[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Margrét Kr. Sigurðardóttir margret@mbl.is „Það eru tækifæri á LinkedIn fyrir þá sem eru að leita að nýju starfi og fyrir þá sem vantar starfsfólk.

Baksvið

Margrét Kr. Sigurðardóttir

margret@mbl.is

„Það eru tækifæri á LinkedIn fyrir þá sem eru að leita að nýju starfi og fyrir þá sem vantar starfsfólk. En það er lykilatriði að vera með uppfærða ferilskrá og nýja mynd fyrir þá sem eru að afla upplýsinga,“ segir Hjalti Rögnvaldsson, sérfræðingur í markaðssetningu á netinu hjá Íslandsbanka. Í vikunni hélt hann námskeið um samfélagsmiðilinn LinkedIn hjá Félagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga.

LinkedIn fór í loftið í maí 2003 og eru nú yfir 300 milljónir manna skráðar á vefinn. Hjalti segir að ekki sé hægt að fá upplýsingar um fjölda Íslendinga í þeim hópi en þeir séu fjölmargir. „Nánast allir í atvinnulífinu eru skráðir en eiginlega mjög fáir sem kunna að nota þetta og eru virkir. Það eru fjölmargar leiðir til að nýta sér þennan miðil, hvort sem er til að halda utan um tengslanetið, finna störf eða styrkja ásýndina á netinu.“

Hann segir miðilinn sérstaklega sterkan fyrir þá sem eru að leita sér að nýju starfi. „Það eiga allir að vera á LinkedIn og með uppfærðan prófíl. Þetta er það fyrsta sem kemur upp þegar leitað er að viðkomandi nafni í Google en allir helstu ráðningarstjórar í landinu fletta upp nöfnum þar. Því er mikilvægt að vera með glænýjar upplýsingar á LinkedIn.“

Hjalti segir að LinkedIn sé tengslanet fyrir vinnuna en Facebook sé meira fyrir vini og fjölskyldu. „Við hjá Íslandsbanka höfum verið að auglýsa eftir fólki á LinkedIn með mjög góðum árangri og kostnaðurinn er brot af því sem það kostar að auglýsa í atvinnublöðunum. Þó að það séu færri augu sem sjá auglýsinguna þá er hægt að ná til rétta fólksins. Þetta er möguleiki sem allir mannauðsstjórar ættu að kynna sér.“

Hjalti segir að áhuginn á LinkedIn sé að aukast mikið. „Sérstaklega núna þegar landið er að rísa og fólk er í meiri samskiptum við útlönd. Það eru fleiri að fara til útlanda á ráðstefnur þar sem er alltaf möguleiki að ná nýjum viðskiptasamböndum og þá er þetta mikilvægt tæki.“

Hægt að horfa víðar en til Íslands

Jakobína Árnadóttir, hópstjóri ráðninga hjá Capacent, segir LinkedIn komið af fullum þunga til Íslands. „Við notum þetta mjög mikið og auglýsum nánast öll störf þarna. Í auknum mæli eru fyrirtæki ekki endilega að auglýsa heldur að biðja okkur að finna fólk í störfin. LinkedIn er því orðið mjög góð viðbót við okkar gagnagrunn þó við séum örugglega með einn stærsta gagnagrunn landsins.“

Hún tekur sem dæmi að ef fyrirtæki vantar fjármálastjóra þá er leitað á LinkedIn eftir þeim kröfum sem fyrirtækið setur. „Það eru orðnar fjölbreyttari leiðir til að ná í fólk sem vantar. Ég hef velt því fyrir mér hvort þetta víkki jafnvel út möguleika á að ná í starfsfólk til landsins frá alþjóðlegum vinnumarkaði. Með komu LinkedIn er hægt að horfa víðar en bara til Íslands.“

Jakobína á ekki von á að þetta komi í stað auglýsinga í blöðum. „Samkvæmt fræðunum er það aðferð sem virkar og gefur alltaf umsækjendur sem okkur hafði ekki dottið í hug áður. Þá má benda á að lögin um opinberar ráðningar gera kröfu um að auglýsa í blaði sem hefur dreifingu á landsvísu.“

LinkedIn notað í auknum mæli

Helga Rún Runólfsdóttir, ráðgjafi hjá Intellecta, segir LinkedIn hafa ákveðna kosti. „Við höfum í auknum mæli heyrt af fyrirtækjum sem nýta sér þetta og þá helst upplýsingatæknifyrirtækin.“ Hún segir að Intellecta auglýsi bæði á netinu og í blöðum eftir starfsfólki. „En við erum að skoða viðveru okkar á þessum tiltekna miðli eins og á öðrum samfélagsmiðlum. Heimurinn er svo hraður að við þurfum alltaf að endurskoða hvað við tileinkum okkur og hvaða leiðir eru bestar. Ef þetta hjálpar til við að finna fleiri frambærilega umsækjendur þá er sjálfsagt að skoða hvernig við gætum nýtt þetta í meira mæli.“

Helga Rún segir erfitt að segja til um hvort auglýsingar á LinkedIn komi beinlínis í staðinn fyrir atvinnuauglýsingar í blöðum. „En það er erfitt að segja fyrir um hver þróunin verður.“