Hefðin Það væri svo auðvelt að fara í einhverja allt aðra átt, og auðvitað vaknar maður stundum með það í kollinum að gera eitthvað allt annað, en það passar bara ekki. Það væri bara ekki Farmers Market. Allt sem við kynnum nýtt í línuna þarf að passa inn í þá sögu sem við höfum verið að skrifa hingað til og byggja upp. Við erum alltaf að vinna inn í henni og bæta við hana,“ segir Bergþóra um sýn fyrirtækisins.
Hefðin Það væri svo auðvelt að fara í einhverja allt aðra átt, og auðvitað vaknar maður stundum með það í kollinum að gera eitthvað allt annað, en það passar bara ekki. Það væri bara ekki Farmers Market. Allt sem við kynnum nýtt í línuna þarf að passa inn í þá sögu sem við höfum verið að skrifa hingað til og byggja upp. Við erum alltaf að vinna inn í henni og bæta við hana,“ segir Bergþóra um sýn fyrirtækisins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska fatamerkið Farmers Market fagnar um þessar mundir tíu ára afmæli og óhætt er að segja að fyrsti áratugurinn hafi verið farsæll.

Íslenska fatamerkið Farmers Market fagnar um þessar mundir tíu ára afmæli og óhætt er að segja að fyrsti áratugurinn hafi verið farsæll. Auk þess hlaut Bergþóra Guðnadóttir, hönnuður fyrirtækisins, hin virtu Indriðaverðlaun um daginn sem veitt eru af meðlimum Fatahönnunarfélags Íslands. Það er von á „fullt af allskonar“ fyrir herrana eins og Bergþóra segir frá.

Það er alltaf gaman að endurskilgreina sig á nokkurra ára fresti og þetta er ein vegstikan á leiðinni,“ segir Bergþóra um yfirstandandi stórafmæli. „Við erum að færa okkur frá því að gera það sem við erum kannski þekktust fyrir, sem eru peysurnar okkar, og yfir í breiðari línu. Við erum komin með meira af yfirhöfnum, skyrtum og fleiru sem okkur hefur þótt vanta inn í. Þetta eru hlutir sem við höfum verið að bæta inn í smám saman. Hugmyndin er að herrarnir geti dressað sig í fötunum okkar frá toppi til táar.“ Í því sambandi bendir Bergþóra á eina nýjung frá Farmers Market, sem eru sokkar. „Við höfum aldrei gert sokka áður og þetta er eitthvað sem við erum búin að vera að hugsa um í nokkur ár.“

– Er þá mál að byrja á því að búa til sokka?

„Nei, það er ekkert mál, en hins vegar langaði mig ekki að búa til sokka sem væru þegar til á Íslandi frá einhverju öðru merki. Ég vildi gera eitthvað öðruvísi og ég vildi líka að þeir yrðu einkennandi fyrir okkur.“ Niðurstaðan er þrjár mismunandi gerðir af sokkum sem heita Reykjahlíð, Túnfótur og Barðastaðir. Og þeir líkjast sannarlega ekki öðrum sokkum á markaðnum. Ullarsokkar, en samt ekki. „Það er ekkert mál að ráðast í nýja hluti en það skiptir máli hvaða nálgun maður tekur og hvaða leið maður fer. Við tökum hvert nýtt skref mjög varlega og þannig hentar okkur best að víkka út fatalínuna okkar.“ Lífrænn vöxtur hentar þeim best og hefur gert frá upphafi, bætir Bergþóra við. Ekki þarf að búast við skuldsettum yfirtökum á keppinautum Farmers Market, hvorki á næstunni né nokkurn tíma.

Verðlaun sem hafa mikla þýðingu

Í nóvember síðastliðnum hélt Fatahönnunarfélag Íslands árlega uppskeruhátíð sína og við það tækifæri voru veitt hin svokölluðu Indriðaverðlaun, en þau eru veitt annað hvert ár þeim fatahönnuði sem þykir hafa skarað fram úr. Í ár féllu þau einmitt Bergþóru í skaut. Verðlaunin eru kennd við klæðskerann og fatahönnuðinn Indriða Guðmundsson, en hann féll frá langt fyrir aldur fram hinn 30. október árið 2006. Hvaða merkingu skyldu verðlaunin hafa fyrir Bergþóru og Farmers Market?

