Forsetakosningar verða á næsta ári. Svo framarlega sem fleiri en einn verða í framboði til embættisins.

Forsetakosningar verða á næsta ári. Svo framarlega sem fleiri en einn verða í framboði til embættisins. Margir bíða þess að vita hvort sitjandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, gefi áfram kost á sér og hafa ýmsir fundið því flest til foráttu kjósi hann að gera það. Jafnvel hefur verið talað um að þar með væri Ólafur að ákveða að verða forseti næstu fjögur árin. Langur vegur er þó frá því. Taki hann ákvörðun um að gefa áfram kost á sér væri hann ekki að gera meira en nákvæmlega það. Ólafur ræður því ekki hver verður forseti næstu fjögur árin. Það gera aðeins kjósendur.

Með því að gefa áfram kost á sér væri Ólafur Ragnar í raun aðeins að leggja það í dóm kjósenda hvort hann verði áfram forseti eða ekki í stað þess að taka þá ákvörðun sjálfur með því að gefa ekki kost á sér. Með öðrum orðum mætti segja að með því færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi veru hans á forsetastóli. Stuðningsmenn þess að mál séu útkljáð með þeim hætti ættu einkum og sér í lagi að fagna því ef Ólafur ákveður að leggja störf sín til þessa í dóm kjósenda. Þar eru Píratar meðal annarra efstir á blaði. Hins vegar hafa talsvert aðrar raddir heyrzt úr þeirri átt sem vekur óhjákvæmilega spurningar um það hvort þjóðaratkvæðagreiðslur eigi aðeins við að mati Pírata þegar það hentar þeim pólitískt?

Fleira í málflutningi Pírata hefur raunar verið á þessum nótum. Þannig hafa þeir lagt mikla áherzlu á mikilvægi gegnsæis. En í október lögðu þingmenn Pírata hins vegar fram frumvarp til breytinga á þingsköpum um að atkvæðagreiðslur á Alþingi um vantrauststillögur á sitjandi ríkisstjórn eða ráðherra skyldu vera leynilegar. Með öðrum orðum að haldið yrði upplýsingum frá kjósendum um það með hvaða hætti þingmenn hefðu kosið líkt og í öðrum málum. Hvað varð um áherzlu Pírata á gegnsæi? Á það að sama skapi aðeins við þegar það hentar þeim pólitískt?

Rök þingmanna Pírata voru þau að leynileg atkvæðagreiðsla gerði þingmönnum kleift „að greiða atkvæði eftir sannfæringu sinni án utanaðkomandi þrýstings hvort sem hann er frá samþingsmönnum, kjósendum, fjölmiðlum eða öðrum“. Með sömu rökum mætti vitanlega gera allar atkvæðagreiðslur á Alþingi leynilegar. Gegnsæið, líkt og áherzlan á að treysta kjósendum, má sín greinilega lítils þegar pólitískir hagsmunir Pírata eru annars vegar.

Taki Ólafur Ragnar ákvörðun um að gefa áfram kost á sér sem forseti Íslands verður það þannig ekki áfall fyrir lýðræðið heldur þvert á móti. Hafi einhverjir aðrir frambærilegir einstaklingar hug á því að bjóða sig fram ættu þeir að taka samkeppninni frá Ólafi fagnandi. Hvort hann haldi áfram eða ekki ætti ekki að vera forsenda ákvörðunar þeirra um framboð. Ef svo hins vegar er verður það vart skilið öðruvísi en sem viðurkenning á því að Ólafur sé betri valkostur. hjortur@mbl.is

Hjörtur J. Guðmundsson