Erlingur B. Thoroddsen fæddist 15. júlí 1948. Hann lést 3. desember 2015.

Útför Erlings fór fram 14. desember 2015.

Kæri bróðir. Mér finnst erfitt að hugsa til þess að þú skulir hafa farið svo snemma frá okkur. Það var svo margt sem við áttum eftir að gera saman. Örlög ungs fólks, sem ekki gat lokið lengri skólagöngu en barnaskóla í heimabyggð sinni, voru þau að fara ung að heiman til frekara náms. Fimm ára aldursmunur er ekki mikill en varð til þess að við vorum ekki lengi saman í æsku. Samt náði ég því að geta stolist í fötin þín þegar mikið lá við á unglingsárum. Þau voru of stór og þú ekki hrifinn en samt gekkstu ekki hart að mér vegna þessa. Svo fórum við hvor í sína áttina. Þú suður, ég norður og þú svo austur á Bláhorn eins og kunningi minn einn kallar Melrakkasléttuna.

Ég sá fram á að við færum að hafa tíma til að vera meira saman þegar erill vinnudagsins færi að minnka. Við áttum eftir að kafa dýpra í sameiginleg áhugamál. Heimahagana, Látra og sögu frændfólks sem löngu er farið. Þegar þú sagðir mér frá veikindum þínum og ég spurði hve alvarleg þau væru var svarið: Ætli þetta sé ekki bara vindverkur. Svolítið líkt þér að gera lítið úr slæmri heilsu þinni.

Það var gott að koma til þín hvar sem það var, fyrir sunnan eða austan. Höfðingi heim að sækja. Við fjölskyldan eru þakklát og eigum góðar minningar þar um. Einhver besta æskuminning Braga sonar okkar er þegar hann fór með Skafta vini sínum til þín austur á Sléttu með tjald og veiðibúnað. Þú vísaðir þeim veginn að veiðivötnunum og slepptir þeim lausum. Þeir komu sér til byggða eftir nokkra daga, mikið ævintýri og góða veiði. Alsælir.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Kæra Ágústa, Arnar, Þórgnýr, Rakel Fríða, Elías og fjölskyldur. Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra. Kveðja,

Ólafur B. Thoroddsen

og Þóra Ákadóttir.

Enginn slítur þau bönd,

sem hann er bundinn heimahögum

sínum.

Móðir þín

fylgir þér á götu, er þú leggur af

stað út í

heiminn,

en þorpið fer með þér alla leið.

...

(Jón úr Vör.)

Þrír kostulegir kverúlantar voru herbergisfélagar á Bifröst veturinn 1966-1967. Undirritaður, miðbæjarrotta úr Reykjavík, villuráfandi vinstri sauður með skáldagrillur, Benni Steingríms, listrænn ljúflingur frá Akureyri, af framsóknarættum og loks Erlingur Bragason, Patreksfirðingur, góður íhaldsmaður, skáldmæltur og lífsreyndur þrátt fyrir ungan aldur. Við félagarnir náðum vel saman í grallaraskapnum undir styrkri stjórn Erlings. Sagðar voru drykkju- og kvennafarssögur, sannar og lognar, og framdir ýmsir gjörningar í anda Hitlers og Los Lambos.

Eftir skóla skildi leiðir en grunnur lagður að ævilangri vináttu, einkum mín og Erlings. Benni féll frá fyrir tíu árum, á besta aldri.

Fyrstu árin eftir útskrift var Erlingur skrifstofumaður hjá Eimskip en ég vann í Útvegsbankanum. Það var gaman að lifa á þessum árum. Við vorum blessunarlega lausir við alla vínfælni, minnugir orða Lúthers er hann segir (í snilldarlegri þýðingu séra Guðmundar Sveinssonar á Bifröst): „Sá óð ei elskar vín né víf/hann verður glópur allt sitt líf.“ Þá stunduðu ungir menn íslenskan heimilisiðnað. Erlingur fékk lánuð eimingartæki hjá Hauki frænda sínum og við suðum landa með þeirra tíma tækni. Landinn var ætíð með þrálátu suðubragði en við létum okkur hafa það! Seinna komu viðarkolin sem gerbreyttu öllu til hins betra. En þá vorum við hættir að brugga.

