Málin rædd í þaula Vladímír Pútín svaraði spurningum fréttamanna í rúmar þrjár klukkustundir á árlegum blaðamannafundi í Moskvu í gær.
Málin rædd í þaula Vladímír Pútín svaraði spurningum fréttamanna í rúmar þrjár klukkustundir á árlegum blaðamannafundi í Moskvu í gær. — AFP
Vladímír Pútín, forseti Rússlands, fór hörðum orðum um stjórnvöld í Tyrklandi á árlegum blaðamannafundi í Moskvu í gær.

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, fór hörðum orðum um stjórnvöld í Tyrklandi á árlegum blaðamannafundi í Moskvu í gær. Forsetinn áréttaði ásökun sína um að Tyrkir hefðu grandað rússneskri herþotu af ásettu ráði við landamæri Sýrlands og Tyrklands til að ögra Rússum og kvaðst ekki sjá neinn möguleika á að samskipti Tyrkja og Rússa bötnuðu á næstunni. „Tyrkir hafa ákveðið að sleikja Bandaríkjamenn á ákveðnum stað,“ sagði hann.

Pútín fór hins vegar lofsamlegum orðum um Sepp Blatter, forseta Alþjóðaknattspyrnusambandsins, og lagði til að hann yrði sæmdur friðarverðlaunum Nóbels. Blatter hefur verið bannað að starfa fyrir sambandið vegna rannsóknar á ásökunum um spillingu.

Pútín hældi einnig auðkýfingnum Donald Trump, frambjóðanda í forkosningum repúblikana vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum á næsta ári. „Hann er mjög framúrskarandi maður, tvímælalaust hæfileikaríkur,“ sagði rússneski forsetinn. Hann kvaðst vera „reiðubúinn að vinna með hverjum þeim sem bandaríska þjóðin velur í forsetaembættið“.