[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.

Handbolti

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

„Það er mikil gleði í okkar herbúðum og söguleg stund í félaginu,“ sagði landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Gústavsson við Morgunblaðið en lið hans og Arnórs Þórs Gunnarssonar, Bergischer, tryggði sér í fyrrakvöld sæti í undanúrslitum þýsku bikarkeppninnar, Final Four, með því að vinna sigur á Minden.

Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem Bergischer kemst í undanúrslit bikarsins en saga liðsins er stutt. Wuppertal og Solingen voru sameinuð í eitt lið árið 2006 og var útkoman því að stofna Bergischer. Eins og undanfarin ár verður spilað í undanúrslitum og úrslitunum á „Final Four“ í Hamborg um mánaðamótin apríl maí en í undanúrslitunum eru auk Bergischer lið Rhein-Neckar Löwen, Magdeburg og Flensburg.

Verður mikil upplifun

„Þetta var ekta bikarleikur þar sem allt var í járnum og sigurmarkið skorað á lokasekúndunum. Þetta var risastór áfangi hjá svona ungu félagi og gríðarlega gott tækifæri til að komast á hærri stall. Maður hefur fylgst með „Final Four“ helginni í sjónvarpinu undanfarin ár og hefur dreymt um að komast þangað og nú er það orðið að veruleika. Það verður mikil upplifun fyrir okkur að taka þátt í þessari veislu og geggjað ævintýri,“ sagði Björgvin.

Björgvin átti mjög góðan leik, varði 14 skot og var með tæp 40% markvörslu en Arnór Þór gat ekki tekið þátt í leiknum vegna meiðsla.

Illa hefur gengið hjá Bergischer í deildinni þar sem liðið er í 15. sæti af 18 liðum með aðeins sjö stig eftir 17 umferðir.

„Vonandi gefur þessi sigur okkur byr í seglin. Við unnum Lemgo með eins marks mun um síðustu helgi og vonandi er þetta allt að koma hjá okkur. Við þurftum svo sannarlega á þessum tveimur sigrum að halda og nú bíður okkar erfiður leikur á móti Göppingen,“ sagði Björgvin. Síðasti leikur Bergischer fyrir frí vegna EM verður heimaleikur á móti þýsku meisturunum í Kiel hinn 27. desember og verður sá leikur spilaður í Köln. „Leikurinn verður í Köln Arena þar sem úrslitahelgin í Meistaradeildinni er spiluð. Við spilum alltaf einn heimaleik í þessari höll og það verður gaman að mæta Kiel þar,“ sagði Björgvin Páll, sem vonast til að mæta Magdeburg í undanúrslitunum en hann lék með liðinu frá 2011-2013. „Það vilja allir mæta okkur í undanúrslitunum en við getum verið stórhættulegir og höfum til að mynda unnið öll þessi lið á heimavelli.“

Er bjartsýnn fyrir EM

Björgvin segist farinn að leiða hugann að Evrópumótinu sem hefst í Póllandi eftir tæpan einn mánuð.

„Það er kominn smá fiðringur í mann og þetta góða gengi í undanförnum leikjum veitir manni sjálfstraust

Persónulega hefur mér gengið vel í vetur þó svo að úrslitin hafi ekki alltaf verið þau bestu fyrir okkur. Vörnin og markvarslan hafa að mestu leyti verið í góðu lagi. Ég er bjartsýnn að eðlisfari og ég er sannfærður um að við getum gert góða hluti í Póllandi. Ég er ánægður með riðilinn okkar og ég get ekki beðið eftir því að mæta Norðmönnunum í fyrsta leik,“ sagði Björgvin.