Hörður Arnarson
Hörður Arnarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er tilfinning okkar að forsvarsmenn Norðuráls á Grundartanga séu á opinberum vettvangi að beita kjaradeilunni í Straumsvík í samningaviðræðum sínum við Landsvirkjun,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri fyrirtækisins, í samtali við...

„Það er tilfinning okkar að forsvarsmenn Norðuráls á Grundartanga séu á opinberum vettvangi að beita kjaradeilunni í Straumsvík í samningaviðræðum sínum við Landsvirkjun,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri fyrirtækisins, í samtali við Morgunblaðið. Nú standa yfir viðræður milli Norðuráls og Landsvirkjunar um nýjan raforkukaupasamning en sá sem nú er í gildi rennur út árið 2019.

„Við höfum hvergi séð forsvarsmenn Rio Tinto Alcan í Straumsvík beita raforkukaupasamningi sínum við Landsvirkjun fyrir sig í þeirri viðkvæmu deilu sem þeir standa í þessa dagana. En það er mat okkar að Norðurál sé að draga kjaradeiluna inn í málið til að veikja umboð Landsvirkjunar til að semja um sem best verð fyrir rafmagnið sem fyrirtækið framleiðir,“ bætir Hörður við. Í fréttatilkynningu sem Landsvirkjun sendi frá sér í gær kemur fram að vilji fyrirtækisins standi til að endursemja við Norðurál og tryggja álframleiðandanum rafmagn í nýjum samningi. Í tilkynningunni er ítrekað að það sé gert með það að leiðarljósi að hann verði hagstæður fyrir báða aðila.

Hörður segir að Norðurál geti greitt hærra verð fyrir rafmagnið en fyrirtækið gerir í dag. „Norðurál er rekið með mjög miklum hagnaði og því er það í stakk búið til að greiða hærra verð fyrir orkuna. Það voru röksemdir fyrir því að bjóða Norðuráli, eins og öðrum sambærilegum fyrirtækjum, lægra verð þegar verið var að koma verksmiðjunum á laggirnar, til þess að hægt væri að koma þeim upp. Nú eru aðstæður hins vegar allt aðrar og eðlilegt að þeir borgi sambærilegt verð og aðrir eru að semja um í dag,“ segir Hörður.

Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, segist mjög undrandi á orðum Harðar en mun að öðru leyti tjá sig nánar um málið í dag.

ses@mbl.is