Skúli Guðjónsson fæddist 26. febrúar 1929. Hann lést 30. nóvember 2015.

Útför Skúla fór fram 16. desember 2015.

Margar skemmtilegar minningar koma upp í hugann þegar ég minnist Skúla. Hann var alltaf glaður og gaman að eiga við hann spjall, alltaf slegið á létta strengi.

Ásrún konan hans Skúla var frænka mín og við þekktumst frá barnsaldri og má segja að ég hafi verið heimagangur hjá þeim í áratugi.

Skúli var vel verki farinn og vinnusamur og svo ráðdeildarsamur að hann var langt kominn með að byggja sér myndarlegt einbýlishús rúmlega tvítugur.

Hann var fróður og minnugur og las mikið og hafði skemmtilegar skoðanir á mönnum og málefnum, alltaf stutt í gamansemina. Skúli var bóngóður og hjálpsamur. Stundum vantaði kunningja hans að láta keyra fyrir sig „smávegis“ möl, mold eða eitthvað annað og fannst honum þá sjálfsagt að gera það fyrir lítið eða ekki neitt.

Ekki hallaðist á með myndarskap þeirra hjóna, þau voru samhent um allt. Höfðu bæði gaman af ferðalögum. Fyrst skoðuðu þau landið okkar vel og vandlega og þá gilti að „landslag yrði lítils virði ef það héti ekki neitt“. Þau þekktu víða fólk og voru ættfróð.

Seinna fóru þau að fara í utanlandsferðir og nutu þess einnig vel.

Þau eignuðust þrjú vel gerð og góð börn, sem öllum hefur farnast vel í lífinu. Þau önnuðust uppeldi þeirra af ást og umhyggju og fengu það líka vel endurgoldið.

Það eru 10 ár síðan Ásrún lést, alltof fljótt. Síðan hefur Skúli búið einn og verið flinkur í sínu húshaldi, allt í röð og reglu. Eldaði sinn mat sjálfur og tók á móti gestum þannig að það hefur alltaf verið gaman að koma til hans.

Við Ásrún vorum saman í saumaklúbb ásamt tveim skólasystrum okkar frá Laugarvatni, Ástu og Fríðu. Skúli drakk með okkur kaffið þegar klúbbarnir voru hjá Ásrúnu og hann var svo skemmtilegur að við arfleiddum hann að sæti Ásrúnar þegar hún féll frá.

Skúli hafði góða heilsu lengst af. Hann og vinur hans Guðmundur Ívarsson voru duglegir að fara í bíltúra út um sveitir, heilsuðu upp á fólk og eins til að fylgjast með ýmsum framkvæmdum, t.d. vegagerð, en þar voru þeir á heimavelli.

Einnig heimsótti Skúli vini sína og kunningja ef þeir áttu við veikindi að stríða. Ég naut þessarar ræktarsemi hans sl. vetur, þá kom hann út á sjúkrahús með hlaða af bókum. Mér átti ekki að leiðast.

Ég þakka Skúla löng og góð kynni og votta fjölskyldu hans innilega samúð.

Ingunn Pálsdóttir.

Elsku afi, mikið sakna ég þín.

Margar af mínum fyrstu minningum tengjast ykkur ömmu og ljúfum stundum í Dælenginu. Þau eru nánast óteljandi skiptin sem við lágum tvö á bekknum inni í herbergi og þú last fyrir mig söguna um Hans og Grétu, alveg þangað til ég kunni hana utan að og fór að segja þér hana, nú eða söguna um prinsessuna sem átti 365 kjóla. Ég get auðveldlega ímyndað mér að þú hafir verið orðinn þreyttur á þessum ævintýrum en það skipti þig engu máli, þú varst alltaf til í að lesa þau fyrir mig enn einu sinni.

Eftir því sem ég varð eldri kynntumst við svolítið upp á nýtt og vinátta okkar varð enn sterkari. Eftir að ég byrjaði í FSu fór ég að heimsækja þig æ oftar, hvort sem það var til þess að spjalla við þig um daginn og veginn, nú eða fá að nýta mér kyrrðina sem ríkti í Dælenginu til þess að líta á námsbækurnar. Þér þótti nú yfirleitt vera fullmikil ferð á mér og varst því duglegur að hvetja mig til þess að staldra við og leggja mig aðeins í stofusófanum hjá þér. Þessar stundir, þegar ég lá inni í stofu og þú í vinnuherberginu þínu og við tókum okkur smá síðdegislúr með útvarpið stillt á Rás 1 í bakgrunni, þykir mér mjög vænt um. Það skipti nefnilega ekki alltaf máli þó að við hefðum ekki mikið að segja hvort öðru, það að vera í kringum þig var alltaf svo gott.

Eftir að hafa lítið séð þig í sumar ákvað ég í haust að heimsækja þig eins oft og ég mögulega gæti. Síðustu mánuði hafði ég það sem reglu að kíkja á þig að minnsta kosti einu sinni til tvisvar í viku og fyrir það er ég virkilega þakklát. Kvöldin sem við sátum í stofunni ræddum um allt milli himins og jarðar og borðuðum súkkulaðirúsínur munu aldrei gleymast. Sögurnar sem þú sagðir mér frá hinum ýmsu tímum voru svo ótal margar og skemmtilegar.

