Landeyjahöfn Miklar frátafir eru við siglingar Herjólfs til Landeyjahafnar yfir vetrarmánuðina. Ferjan hefur þurft að sigla til Þorlákshafnar.
Landeyjahöfn Miklar frátafir eru við siglingar Herjólfs til Landeyjahafnar yfir vetrarmánuðina. Ferjan hefur þurft að sigla til Þorlákshafnar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Helgi Bjarnason helgi@mbl.

Sviðsljós

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Ásmundur Friðriksson, alþingismaður í Suðurkjördæmi, vill að fengnir verði óháðir sérfræðingar í sandhöfnum til að meta stöðuna í Landeyjahöfn og fara í gegnum það hvort raunhæft sé að ætla að þar verði heilsárshöfn fyrir ferjusiglingar við Vestmannaeyjar. Ef niðurstaðan verði að svo sé ekki þurfi að smíða öðruvísi ferju en nú er í undirbúningi, ferju sem henti til siglinga til Þorlákshafnar hluta úr árinu.

Grafið fyrir rúma 2 milljarða

Ásmundur hefur ekki trú á aðgerðum Vegagerðarinnar í Landeyjahöfn. Segir að búið sé að eyða tveimur milljörðum eða ef til vill eitthvað á þriðja milljarð í dýpkun frá haustinu 2010. Í haust hafi verið farið í fyrirbyggjandi aðgerðir sem kostað hafi 200 milljónir en höfnin síðan lokast í fyrstu brælu. „Þegar farið var að dýpka á ný var dýpið í innsiglingunni 3 metrar. Það sýnir að vasarnir sem voru grafnir voru orðnir fullir og sandurinn átti enga aðra leið en að fara inn í höfnina.“

„Menn hafa verið að vaða þarna áfram án þess að á bak við það væru nákvæmar rannsóknir. Eftir að hafa grafið fyrir rúma tvo milljarða eru menn ekkert betur staddir en áður. Það er vaðið áfram en menn sjá ekki fyrir endann á vandamálinu,“ segir Ásmundur.

Hönnuð hefur verið ný Vestmannaeyjaferja og hefur staðið til að bjóða út smíði hennar. Ásmundur segist sammála því að það þurfi nýja ferju. „En þegar höfnin fyllist alltaf af sandi skiptir ekki máli hversu margar ferjur við smíðum, þær komast ekki inn.“ Hann óttast að ferjan sem verið er að smíða geti ekki notað höfnina nema sjö mánuði á ári vegna ástandsins þar. Þá þurfi að sigla til Þorlákshafnar en skipið henti ekki til þess. „Þetta snýst allt um að vita hvernig höfn við höfum í raun yfir að ráða og smíða skip í samræmi við það,“ segir Ásmundur.

Tíminn notaður til endurbóta

Lokið er hönnun nýrrar Vestmannaeyjaferju og rætt hefur verið um að smíði hennar verði boðin út fyrir áramót. Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að þau áform að bjóða smíði skipsins út sem ríkisframkvæmd og einkaframkvæmd hafi valdið töfum á útboðinu. Hann segist hafa þær upplýsingar frá innanríkisráðuneytinu að búið sé að skila greinargerð um það út til Evrópu og að verkið verði boðið út á allra næstu dögum, vonandi fyrir jól en allavega fyrir áramót.

Elliði tekur fram að bæjarstjórn hafi alla tíð verið samhljóða í afstöðu sinni til málsins. Það sé hins vegar eðlilegt að margir bæjarbúar hafi ekki traust á Landeyjahöfn eftir það bras sem verið hafi með höfnina. Það beri að virða.

„Landeyjahöfn er komin til að vera. Okkar krafa er að tafarlaust verði smíðuð ný ferja og smíðatíminn notaður til að breyta höfninni svo hún henti fyrir ferjusiglingarnar,“ segir Elliði.

Þarf að laga aðkomuna

„Það er fínt að fá nýtt skip. Við teljum þó að það geri lítið. Það þarf að laga aðkomuna að höfninni, það vita allir,“ segir Steinar Magnússon, fyrrverandi skipstjóri á Herjólfi. Hann er í hópi níu skipstjóra á Herjólfi, dýpkunarskipum, Lóðsinum og Víkingi sem nýlega skoruðu á innanríkisráðherra að hlusta á rök sín um Landeyjahöfn og siglingar þangað. Steinar segir að lítið samráð hafi verið haft við skipstjórana. Þeir telji að lengja þurfi hafnargarðana til að koma höfninni í lag. Það sé dýr framkvæmd en fljót að borga sig ef eyða þurfi hálfum til heilum milljarði á ári í dýpkun.