Hafnarfjörður Höfuðstöðvar Hansakaupmanna voru þar.
Hafnarfjörður Höfuðstöðvar Hansakaupmanna voru þar. — Morgunblaðið/Eggert
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Hafin er rannsókn á umsvifum Hansakaupmanna á Íslandi, í Færeyjum og á Hjaltlandi á 15.-17. öld, gróft til tekið. Tímabilið þegar þýskir kaupmenn voru ráðandi í utanríkisverslun Íslendinga hefur verið kallað þýska öldin.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Hafin er rannsókn á umsvifum Hansakaupmanna á Íslandi, í Færeyjum og á Hjaltlandi á 15.-17. öld, gróft til tekið. Tímabilið þegar þýskir kaupmenn voru ráðandi í utanríkisverslun Íslendinga hefur verið kallað þýska öldin. Auk kaupmennsku stunduðu þeir einnig útgerð hér. Höfuðstöðvar Hansakaupmannanna á Íslandi voru í Hafnarfirði. Bundinn var endi á umsvif þýskra kaupmanna hér í eigin nafni þegar dönsku einokunarversluninni var komið á árið 1602.

Þýsku Leibniz-samtökin, sem eru samtök rannsóknastofnana, styrkja rannsóknina. Yfirskrift hennar er „Frá Norðursjó til Noregshafs - Þverfræðileg rannsókn á Hansakaupmönnum“. Verkefnið fékk styrk upp á 900.000 evrur (128 milljónir króna) sem er einn sá stærsti sem veittur hefur verið á sviði sagnfræði- og fornleifarannsókna í Þýskalandi. Verkefnið hófst á liðnu vori og er til þriggja ára. Höfuðstöðvar þess eru í Þýska sjóminjasafninu í Bremerhaven og er það unnið í samstarfi við Þjóðskjalasafn Íslands auk fleiri safna og fræðistofnana á Hjaltlandi, í Færeyjum og Þýskalandi.

Dr. Natascha Mehler fornleifafræðingur stýrir rannsókninni. Auk hennar hafa þrír aðrir sérfræðingar, sagnfræðingur, skipafornleifafræðingur og líffræðingur, verið ráðnir til verkefnisins.

Öll skjöl afrituð

Sagnfræðingurinn mun m.a. stýra afritun allra ritaðra heimilda í ríkisskjalasöfnum Bremen og Hamborgar sem tengjast umsvifum Hansakaupmanna á eyjunum í Norður-Atlantshafi. Það eru m.a. sendibréf, bókhaldsgögn og tollpappírar. Skjölin verða vistuð í stafrænu skjalasafni á netinu sem verður opið án endurgjalds. Einnig eru til margvíslegar menningarminjar á borð við dýra- og jurtaleifar eða skipsflök. Þá eru til veðurfræðileg gögn og upplýsingar sem lúta að sjávarlíffræði tímabilsins. Ætlunin er að byggja heildstæða mynd af umsvifum Hansakaupmannanna á Íslandi, Hjaltlandi og í Færeyjum á öllum þessum heimildum.

Ekki náðist í dr. Natascha Mehler í gær við vinnslu fréttarinnar.