á hvernig menn skilja hugtakið.
» Árni Björnsson þjóðháttafræðingur gerir greinarmun á stóru brandajólum og litlu brandajólum.