Ómar Wieth fæddist 18. maí 1953. Hann varð bráðkvaddur 21. nóvember 2015.

Útför Ómars fór fram 2. desember 2015.

Ég kynntist Ómari í gegnum Ferðaklúbbinn 4x4 , gott ef það var ekki í kringum 1987 þegar Ferðaklúbburinn hóf byggingu á skála sínum Setrinu, sem er staðsettur sunnan undir Hofsjökli.

Við störfuðum saman í nefndum klúbbsins og þar kallaði Ómar ekki allt ömmu sína, hann tók alltaf vel í öll verkefni og kláraði þau með sóma.

Við fórum líka margar ferðir inn í Setur, en ein eftirminnilegasta ferðin var ferð sem við kölluðum okkar á milli Go West-túrinn, en þar hafði Ómar boðið nokkrum aðilum með sér upp í Setur.

Komu þeir á 19 misvel útbúnum bílum upp í skála eftir ca 12 tíma ferð upp Gljúfurleitina. Þetta fannst Ómari nú ekki mikið mál, en á laugardagskvöldinu fengum við þær upplýsingar að veður yrði arfaslæmt á sunnudeginum og ekkert ferðaveður. Ég vatt mér að Ómari og spurði: Hvernig ætlar þú með alla þessa bíla heim ef veður versnar?

Ekkert mál, sagði hann, við komum bara á eftir ykkur, verðum aðeins seinni, en komum.

Úr varð að við urðum samferða til byggða og komum við öllum hópnum eftir töluvert basl heim og að sjálfsögðu var enginn skilinn eftir, því það hefði Ómar ekki tekið í mál.

Frekar hefði hann orðið eftir og haldið áfram með viðkomandi þótt hann hefði þurft að ýta honum. Þannig maður var Ómar.

Ómar lagði mikla og óeigingjarna vinnu á sig fyrir Ferðaklúbbinn 4x4 bæði við byggingu Setursins, rekstur þess auk þess sem hann tók virkan þátt í daglegu amstri klúbbsins.

Hann var mjög frjór og vildi alltaf vel. Allt sem hann tók að sér leysti hann vel af hendi og kláraði málin þó að það tækist kannski ekki í fyrstu tilraun.

Ómar Wieth setti mikinn svip á starf félagsins og á hann sérstakan stað innan þess.

Um leið og ég þakka Ómari fyrir öll hans störf í þágu klúbbsins og kveð hann í hinsta sinn vil ég senda fjölskyldu hans og vinum okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Sveinbjörn Halldórsson,

formaður Ferðaklúbbsins 4x4.