Ég hitti karlinn á Laugaveginum og hann var með daufara móti – sagðist hafa verið á skammvistun á Borgarspítalanum og tautaði fyrir munni sér: Innan við ganginn er gangur; ég er gleymdur og einmana, svangur; rúmið er hvítt og rökkrið er sítt...

Ég hitti karlinn á Laugaveginum og hann var með daufara móti – sagðist hafa verið á skammvistun á Borgarspítalanum og tautaði fyrir munni sér:

Innan við ganginn er gangur;

ég er gleymdur og einmana, svangur;

rúmið er hvítt

og rökkrið er sítt –

ég ligg hérna endilangur.

Og áfram hélt hann að tauta:

Hvort hún áleit mig ófiman, fiman?

Það er allra verst þetta með svimann!

Hún horfði mig á

á skjön og á ská

og skyggndist í innsta kimann.

Einar Guðfinnsson, forseti Alþingis, varð sextugur 2. desember sl. Friðrik Steingrímsson orti:

Fyrir honum virðing vex

veldur engum trega;

tórað hefur tugi sex

og tekist bærilega.

Og karlinn á Laugaveginum sendi flokksbróður sínum og leiðtoga afmæliskveðjur:

Réttlætiskennd hans er rík

og ráð hans í pólitík; –

etur krækling úr skel,

hann er virður vel

og borinn í Bolungarvík.

Sigurlín Hermannsdóttir hafði orð á því á þriðjudag að þingmenn væru víst eitthvað að kvarta undan bjölluslætti forseta í gær. – „Þetta er gamalt vandamál og þessi vísa varð til hjá mér af sama tilefni fyrir nokkrum árum þegar þingmaður vildi ræða fundarstjórn forseta:

Þingmaður í stólnum stóð

og stjórn á fundum ræddi.

Forseti varð alveg óð

orða- reyndi að stöðva flóð.

Næstum því úr bjöllunni hún bræddi.“

Davíð Hjálmar Haraldsson hefur lög að mæla:

Mörg af okkur eru stillt og hljóð,

ætíð broshýr, ljúf og þolinmóð.

Þó finnst líka þrasgjarnt, hávært fólk.

Þingmenn ættu að drekka næturmjólk.

Í vikunni var margt ort á Leir um kvengleggni og mangleggni. Friðrik Steingrímsson gat ekki orða bundist:

Lengi skyggnast margur má

í maka leit og ástarfléttu,

ókvenglöggur er þá sá

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is