Þorpið Lítil einbýlishús einkenna Þorpið. Salur og sameiginlegt þvottahús verður í húsinu með græna þakinu.
Þorpið Lítil einbýlishús einkenna Þorpið. Salur og sameiginlegt þvottahús verður í húsinu með græna þakinu. — Teikning/Björn Jóhannsson landslagsarkitekt
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Unnið er að þróun smáhúsahverfis á Hellu, „Þorpsins“. Hugmyndin er að bjóða upp á umhverfisvænni búsetulausnir en nú eru algengastar.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Unnið er að þróun smáhúsahverfis á Hellu, „Þorpsins“. Hugmyndin er að bjóða upp á umhverfisvænni búsetulausnir en nú eru algengastar. Íbúarnir munu hafa aðgang að garði og gróðurhúsi til að rækta eigið grænmeti, sameiginlegum sal og þvottahúsi og jafnvel yfirbyggðu grillhúsi og heitum potti.

Björn Jóhannsson landslagsarkitekt, verkefnisstjóri Þorpsins, segir að hugmyndin hafi þróast út frá verkefni sem hann stýrir, það er uppbygging þjónustumiðstöðvar við þjóðveginn um Hellu og samtengds smáhýsahótels. Komið hafi upp umræður um húsnæðismál væntanlegs starfsfólks og starfsfólks annarra fyrirtækja á staðnum. „Þetta á að vera þorp fyrir almenning, íbúa á Hellu,“ segir Björn.

Litlar íbúðir og hús

Sjálfur hefur Björn unnið að umhverfismálum hjá Umhverfisstofnun og víðar í sínu fagi og hefur fylgst með umræðunni um umhverfisvænan lífsstíl. Margir hafi ekki áhuga á að eiga stórar íbúðir eða hús og vilji frekar geta ræktað eigið grænmeti í garðinum og búa við gangstíg frekar en akveg.

Hugmyndin hefur þróast út í lítið þorp með 80 fermetra einbýlishúsum sem byggð verða úr timbri. Grunnflöturinn verður 50 fermetrar og 30 fermetra efri hæð með fullri lofthæð. Jafnframt sé verið að skoða byggingu lítilla fjölbýlishúsa þar sem væru fjórar 40 fermetra íbúðir.

Verður 500-700 milljóna króna verkefni

Hugmyndin var kynnt fyrir skipulagsnefnd Rangárþings ytra í síðustu viku og nú hefur sveitarstjórn tekið vel í hana, sagt hana afar áhugaverða. Skipulags- og byggingarfulltrúa og sveitarstjóra var falið að gera tillögu að mögulegri staðsetningu.

Björn segir að skipulagsfulltrúi hafi kynnt fyrir honum byggingarsvæði í útjaðri Hellu, rétt vestan við Helluflugvöll. Líst honum ekki illa á það.

Hugmyndin er að reisa 15-20 smáíbúðir í fjölbýlishúsum og jafn mörg 80 fermetra einbýlishús. Í Þorpinu á Hellu yrðu þá alls 30 til 40 íbúðir.

„Ef Þorpið fær góðan byr sé ég fyrir mér að hægt yrði að reisa fyrstu húsin eða flytja þau á staðinn næsta haust. En markaðurinn ræður því,“ segir Björn.

Verið er að reikna út kostnaðinn og hagkvæmni framkvæmdarinnar. Verkefnið er í þróun og ekki komin ákveðin kostnaðaráætlun. Björn segir ekki ólíklegt að heildarfjárfestingin verði á bilinu 500 til 700 milljónir kr.

Húsin framleidd í héraði

„Ef fýsileikakönnun verður jákvæð, þá er til fjármagn. Ég hefði hins vegar helst viljað fá fjárfesta sem tilheyra svæðinu með í verkefnið. Það yrði líka liður í að auka sjálfbærni framkvæmdarinnar ef hægt yrði að framleiða húsin í héraði,“ segir hann.

Ekki hefur verið ákveðið hvort stök hús verða seld eða hvort fjárfestir muni eiga allt Þorpið og leigja íbúðirnar út. Síðari möguleikinn hafi kosti fyrir uppbyggingu og umsjón sameignarinnar. Björn segir æskilegt fyrir sveitarfélagið að húsin verði seld eða leigð út þannig að einhver eigi lögheimili í öllum íbúðum.