Jólastemning Björgvin Halldórsson syngur af innlifun á stórtónleikum sínum í Laugardalshöll, Jólagestum Björgvins, 12. desember síðastliðinn.
Jólastemning Björgvin Halldórsson syngur af innlifun á stórtónleikum sínum í Laugardalshöll, Jólagestum Björgvins, 12. desember síðastliðinn. — Ljósmynd/Mummi Lú
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Litlu jól Björgvins nefnast jólatónleikar sem haldnir verða í Bæjarbíói í Hafnarfirði á Þorláksmessu.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Litlu jól Björgvins nefnast jólatónleikar sem haldnir verða í Bæjarbíói í Hafnarfirði á Þorláksmessu. Björgvin mun koma fram með söngvaranum Bjarna Arasyni og söngkonunni Jóhönnu Guðrúnu og hljómsveit skipaðri Þóri Úlfarssyni á hljómborð, gítarleikurunum Jóni E. Hafsteinssyni og Kristjáni Grétarssyni, bassaleikaranum Róberti Þórhallssyni og tromuleikaranum Jóhanni Hjörleifssyni.

Björgvin hefur í níu ár staðið fyrir afar umfangsmiklum og glæsilegum jólatónleikum í Laugardalshöll, Jólagestum Björgvins , sem tugir þúsunda manna hafa sótt og orðnir eru fastur liður í jólahaldi hér á landi. Björgvin segir að uppselt hafi verið á hvora tveggja tónleikana 12. desember sl. og að á næsta ári verði tónleikarnir jafnvel enn glæsilegri þar sem þeir verði haldnir tíunda árið í röð.

Kræsingar frá Kjötkompaníi

Björgvin er Hafnfirðingur eins og alþjóð veit og segir hann góðar æskuminningar tengdar Gamla bíói. Fyrir nokkrum árum hafi borist í tal að gaman væri ef hann héldi jólatónleika í heimabænum og hann hafi að sjálfsögðu slegið til. „Þetta er í þriðja skipti sem ég fer í Bæjarbíó á Þorláksmessu. Hugmyndin er sú að hafa þetta klukkan tíu, fólk er þá búið að asast um bæinn, kaupa jólagjafir og gera klárt fyrir jólin og endar svo í Bæjarbíói,“ segir Björgvin. Tónleikarnir í fyrra hafi heppnast mjög vel og færri komist að en vildu. „Við bryddum upp á nýjung núna, bjóðum gestum upp á mat þegar þeir koma. Hið fræga Kjötkompaní, sem margir koma víða að til að versla í, enda ein flottasta kjötverslun landsins, býður upp á jólahlaðborð. Það verður tvíreykt hangikjöt, gæs, önd, naut og laufabrauð og allur pakkinn og það gestum að kostnaðarlausu,“ segir Björgvin. Fólk geti gætt sér á þessum kræsingum, bæði fyrir tónleika og í hléi, og keypt plötur og boli sem verði til sölu. Hvað efnisskrá tónleikanna varðar segir Björgvin að rúmur helmingur laganna verði jólalög, m.a. lög sem hann hafi hljóðritað en hann á að baki sjö jólaplötur. Erlend og innlend jólalög verði flutt og lög úr viðamiklu lagasafni hans.

„Besti vinur aðal“

„Þetta verður ofsalega kósí, mikil nánd og spjall,“ segir Björgvin. Hann muni bæði segja jólasögur og sögur úr bíóhúsinu frá því hann var strákur. „Þá fór maður í KFUM klukkan tvö, fékk sér Jesúmyndir og var með hasarblöðin innan á sér og svo fór maður í Bæjarbíó og sá Roy Rogers eða Ríki undirdjúpanna . Síðan var farið út í hraun að leika bíómyndina,“ rifjar Björgvin upp. Í þeim leikjum hafi orðið til frasarnir „pant vera aðal“, þ.e. aðalpersónan, og þegar sá var fundinn sagði sá næsti „pant vera besti vinur aðal“. „Þetta notaði Laddi á plötunum sínum,“ segir Björgvin kíminn um vin sinn og félaga úr firðinum.

Bæjarbíó verður opnað kl. 21 á Þorláksmessu og tónleikarnir hefjast klukkustund síðar.