Sverrir Guðjónsson fæddist 17. október 1933.

Hann lést 29. nóvember 2015.

Útför Sverris fór fram 14. desember 2015.

Elsku besti afi minn með stóra og fallega hjartað sitt hefur kvatt þennan heim. Hann hefur fengið hvíldina sína langþráðu þar sem líkaminn var orðinn lúinn og þreyttur en alltaf var hann klár í kollinum og munnurinn var svo sannarlega alltaf á réttum stað; fyrir neðan nefið. Ég á honum svo margt að þakka, hann var svo miklu meira en bara afi minn, hann hugsaði vel um stóru kisuna sína eins og hann kallaði mig allta tíð. Afi sagði mér oft að þegar ég fæddist þá hefði hann viljað breyta lífi sínu til hins betra og gera allt fyrir barnabörnin sín. Hann stóð svo sannarlega við það. Mínar fyrstu minningar eru úr Benzanum hans afa en oft fórum við í ísbíltúr í Eden í Hveragerði eða í kaffi í Kvíarholt. Afa fannst gaman að ferðast og átti hann það til að panta sér far út samdægurs og amma kom heim að tómum kofanum og þá hringdi afi frá Þýskalandi eða Ameríku í ömmu. Ég man einnig eftir afa keyra með mig og ömmu á hraðbraut um allt Þýskaland og síðar að keyra í margar klukkustundir til Rikka í Ameríku en að keyra um á fallegum og hraðskreiðum bílum þar var afi kóngurinn! Það var erfitt fyrir afa að þurfa að hætta að keyra, það var hans ástríða. Afi var líka langafi barnanna minna og þá sérstaklega reyndist hann mér góður þegar dóttir mín var yngri og dvaldi hún hjá afa og ömmu eftir skóla þangað til ég var búin með vinnudaginn. Afi var stoð mín og stytta í gegnum tíðina og allt til síðasta dags, ég gat alltaf leitað til hans og fyrir það er ég óendanlega þakklát. Elsku afi minn, þú varst og munt alltaf vera kóngurinn í mínu lífi! Ó, það sem ég á eftir að sakna þín mikið.

Er sárasta sorg okkur mætir

og söknuður huga vorn grætir

þá líður sem leiftur úr skýjum

ljósgeisli af minningum hlýjum.

(HJH)

Þín

Guðrún.

Elsku afi minn (langafi) og besti vinur minn, með stærsta hjartað sem ég veit um. Minningar okkar eru margar saman og þeim mun ég aldrei gleyma því þú varst stór partur í lífi mínu. Ég er endalaust þakklát fyrir allan tímann sem ég fékk með þér og skemmtilegu stundirnar okkar saman. Þú hefur kennt mér svo margt og alltaf verið til staðar fyrir mig, takk fyrir allt saman. Orð geta ekki lýst því hversu mikið ég mun sakna þín. Þín

Sara.