Tólf marka maður Árni Bragi Eyjólfsson skorar eitt af mörkum sínum fyrir Aftureldingu í gærkvöldi.
Tólf marka maður Árni Bragi Eyjólfsson skorar eitt af mörkum sínum fyrir Aftureldingu í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Kristján Jónsson Einar Sigtryggsson Benedikt Grétarsson Árni Bragi Eyjólfsson skoraði sigurmark Aftureldingar gegn Fram úr vítakasti á síðustu sekúndu leiksins í Mosfellsbænum. Afturelding sigraði 22.

Handbolti

Kristján Jónsson

Einar Sigtryggsson

Benedikt Grétarsson

Árni Bragi Eyjólfsson skoraði sigurmark Aftureldingar gegn Fram úr vítakasti á síðustu sekúndu leiksins í Mosfellsbænum. Afturelding sigraði 22.21 en Frömurum hafði tekist að vinna upp fimm marka forskot Mosfellinga á síðasta korterinu.

Árni fékk vítakastið sjálfur þegar hann var kominn í þröngt færi. Þrettán sekúndum fyrir leikslok hafði Garðar B. Sigurjónsson jafnað fyrir Fram úr vítakasti sem Arnar Snær Magnússon fékk. Bæði þessi víti úr hægri hornunum á lokamínútunni voru frekar harðir dómar en í báðum tilfellum virðast varnarmennirnir þó hafa verið inni í teig þegar þeir settu sóknarmennina undir pressu.

Ágætlega fór á því að Árni skyldi skora sigurmarkið en hann skoraði alls 12 mörk. Áhugaverður leikmaður sem nýtir færin sín vel.

Að öðru leyti voru markverðirnir Davíð Svansson og Kristófer Fannar Guðmundsson bestu menn liðanna. Bæði lið geta verið sátt við varnarleikinn en bæði hafa þau átt betri daga í sókninni. Töluvert var um að sóknir rynnu út í sandinn af litlu tilefni og hefði annað hvort liðið getað fækkað slíkum mistökum svo einhverju næmi, þá hefði það getað unnið öruggan sigur fyrir vikið.

Leikir Akureyrar og ÍBV eru pottþétt skemmtun

Í annað skipti á níu dögum buðu Akureyri og ÍBV áhorfendum upp á frábæra skemmtun þegar liðin spiluðu á Akureyri í gær. Jafntefli varð niðurstaðan líkt og um daginn þegar liðin mættust í Eyjum og aftur voru það Eyjamenn sem kreistu út stig á lokakaflanum.

Leikurinn var jafn og æsispennandi allan tímann þótt Akureyringar væru ávallt einu skrefi á undan. Undir lokin jafnaði ÍBV en heimamenn voru komnir í 25:23 og voru með boltann þegar rúm mínúta var eftir af leiknum. Eyjastrákarnir hentu inn öllum sínum unglömbum. Kvikir á fótunum og áræðnir unnu þeir boltann í tvígang og náðu að jafna leikinn á síðustu sekúndunni. Þá var stillt upp í skot fyrir hina kornungu stórsleggju, Einar Sveinsson. Gerði hann sér lítið fyrir og klíndi boltanum í skeytin, 25:25, stigið tryggt og Eyjasöngur kominn í loftið sekúndum síðar.

Leikurinn var í heild frábær skemmtun þótt flestir áhorfendur hafi eflaust farið svekktir heim. Hraðinn var mikill og hart var tekist á. Menn þurftu margoft á aðhlynningu að halda og heimamenn misstu Sigþór Árna Heimisson meiddan af velli snemma leiks. Í nokkur skipti sauð upp úr og varð þá allt vitlaust á varamannabekkjum liðanna. Í tvígang leit út fyrir hópslagsmál inni á vellinum, svo mikill var jólakærleikurinn. Dómarar leiksins voru enda í basli, nánast frá fyrstu mínútu. Óöryggi þeirra jókst þegar leið á leikinn og margir dómar orkuðu tvímælis, en nóg um það.

Engir leikmenn sköruðu sérstaklega fram úr en þó verður að geta þess að Kolbeinn Aron Ingibjargarson stóð fyrir sínu í Eyjamarkinu í fjarveru Stephens Nielsen. Varði hann 18 skot, þar af tvö víti.

Sigurmark á lokasekúndu

Ung skytta Vals var hetja liðsins þegar Valsmenn mættu Víkingi í Víkinni en fyrirfram var búist við öruggum sigri Hlíðarendapilta. Daníel Þór Ingason skoraði sigurmark Vals í þann mund sem leiktíminn kláraðist og tryggði sínum mönnum stigin tvö. Lokatölur urðu 20:21 en Valur hafði tveggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 9:11

Víkingar byrjuðu leikinn vel og þar fór Einar Baldvin Baldvinsson hamförum í markinu og Ægir Hrafn Jónsson reyndist sínum gömlu félögum erfiður á línunni. Valsmenn náðu þó áttum og komust í fyrsta skipti yfir eftir um 20 mínútna leik og höfðu tveggja marka forystu að loknum fyrri hálfleik, 9:11

Seinni hálfleikur byrjaði ekki vel fyrir Val, því að skyttan Geir Guðmundsson fékk sína þriðju brottvísun og þar með rautt spjald. Guðmundur Hólmar Helgason fékk að auki skot í höfuðið í fyrri hálfleik og virtist hálfvankaður eftir það. Aðrir leikmenn stigu þá upp, ekki síst fyrrnefndur Daníel og svo var gamla kempan Hlynur Morthens öflugur í markinu að vanda.