Það er sárt að sjá á eftir þér, afi, en allar góðu minningarnar okkar munu lifa. Takk fyrir allt. Ég elska þig og sakna þín.

Þín,

Aðalbjörg Ýr.

Skúli föðurbróðir okkar var dugnaðarmaður, kappsfullur og ávallt ræðinn, hress og skemmtilegur. Skúli var dökkur yfirlitum, hár og myndarlegur. Hann hefur verið hluti af lífi okkar systkina alla tíð og fastur punktur í tilverunni.

Þeir bræður frá Kolsholti, Gísli pabbi okkar og Skúli, voru alltaf nánir og samgangur milli fjölskyldna þeirra mikill. Þeir stofnuðu báðir heimili á Selfossi og hjálpuðust alltaf mikið að, ekki síst þegar íbúðarhúsin voru byggð. Sú samheldni kom vel í ljós síðustu mánuðina sem pabbi lifði en þá heimsótti Skúli hann nær daglega og aðstoðaði hann við ýmsa hluti, t.d. að fara í búðina og bankann. Fyrir það er hér þakkað.

Það kann að vera ein ástæðan fyrir því hvað þeir bræður voru nánir að árið 1940 veiktust þeir báðir af taugaveiki. Skúli þá 11 ára og pabbi 17 ára. Þeir voru settir í margra vikna einangrun á Landspítalanum. Sem betur fer náðu þeir sér alveg af veikinni en það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir foreldra þeirra að bíða í voninni austur í Flóa eftir fréttum af þeim, en þau höfðu þá áður misst tvö börn í frumbernsku. Veiruna fengu þeir úr jarðveginum þegar þeir voru að plægja tún og hafði hún legið þar í marga áratugi.

Minningarnar um Skúla eru margar. Ótal heimsóknir, m.a. leit hann oft inn hér áður fyrr á sunnudagsmorgnum á Sólvöllunum eftir sundferð með börnunum. Einnig samvera í kringum hestamennskuna. Svo fengum við stundum að sitja í vörubílnum, það var mikið sport. Skúli var vörubílstjóri í yfir 50 ár og átti lengst af Scania-vörubíla, númerið var alltaf X-95.

Kona Skúla var Ásrún Magnúsdóttir af Laugarvatnsætt. Þau voru samheldin og áttu fallegt heimili þar sem myndarskapur þeirra beggja naut sín. Ásrún lést fyrir um 10 árum. Skúli var hennar stoð og stytta í erfiðum veikindum hennar.

Við fráfall Skúla er okkur systkinunum efst í huga þakklæti fyrir umhyggju gagnvart okkur. Við fundum að hann fylgdist með og var umhugað um okkur og fjölskyldur okkar.

Við sendum Magnúsi, Kolbrúnu og Aðalbjörgu samúðarkveðjur. Guð blessi minningu þessa góða frænda okkar.

Kristín Gísladóttir,

Guðjón Skúli Gíslason,

Vignir Rafn Gíslason.

Skúli afabróðir minn markar mörg spor í minningum mínum frá því ég var lítill drengur og allt til dagsins í dag. Ég og mín systkini vorum svo heppin að í næsta húsi við okkur, vestan megin Tryggvagötunnar, bjó Skúli ásamt konu sinni Ásrúnu Magnúsdóttur, en hún lést fyrir rétt rúmum 10 árum.

Heimili þeirra stóð manni alltaf opið og minnisstæðar eru ferðir þangað yfir í ýmsum erindagjörðum. Fyrstu árin voru erindin yfirleitt á þá leið að fá að kíkja í vörubílinn hjá Skúla, og man ég eftir ferð með honum ásamt systkinum mínum upp í malarnámurnar í Ingólfsfjalli. Erindið var líka stundum að fá einn sælgætismola, sem yfirleitt stóð til boða þegar maður leit inn. Einnig leitar hugurinn til ferðar sem var farin á frambyggðum rússajeppa sem kallaður var Gorbi, sem var ferðabíll Skúla og Ásrúnar. Ferðin var farin á Laugarvatn og sátum við systkinin ásamt barnabörnum þeirra aftur í honum, þótti það mikil upplifun.

Síðastliðin ár voru ferðirnar farnar til að tala um daginn og veginn og fræðast um gamla tíma. Skúli var fróður og minnugur og aldrei kom maður að tómum kofunum ef mann vantaði svör við einhverjum spurningum sem á manni brunnu. Hann fylgdist líka vel með öllu því sem fór fram hjá hans fólki og er mér það sérstaklega hjartfólgið þegar ég tók tamningapróf á Hvanneyri en þá kom Skúli með föður mínum til að fylgjast með. Í hvert skipti sem maður hitti hann stóð ekki á spurningum sem mann varðaði og þykir mér vænt um það hversu mikinn áhuga hann sýndi því sem maður gerði.

Bræðrakærleikurinn sem ríkti milli Skúla og Gísla, afa míns, var mikill og til eftirbreytni.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson)

Ég mun halda minningu Skúla á lofti út ævina og hlakka til að hitta hann að lokum og svara spurningum hans um það sem á daga mína hefur drifið.

Innilegar samúðarkveðjur sendi ég til allra aðstandenda Skúla.

Gísli Guðjónsson.