Að vestfirskum sið sauð Erlingur okkur skötu á Þorlák 1969. Sú máltíð er ógleymanleg, því gestgjafinn hellti hálfri brennivín í pottinn með skötubörðunum og smakkaðist dýrðlega!

Eftir að Erlingur varð hótelstjóri á Raufarhöfn fækkaði okkar fundum. Ég skrapp þó stundum norður og naut gestrisni þeirra hjóna, Ágústu og Erlings. Það voru ánægjustundir. Þau voru glæsileg hjón og vinsæl meðal heimamanna. Erlingur gerðist snemma þaulkunnugur sögu og náttúru byggðarlagsins, svo leitun var á fjölfróðari manni um þær slóðir. Hugarfóstur hans, Heimskautsgerðið, hefur laðað að fjölda ferðafólks til Raufarhafnar.

Erlingur var víðlesinn og hafði t.d. á hraðbergi tilvitnanir úr verkum Guðbergs Bergssonar.

Stundum var hann „ögn til hliðar við aðra menn“ eins og sagt var í gamni um nóbelsskáldið. Þegar leiðtogi kirkjunnar gerðist fjölþreifinn til kvenna og fékk bágt fyrir hjá þjóðinni fann Erlingur annan vinkil á málinu. Hann sendi bispa bréf og stappaði í hann stálinu!

Við Laufey sendum Ágústu og allri fjölskyldunni dýpstu samúðarkveðjur.

Við leiðarlok þakka ég tæplega 50 ára trausta vináttu og læt skáld tregans, Tómas Guðmundsson, eiga síðasta orðið:

Ei þekkti eg ást sem aldrei dó.

En ást, sem gerði lífið bjart

um stundarbið, ég þekkti þó.

Og þegar næturhúmið svart

um sálu mína síðast fer

og slökkur augna minna glóð,

þá veit ég hvaða ljúflingsljóð mun líða hinzt að eyrum mér:

Ó, fagra veröld, vín og sól, ég

þakka þér!

Gunnar Finnsson.

Það var glaðvær hópur sem hóf nám við Samvinnuskólann á Bifröst haustið 1965. Erlingur B. Thoroddsen frá Patreksfirði var einn af þessum nýju nemendum við skólann. Hann mætti heldur seinna en við hin og var komið fram á kvöld þegar hann birtist á setrinu. Það var laust rúm á herberginu hjá okkur Jörundi Ákasyni og var Erlingi vísað til okkar. Herbergið hét Framtíðin og þarna bjuggum við þrír veturinn 1965-1966.

Það kom fljótt í ljós að þarna var mættur góður félagi sem féll óðara inn í nemendahópinn og einnig eignaðist hann vini í hópi starfsmanna með glettni sinni og einlægni. Það var t.d. eftirminnilegt að fylgjast með rökræðum Erlings og Guðlaugar skólastjórafrúar og heyra Guðlaugu segja þegar Erlingur var horfinn á braut: „Hann er yndislegur hann Erlingur.“ Þetta lýsir vel hve Erlingur átti gott með að ná til fólks og að aldur skipti engu máli í samskiptum hans við samferðamennina.

Erlingur stundaði nám sitt vel eins og aðrir sem voru undir skólastjórn Guðmundar Sveinssonar, annað var heldur ekki í boði hjá skólastjóranum á Bifröst, þeim mikla dugnaðarforki og frábæra skólamanni. Samvinnuskólinn á Bifröst var á þessum tíma talinn einn besti sérskóli landsins og nemendur þaðan voru hvarvetna eftirsóttir til starfa.

Á heimavistarskóla eins og Bifröst eignast fólk vini og félaga til lífstíðar. Við bekkjarsystkinin komum síðast saman í haust þegar 50 ár voru liðin frá því að við hittumst fyrst. Erlingur var því miður ekki í þeim hópi, en hann mætti ásamt konu sinni í fyrravor á Nauthóli, en engan grunaði að það yrði í síðasta sinn sem hann yrði með okkur og verður hans sárt saknað.