Valsmenn halda því glaðbeittir í jólafríið í öðru sæti Olís-deildarinnar og eru nú aðeins tveimur stigum frá toppliði Hauka. Liðið er vel mannað í öllum stöðum og telja má líklegt að Valsmenn geri atlögu að öllum titlum sem í boði eru í vetur. Víkingar verða að nýta hangikjötið til að öðlast kraft og trú á því erfiða verkefni sem bíður þeirra 2016.

Akureyri – ÍBV 25:25

KA-heimili, úrvalsdeild karla, Olís-deildin, fimmtudaginn 17. desmber 2015.

Gangur leiksins : 3:1, 4:4, 7:6, 9:8, 12:10, 14:12 , 17:14, 18:15, 19:18, 21:20, 23:22, 25:25 .

Mörk Akureyrar : Andri Snær Stefánsson 6/2, Bergvin Þór Gíslason 6/2, Brynjar Hólm Grétarsson 4, Kristján Orri Jóhannsson 4, Hörður Másson 3, Halldór Logi Árnason 1, Sigþór Árni Heimisson 1.

Varin skot : Hreiðar Levý Guðmundsson 15/2.

Utan vallar : 14 mínútur

Mörk ÍBV : Kári Kristján Kristjánsson 7/4, Theodór Sigurbjörnsson 7/1, Nökkvi Dan Elliðason 3, Einar Sverrisson 2, Grétar Þór Eyþórsson 2, Andri Heimir Friðriksson 1, Dagur Arnarsson 1, Magnús Stefánsson 1, Hákon Daði Styrmisson 1.

Varin skot : Kolbeinn Aron Arnarsson 18/2.

Utan vallar : 10 mínútur.

Dómarar : Bjarki Bóasson og Svavar Ó. Pétursson

Áhorfendur : 587.

Víkingur – Valur 20:21

Víkin, úrvalsdeild karla, Olís-deildin, fimmtudaginn 17. desmber 2015.

Gangur leiksins : 2:1, 3:2, 5:3, 6:6, 7:8, 9:11 , 10:14, 14:15, 16:18, 18:19, 20:21 .

Mörk Víkings : Ægir Hrafn Jónsson 5, Jóhann Reynir Gunnlaugsson 4/1, Jón Hjálmarsson 3, Logi Ágústsson 3, Karolis Stropus 2, Arnar Gauti Grettisson 1, Daníel Örn Einarsson 1, Atli Karl Bachmann 1.

Varin skot : Einar Baldvin Baldvinsson 17, Magnús Gunnar Erlendsson 1/1.

Utan vallar : 0 mínútur.

Mörk Vals : Geir Guðmundsson 6, Daníel Þór Ingason 5, Atli Már Báruson 3/1, Sveinn Aron Sveinsson 3, Guðmundur Hólmar Helgason 1, Ýmir Örn Gíslason 1, Alexander Örn Júlíusson 1, Gunnar Harðarson 1.

Varin skot : Hlynur Morthens 17.

Utan vallar : 10 mínútur.

Dómarar : Gísli Hlynur Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson.

Áhorfendur : 150.

Afturelding – Fram 22:21

N1-höllin Varmá, úrvalsdeild karla, Olís-deildin, fimmtudaginn 17. desmber 2015.

Gangur leiksins : 0:2, 3:4, 5:5, 7:5, 11:6, 13:9 , 13:10, 15:12, 17:14, 18:16, 20:17, 22:21 .

Mörk Aftureldingar : Árni Bragi Eyjólfsson 12/4, Birkir Benediktsson 5, Jóhann Jóhannsson 3, Pétur Júníusson 2.

Varin skot : Davíð Hlíðdal Svansson 17/2.

Utan vallar : 10 mínútur.

Mörk Fram : Þorgrímur Smári Ólafsson 6, Garðar B Sigurjónsson 5/3, Ólafur Ægir Ólafsson 3, Stefán Baldvin Stefánsson 2, Arnar Snær Magnússon 2, Arnar Freyr Arnarsson 1, Arnar Freyr Ársælsson 1, Óðinn Ríkharðsson 1.

Varin skot : Kristófer Fannar Guðmundsson 16/3.

Utan vallar : 8 mínútur.

Dómarar : Bjarni Viggósson og Jón Karl Björnsson.

Áhorfendur : 333.