Grúppan í hádegismat á Laugaási Frá vinstri: Eggert Óskarsson, Páll Bragi Kristjónsson, Hörður H. Bjarnason, Sigurður G. Thoroddsen, Sverrir Þórhallsson og Ásgeir Thoroddsen. Á myndina vantar Svein Björnsson.
Grúppan í hádegismat á Laugaási Frá vinstri: Eggert Óskarsson, Páll Bragi Kristjónsson, Hörður H. Bjarnason, Sigurður G. Thoroddsen, Sverrir Þórhallsson og Ásgeir Thoroddsen. Á myndina vantar Svein Björnsson.
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is „Bessastaðastrákarnir“ hafa haldið hópinn í yfir 60 ár og einn af helstu föstu punktum þeirra í tilverunni er að borða saman hádegismat einu sinni í mánuði.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

„Bessastaðastrákarnir“ hafa haldið hópinn í yfir 60 ár og einn af helstu föstu punktum þeirra í tilverunni er að borða saman hádegismat einu sinni í mánuði. „Þá tökum við púlsinn á okkur og þjóðfélaginu,“ segir Páll Bragi Kristjónsson.

Að sögn Páls Braga eiga vinirnir mörg sameiginleg áhugamál. Nefnir í því sambandi fjölskyldumálin og börnin, sumarbústaðalífið, hestamennsku, bækur og fleira. „Þó við séum á svipaðri línu í pólitíkinni förum við ekki djúpt í þjóðmálin,“ segir hann. Bætir við að eftir því sem þeir eldist þyki þeim gott að sitja saman og slúðra. „Eftir að við hættum í fastri vinnu sitjum við líka lengur en áður.“

Sátu oft í hjá forsetunum

Strákarnir hafa frá mörgu að segja. „Við höfum arkað veginn saman í gegnum þykkt og þunnt, rétt eins og vinir gera, og höfum frá mörgu að segja,“ heldur Páll Bragi áfram.

Frumbernskan er eilíft umræðuefni. Páll Bragi rifjar upp að þeir hafi sofið saman í stórum rúmum á Bessastöðum, lesið þar saman undir öll próf, leikið sér saman. „Við vorum þarna í öllum fríum, hvenær sem tækifæri gafst, og gerðum allt saman. Þetta var gríðarlegt ævintýralíf, hvort sem við vorum í bófahasar eða öðru. Þarna var mikill búskapur - pabbi átti til dæmis margar kindur og hesta - og við tókum þátt í honum með kaupafólkinu, sem var fjölmennt, 20 til 30 manns á sumrin. Þarna voru líka börn bústjórans þannig að félagsskapurinn var mikill og ótrúlega mikið líf í fegurðinni á Bessastöðum. Ég segi oft að fallegustu vorkvöldin í heimi séu í logni á Bessastöðum.“

Strákarnir fóru ýmist hjólandi úr bænum á Bessastaði eða í strætó, sem stoppaði á Hafnarfjarðarvegi, auk þess sem þeir fengu oft far í forsetabílnum. „Pabbi keyrði okkur oft og það var hversdagslegur hlutur að sitja í með Sveini og Ásgeiri. Við bárum mikla virðingu fyrir þessum mönnum og þeir voru mjög góðir við okkur. Það er eftirminnilegt.“

Páll Bragi segist hafa eignast fyrstu golfboltana sem lítill gutti á Bessastöðum. „Sveinn Björnsson var einn af fyrstu kylfingum landsins. Hann gekk stundum um túnin með eina kylfu og sló bolta. Hann týndi mörgum boltum og þegar við krakkarnir fundum þá var ógurlegt ævintýri að láta þá skoppa og að ég tali ekki um að pilla þá í sundur og taka úr þeim allar teygjurnar.“

Kynntust á Bessastöðum

Strákarnir tengdust fyrstu tveimur forsetum Íslands. Sveinn Björnsson er sonarsonur Sveins Björnssonar forseta. Bræðurnir Ásgeir og Sigurður Thoroddsen, synir Gunnars Thoroddsen og Völu Ásgeirsdóttur, eru dóttursynir Ásgeirs Ásgeirssonar, annars forseta lýðveldisins. Sverrir Þórhallsson er sonur Þórhalls Ásgeirssonar og er sonarsonur Ásgeirs forseta. Kristjón Kristjánsson, faðir Páls Braga, var forsetabílstjóri fyrstu áratugina. „Við kynntumst í sveitinni á Bessastöðum og vorum þar meira og minna saman fram yfir tvítugt,“ segir Páll Bragi. „Við höfum verið eilífðarvinir og fjölskyldur okkar hafa haldið þétt saman.“ Á menntaskólaárunum bættust í hópinn Hörður Bjarnason og Eggert Óskarsson.