Erlingur stundaði framhaldsnám í Edinborg. Hann vann hjá nokkrum fyrirtækjum í Reykjavík m.a. Eimskip og Olís. Hann annaðist leiðsögn ferðafólks og rak gistiheimili í Reykjavík. Árið 1996 flutti Erlingur til Raufarhafnar ásamt Ágústu eiginkonu sinni til að reka Hótel Norðurljós. Samhliða hótelrekstrinum sinnti Erlingur margvíslegum félagsmálum, m.a. átti hann sæti í menningarnefnd Raufarhafnarhrepps. Hann var áhugamaður um ljósmyndun og hafði yndi af útivist. Þá var hann frumkvöðull að heimskautsgerðinu á Melrakkaásnum ofan við Raufarhöfn.

Erlingur hlaut hvatningarverðlaun Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga árið 2009. Hann hlaut viðurkenninguna fyrir eftirtektarverðan árangur í rekstri ferðaþjónustu og óbilandi frumkvæði að nýsköpun sem nýtast mun svæðinu sem aðdráttarafl fyrir ferðamenn um ókomin ár.

Erlingur er sá fimmti af útskriftarárgangi 1967 sem fellur frá. Við bekkjarsystkinin sem eftir stöndum minnumst góðs vinar, þökkum liðnar samverustundir og biðjum honum allrar blessunar á nýju tilverustigi. Ágústu, börnum þeirra og öðrum ástvinum vottum við okkar dýpstu samúð.

Gísli Jónatansson.

„Maður kemur í manns stað“ en jafn fleyg er setningin að „skarð sé fyrir skildi“ er fellur góður liðsmaður. Í baráttu Melrakkasléttu og Raufarhafnar fyrir tilveru sinni var Erlingur Thoroddsen ekki aðeins góður liðsmaður, heldur var hann ótrauður við að hvetja fólk áfram, benda á sóknarfæri og sanna að þetta svæði hafi upp á margt að bjóða sem gestir hafi gagn og gaman af. Erlingur var ekki aðeins í vörn, heldur öflugur sóknarmaður og barátta hans skilaði árangri. Fámennt lið mátti því einfaldlega ekki við því að missa hann, en skapadægur velja menn ekki – þar er annar sem ræður.

Á síldarárunum er silfur hafsins hélt landsjóði uppi og gerði Íslendingum loks kleift að rétta að fullu úr bakinu eftir margra alda streð var Raufarhöfn malandi gullkvörn. Er síldin hvarf virtist ekki þörf fyrir staðinn lengur og erfiðir tímar tóku við.

Þegar heimamenn náðu vopnum að nýju hófst barátta fyrir tilverunni sem hér verður ekki rakin, nema hvað hún stendur enn. Það vakti athygli er hótel var opnað á staðnum árið 1973; Hótel Norðurljós.

Þrátt fyrir erfiðan rekstur og tíð skipti á hótelstjórum tókst að halda því á floti.

Það var svo árið 1996 að enn einn hótelstjórinn birtist. En hann kom ekki einn, hafði með sér unga konu og eitt af fyrstu verkum þeirra Erlings og Ágústu var að ganga í hjónaband að hætti ásatrúarmanna og fór athöfnin fram á þá skráðum nyrsta hluta landsins – Hraunhafnartanga, hvar reka má tærnar norður fyrir heimskautsbauginn.

Í tuttugu ár hafa þau hjónin staðið vaktina á Hótel Norðurljósum og sífellt sótt fram með það að markmiði að reka þar fyrsta flokks hótel, fjölga gestum og vekja athygli á því sem svæðið hefur upp á að bjóða.

Er ég, fyrir sex árum, hóf vinnu við ritun sögu Melrakkasléttu, er senn sér fyrir endann á, hitti ég Erling til að heyra reynslu hans og framtíðarsýn. Ekki stóð á því en fyrst og fremst vakti athygli mína brennandi áhugi hans á svæðinu og öllum þeim möguleikum sem hann sá að það hefði upp á að bjóða.

Ég hef ráðið næturstað nokkurra hópa sem leið hafa átt um Melrakkasléttu og stoltur vísað á Hótel Norðurljós. Síðastliðið sumar var ég þar með 40 manns og eftir að hafa komið sér fyrir var safnast saman og spjallað. Bað ég Erling að segja okkur frá Heimskautsgerðinu sem rís við Raufarhöfn og vekur nú þegar athygli þótt ekki sé fullgert. Orðræða hans og einlægur áhugi á málinu fangaði gestina svo mjög að þeir gleymdu að dreypa á drykkjarhornum. Heimskautsgerðið er hans hugmynd og þótt aðrir hafi komið þar að var Erlingur heili og drifkraftur verksins. Ég er viss um að fullskapað verði það meiri segull fyrir ferðamenn en marga grunar og haldi nafni Erlings á lofti.

