Árni Jóhann Friðjónsson fæddist 25. ágúst 1927. Hann lést 3. desember 2015.

Útför Árna fór fram 14. desember 2015.

Afi Árni, eða afi skegg eins og hann er kallaður í Bjarmalandi, var mikill vinnuþjarkur. Hann var yngstur í stórum systkinahópi sem ólst upp við fátækt í Fljótunum í Skagafirði.

Afi og bróðir hans Vigfús ásamt systrum náðu með mikilli vinnu og áræðni að byggja sig og sína upp með síldarsöltun á gullárum þess tíma á Siglufirði. Þegar síldin hvarf fóru Helga og Árni suður og byggðu upp nýtt líf við skrifstofustörf.

Ég þekkti lítið sögurnar af uppgangsárunum á Siglufirði. Afi var bara afi. Hann var glaður, söngelskur, skapstór og snyrtilegur.

Ég á fjölda minninga með honum í bæ og í borg, í Fljótunum, í bláa Saab-bílnum, í litla kofanum við Heytjörn, ótal gistinætur í Fellsmúlanum, og þegar ég þreif eða skrifaði reikninga í Ármúla 21 í Gátun.

Borðið hans afa var alltaf eins og ekkert væri að gera, allt á sínum stað. Í einni timburöskju voru svo sælgætismolarnir handa mér og öðrum barnabörnum.

Það var samt oftar amma sem var eigandi sælgætisins – afi borðaði bara grænmeti og fisk sem var frekar sérstakt fyrir mann á hans aldri. Við fórum stundum í helgarbíltúr til Hveragerðis að fá alvöru grænmetisfæði í hádegismat hjá Náttúrulækningafélaginu. Seinna, þegar hann vann hjá Lyfjastofnun gekk hann oft niður í bæ, og stundum á skrifstofu Ríkisspítala þar sem amma réð ríkjum, tók við greiðslu sem féhirðir. Stundum hitti ég hann á gangi og þá var hann iðulega að borða epli. Hann borðaði bara eitt epli í hádeginu. Alltaf!

Í mörg ár voru Helga amma og afi með sælureit rétt fyrir utan borgina. Þau dvöldu þar næstum allt sumarið og ég fékk að gista margoft.

Afi gróðursetti það land allt og í dag er þar mikill skógur. Hann sló aldrei af og hamaðist vikum saman við vegagerð, gróðursetningu, að kasta skít á allan gróður eða við að girða. Í gróðurhúsinu var grænmeti og blóm og fleira góðgæti sem ég fékk reglulega að njóta, bæði sem barn og svo þegar við Hallbjörn vorum byrjuð að búa.

Á síðari árum fengum við að heyra fleiri sögur frá því í gamla daga frá afa. Okkur þykir vænt um að eiga þær sögur, söguna þegar afi gekk á eftir ömmu til að krækja í sætustu konuna í plássinu, af söng hans og þegar hann flaug til fjarlægra landa sem flugmaður.

Síðustu ár var minnið farið að gefa sig, kjöt varð aftur ljúffengt, vínarbrauðin enn betri og ýmislegt gleymdist – en áfram söng afi.

Hann hefur nú sungið sinn síðasta söng hjá okkur.

Hvíl í friði, elsku afi. Hallbjörn, Karl, Atli, Ólöf og Embla og ég biðjum að heilsa.

þín,

Þorbjörg Helga.