„Verðlaunin hafa einmitt ótrúlega mikla þýðingu þegar maður er búinn að vera að í heil tíu ár, finnst mér. Það er í rauninni svo auðvelt að byrja á einhverju, svo auðvelt að gera sig sýnilegan í upphafi. En það sem er aftur á móti flóknara mál, og það er eins hjá öllum listamönnum hvort heldur um er að ræða fatahönnuði, tónlistarmenn, rithöfunda eða myndlistarmenn, er að klára verk númer tvö og þrjú og fjögur. Úthaldið er nefnilega meira mál og þess vegna þótti mér mjög vænt um þetta.“

Þess utan hafa verðlaunin aðra og meiri þýðingu fyrir Bergþóru því hún þekkti Indriða heitinn persónulega og sat með honum í nefnd sem stofnaði Fatahönnunarfélag Íslands. „Svo hefði hann örugglega glaðst mikið yfir því að verðlaun væru veitt í hans nafni því hann var svo mikill stemningsmaður, og ég sakna hans ótrúlega mikið. Auk þess er það fólk úr bransanum sem veitir verðlaunin og fagfólk hugsar svona viðurkenningar aðeins öðruvísi en almenningur, og les líkast til í fleiri hluti við valið. Svo mér þykir í raun vænt um þessi verðlaun á mörgum forsendum. Það er gaman að tekið sé eftir því sem maður er að gera.“

Nýtt og flott fyrir herrana

Eins og þegar er getið er Farmers Market að útvíkka fatalínur sínar og það hefur ýmislegt spennandi bæst við fyrir strákana. Á meðal þess sem fangar auga blaðamanns er hvíta skyrtan Skógar, denim-skyrtan Eystri-Skógar (sem reynist úr hinu lungamjúka lyocell-efni þegar að er gáð), tvíhnepptur ullarjakki að nafni Klaustur og svo síðast en ekki síst sokkarnir sem áður sagði frá.

„Mér finnst mjög gaman að gera herraföt og í rauninni finnst mér ekki síður gaman að fara með Jóel [Pálssyni, eiginmanni Bergþóru og meðeiganda fyrirtækisins og vitaskuld saxófónleikara með meiru] að versla. Mér finnst það ofsalega gaman. Kannski er það líka vegna þess að mér finnst að mörgu leyti haldið í einhverja sjarmerandi 'heritage' stemningu í herrafatnaðinum. Fólk tekur bara alls konar vinkla á klassíska hluti í herrafatnaðinum,“ bætir hún við.

– En setur maður sig í öðruvísi stellingar þegar teiknað er á herrana?

„Að mörgu leyti er auðveldara að gera herraföt,“ útskýrir Bergþóra. „Tískan breytist ekki jafn hratt þar, og að mörgu leyti finnst mér skemmtilegra hvernig herratískan þróast. Kvenfatatískan hefur kannski verið í aðeins meiri krísu – það er búið að gera svo mikið, því tískuhúsin eru kannski að gera fjórar til sex línur á einu ári og það er orðið svolítið þreytt. Bransinn talar líka talsvert um það um þessar mundir og það er ekki að undra því þetta er bara rugl.“ Það er auðheyrt að Bergþóra lætur sig sjálfbærni og umhverfisvæna starfshætti varða því það er ekki laust við að röddin hækki aðeins þegar þessa hlið tískubransans ber á góma. „Þetta gengur bara ekki upp! Mér finnst þessi bilun ekki eins tengd herratískunni. Ég hef til dæmis alltaf fylgst með tískuvikunum og í kjölfarið lagst yfir septemberhefti Vogue. Núna eru hinsvegar svo margar dömutísku- vikur og þær eru úti um allt. En ég fylgist núna með herratískusýningunum og götutískunni í Mílanó og París. Það er einhver gleði þar ennþá sem er pínulítið farin úr kvenfatatískunni.“

Trú uppruna Farmers Market

Bergþóra sagði undirrituðum eitt sinn í viðtali – og hefur sagt víðar – að Farmers Market væri hugsað sem svo að í merkinu mættist sveit og borg, í raun gamli tíminn og nútíminn. Þetta leiðarljós hefur Bergþóra í heiðri, þó svo að hún kynni til leiks nýjar flíkur og nýja fylgihluti. „Já, alltaf. Það væri svo auðvelt að fara í einhverja allt aðra átt, og auðvitað vaknar maður stundum með það í kollinum að gera eitthvað allt annað, en það passar bara ekki. Það væri bara ekki Farmers Market. Allt sem við kynnum nýtt í línuna þarf að passa inn í þá sögu sem við höfum verið að skrifa hingað til og byggja upp. Við erum alltaf að vinna inn í henni og bæta við hana.“

– Og verður alltaf nægur innblástur í þessari sögu?

„Já, það verður alltaf nægur innblástur þar. Við viljum passa upp á að þetta myndi áfram heild, segi áfram þessa sögu.“

jonagnar@mbl.is