Guðmundur Guðbjarnason
Guðmundur Guðbjarnason
Eftir Guðmund Guðbjarnason: "Þá var það mín staðfasta trú sem embættismaður ríkisins allt mitt líf að dómstólarnir myndu standa í fæturna á sama tíma og beitt var ólögmætum aðgerðum"

Símon Sigvaldason, formaður dómstólaráðs og dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, var í viðtali á Rás 2 hinn 7. desember sl. Þar sagði hann m.a. að dómstólar væru sprottnir upp úr okkar eigin samfélagi og ættu að endurspegla viðhorf okkar til málefna líðandi stundar og þrýstingur almennings hefði áhrif á ákvörðun refsinga. „Það er nú einu sinni þannig að ef dómstólar eru ekki í takt við samfélagið sem þeir eru í þá er eitthvað að í samfélaginu.“ Það er með ólíkindum að maður sem hefur slíka ábyrgð í íslensku samfélagi haldi því blákalt fram að dómstólar hafi og eigi að fara eftir þrýstingi og viðhorfi almennings við ákvörðun refsingar. Hvert er almenningsálit þjóðar gegn bankamönnum eftir efnahagshrun?

Símon hefur beðið almenning opinberlega að treysta dómstólum í viðtali á Stöð 2. Þeir ynnu sína vinnu eftir bestu samvisku, sem hlýtur að þýða að dómstólar séu óháðir og stjórnist því ekki af almenningsálitinu. Eins er áhugavert að skoða hvort hann sé vanhæfur að fjalla um málefni líðandi stundar þar sem hann muni dæma menn eftir því hvernig vindar blása í þjóðfélaginu.

Sönnunarmat

Ég og mín fjölskylda höfum átt mikið undir með ákvörðun Símonar um sekt eða sýknu Magnúsar, sonar míns, sem hann dæmdi í tveimur sakamálum.

Með almenningsálitið að leiðarljósi dæmdi hann son minn til sex ára fangelsisvistar án raunverulegra sannana. Tókst honum til að mynda hið ómögulega í Al Thani-málinu að dæma hann fyrir fyrirmæli á fundi þar sem fimm manns sátu og allir vitnuðu að sonur minn hefði ekki gefið fyrirmæli og hefði ekki umboð til þess.

Réttarfar

Á afar viðsjárverðum tímum í kjölfar efnahagshruns þar sem ekki bara almenningur heimtaði blóð heldur löggjafinn líka með stofnun embættis sem hefur það eina hlutaverk að hundelta starfsmenn bankanna og þannig reyna að sefa reiði almennings, eins ómálaefnalega og ótrúlegt sem það hljómar, þá stendur þetta orðrétt í greinargerð með lögum sett af Alþingi Íslendinga. Þá var það mín staðfasta trú sem embættismaður ríkisins allt mitt líf að dómstólarnir myndu standa í fæturna á sama tíma og hið sérstaka saksóknaraembætti beitti ólögmætum aðgerðum eins og að hlera símtöl sakborninga og lögmanna þeirra, meina sakborningum aðgang að gögnum sem sýna fram á sakleysi, tilgangslausum gæsluvarðhöldum og farbönnum svo eitthvað sé nefnt.

Nú verð ég bara að vona að niðurlag í fréttatilkynningu innanríkisráðuneytisins frá 2010 í kjölfar handtöku sonar míns og vinnufélaga hans verði til þess að málum fari að ljúka. Þótt það verði honum ekki til góðs úr þessu þá þeim hundruðum manna sem enn standa og bíða með stöðu sakbornings eftir dómurum sem dæma á grundvelli almenningsálitsins eins og Símoni Sigvaldasyni.

Niðurlag hennar hljóðaði þannig: „Með tilliti til mannréttindasjónarmiða sé nauðsynlegt að gera ráð fyrir að öllum málum verði lokið fyrir árslok 2014 og geta áætlanir að mati embættisins ekki tekið mið af öðru tímamarki.“ (Dómsmálaráðherra, Ragna Árnadóttir.)

Höfundur er fyrrverandi skattrannsóknarstjóri og faðir Magnúsar Guðmundssonar.