Melrakkasléttan og Raufarhöfn standa mér nærri og ég met þá mikils sem vinna svæðinu vel. Þeirra á meðal var Erlingur Thoroddsen. Um leið og ég þakka honum ágæta kynningu og störf í þágu byggðarlagsins votta ég Ágústu og öðrum aðstandendum einlægustu samúð mína.

Blessuð sé minning Erlings og megi hann friðar njóta á fögrum völlum þess sem okkur er æðri.

Níels Árni Lund.

Það er alltaf dapurlegt þegar öflugt fólk sem á margt eftir ógert fellur frá á góðum aldri. Það fór kaldur gustur um hugann þegar fréttir bárust um að Erlingur hótelstjóri á Raufarhöfn væri allur. Ég kynntist Ella fyrst fyrir alvöru eftir að hann flutti með Ágústu sinni til Raufarhafnar á útmánuðum 1996. Ég mundi þó eftir honum sem ungum manni vestur á Patró. Fjögur ár voru reyndar mikill aldursmunur á þeim árum. Hann fór snemma að vestan og því vissi ég einungis af honum af afspurn áratugum saman. Ég hef oft hugsað um það síðar að það hefur þurft töluverða áræðni að flytjast norður til Raufarhafnar og taka við rekstri Hótel Norðurljósa fyrir 20 árum. Aðstæður á hótelinu voru svo sem ekki sérstakar á þessum tíma. Að stofni til var hótelið gömul verbúð sem hafði verið skveruð upp á ódýran hátt. Það kom hins vegar fljótt í ljós að Elli kunni eitt og annað fyrir sér í þessum bransa. Hann var listakokkur, hann hafði auga fyrir einu og öðru áhugaverðu í umhverfinu sem þeir sem kunnugri voru höfðu ekki veitt sérstaka athygli og að síðustu hafði hann tengsl við erlenda aðila í ferðabransanum sem kunnu að meta sérstöðu Sléttunnar. Allt þetta skipti máli í hótelrekstrinum. Hreppsnefndin og samfélagið báru gæfu til að styðja við bakið á honum og það var hafist handa við að gjörbreyta hótelinu af miklum metnaði. Það verk tók nokkur ár en þegar upp var staðið var Hótel Norðurljós orðið besti gististaðurinn á stóru svæði norðaustanlands. Vertinn naut sín vel við fyrirtaksaðstæður. Elli var náttúruunnandi í þess orðs víðustu merkingu. Björgunarsveitarmaður, ljósmyndari, fuglaspekingur og veiðimaður. Slíkir menn búa við kjörlendi á Sléttunni. Hann kenndi mér m.a. að síga í björg í eftirminnilegum ferðum út á Langanes. Það var reyndar eitthvað haft á orði eftir á að við hefðum ekki alveg þekkt gleggstu skil á landamerkjum. Landeigendur voru hins vegar það stórir að þeir voru ekki að erfa það við langt að komna Vestfirðinga þótt þeir færu heim með fáein egg til einkanota. Í þessum ferðum voru engir undanskildir sem vildu láta reyna á getuna. Enn í dag eru þær rifjaðar af og til upp hér á bæ sem hámark manndómsvígslunnar hjá ungum drengjum. Það eru ekki margir sem ná að skilja eftir sig bautasteina sem fanga athygli almennings langt út fyrir landsteinana. Í góðum hópi áhugasamra félaga var Elli frumkvöðull, hugmyndasmiður og drifkraftur að þróun og byggingu Heimskautagerðisins. Þrátt fyrir að þar sé margt enn óunnið er það nú þegar orðið merkasta kennileiti Raufarhafnar.

Elli var ásatrúarmaður í þess orðs bestu merkingu. Hann var mikill náttúruunnandi en einnig glúrinn í kennisetningunni. Í byggingu Heimskautagerðisins náðist að tvinna þetta tvennt saman. Þess vegna er það svo merkilegt og þess vegna fær það verðskuldaða athygli. Það ásamt svo mörgu öðru mun tengja minningu Ella órjúfanlegum böndum við sögu Raufarhafnar um ókomna framtíð.

Gunnlaugur Júlíusson.