Hæstiréttur hefur staðfest 15 mánaða fangelsisdóm Héraðsdóms Norðurlands eystra yfir 38 ára gömlum karlmanni, sem sakfelldur var fyrir sex þjófnaðarbrot samkvæmt tveimur ákærum.

Hæstiréttur hefur staðfest 15 mánaða fangelsisdóm Héraðsdóms Norðurlands eystra yfir 38 ára gömlum karlmanni, sem sakfelldur var fyrir sex þjófnaðarbrot samkvæmt tveimur ákærum.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að maðurinn, Héðinn Óli Sæunnarson, hafi margsinnis verið dæmdur til refsingar og þar af tíu sinnum fyrir auðgunarbrot. Þá hefði Héðinn rofið skilorð reynslulausnar sem honum hafði verið veitt. Hins vegar var það virt honum til refsimildunar að hann hefði játað skýlaust þá háttsemi sem honum var gefin að sök hjá lögreglu og fyrir dómi.

Brotin, sem maðurinn var dæmdur fyrir nú, voru framin í maí og október á síðasta ári. Braust hann inn í nokkur fyrirtæki á Akureyri og stal munum. Lögregla hafði uppi á megninu af þýfinu.