Unnur S. Óskarsdóttir fæddist á Akureyri 14. október 1934. Hún lést 7. desember 2015.

Hún var elsta dóttir hjónanna Óskars Tryggvasonar, f. 27. júlí 1911, d. 23. nóvember 1959, og Sigrúnar Kristjánsdóttur, f. 29. september 1908, d. 6. júlí 1989.

Systkini Unnar eru þau Oddný S. Óskarsdóttir, f. 22. mars 1936, og Kristján Guðmundur Óskarsson, f. 18.2. 1938.

Eiginmaður Unnar var Ingimar Davíðsson mjólkurfræðingur, f. 13. nóvember 1920, d. 3. september 1990. Sonur þeirra var Rúnar Haukur, f. 12. september 1964, d. 14. október 2015. Dóttir hans er Rebekka Unnur, f. 21. október 2002. Stjúpdóttir hans er Telma Glóey Jónsdóttir, f. 21. apríl 1986, og dóttir hennar er Áróra Kristín Ólafsdóttir.

Útför Unnar fer fram frá Glerárkirkju í dag, 18. desember 2015, kl. 10.30.

Elskuleg móðursystir mín, Unnur Óskarsdóttir, lést hinn 7. desember síðastliðinn, en hún missti einkason sinn, Rúnar Hauk Ingimarsson, hinn 14. október sl. á 81 árs afmælisdaginn sinn. Sonardóttir hennar, Rebekka Unnur Rúnarsdóttir, þarf nú að sjá á eftir föðurömmu sinni aðeins tæpum tveimur mánuðum eftir að faðir hennar lést langt fyrir aldur fram og er mikið lagt á unga sál. Unnur var endalaust stolt af sonardóttur sinni en Rebekka Unnur, þessi frábæra og flotta stelpa, er dugleg í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur.

Unnur sjálf var mikil handavinnukona og hún bæði saumaði og prjónaði á mig föt þegar ég var lítil. Einnig prjónaði hún húfur og sokka á strákana mína og barnabarnið mitt. Hún prjónaði líka og saumaði föt fyrir dúkkur og bangsa og man ég sérstaklega eftir listilega prjónaðri kápu sem hún prjónaði fyrir Barbie-dúkkuna mína, en þessa kápu hefur hreint ekki verið auðvelt að prjóna. En handavinnusnillingurinn hún Unnur fór létt með það eins og annað sem hún gerði. Hún var mikil kvenfélagskona og hún sagði mér eitt sinn að eitt það skemmtilegasta sem hún gerði í kvenfélaginu væri að klæða fermingarbörnin í fermingarkyrtlana, en kvenfélagskonurnar sáu einmitt um það. Henni fannst líka gaman að ferðast og fór ótal sinnum með foreldrum mínum til Kanaríeyja eftir að Ingimar, maðurinn hennar, lést. Einnig fannst henni mjög gaman að fara á kaffihús og spjalla svolítið yfir góðu kaffi og meðlæti. Þá var matarsmekkur hennar svolítið í ætt við það hvað unga fólkið vill í dag, en hún var hrifin af hamborgurum, pítsum, fiski og frönskum og var alltaf til í að fá þann mat sendan heim.

Unnur kom oft til mín til Njarðvíkur og var hjá mér í viku eða tíu daga og einnig passaði hún strákana mína þegar við Pétur, maðurinn minn, fórum til útlanda. Þegar ég skellti mér í skóla og vantaði pössun í prófunum þá var Unnur strax komin og reddaði málunum. Rúnar Haukur heitinn bjó hjá okkur Pétri í tvo vetur þegar hann fór í skóla í Reykjavík og var Unnur okkur afar þakklát fyrir það. Þegar Rúnar Haukur lést þá vorum við frænkurnar ásáttar um að heyra hvor í annarri á hverjum degi og er ég afar þakklát fyrir öll símtölin okkar á milli.

Ég á eftir að sakna mikið elsku Unnar frænku minnar sem mér þótti ofurvænt um. En ljósið í myrkrinu er að nú er hún komin til þeirra sem hún elskaði og voru farnir á undan henni, eiginmanns og einkasonar.

Guð blessi minningu elsku Unnar minnar.

Sigrún Ósk.

Elskuleg móðursystir mín, Unnur Óskarsdóttir, sem lést hinn 7. desember síðastliðinn var stór partur af lífi mínu alla tíð. Hún bjó lengst af í næstu götu og nú undir það síðasta voru aðeins tvö hús á milli okkar. Sem barn var ég mikið hjá henni og hún passaði mig um tíma á meðan foreldrar mínir voru í fríi á Kanaríeyjum. Þá var nú aldeilis dekrað við mig og ég fékk að leika mér með bangsana hans Rúnars Hauks frænda sem mér fannst þeir allra flottustu því þeir voru í svo fallegum fötum sem Unnur hafði prjónað. Unnur var nefnilega handavinnusnillingur og allt sem hún gerði var bæði fallegt og vandað. Hún bjó til alls konar föt á Barbie-dúkkurnar mínar og töfraði fram dragtir, kápur, kjóla og aukahluti með munstrum og hvað eina. Allt þetta á ég enn þann dag í dag og passa mjög vel upp á. Kannski varð þetta líka kveikjan að því að ég lærði fatahönnun seinna. Á meðan ég var í skólanum, og var stundum að sauma einhver ósköp, þá vissi ég að alltaf gat ég leitað til Unnar til að fá hjálp við það sem ég var að gera og var sú hjálp alveg ómetanleg. Nú í seinni tíð var hún dugleg við að prjóna svo undur falleg föt á drengina mína og minnist ég hennar sitjandi í sófanum sínum alltaf með eitthvað nýtt til að sýna mér þegar ég kom í heimsókn. Ég man líka vel hvernig hún brosti til mín og fór að kalla mig litlu Hugljúfu sína þegar ég var á unglingsárunum, en sennilega hef ég verið með snert af unglingaveikinni þá og Unnur gerði bara smá grín að mér.

Unnur hafði mjög gaman af því að fara til Kanaríeyja og fór ég einu sinni með henni þangað. En þar sem mamma mín átti afmæli eftir nokkra daga og mátti því ekkert vita af okkur, þá þurftum við frænkurnar að læðast út um allt og láta lítið á okkur bera. Þar þekktu allir alla og við gistum á hóteli sem var rétt hjá þar sem foreldrar mínir dvöldu. Þetta leynimakk var alveg ótrúlega skemmtilegt. Ég man líka eftir því að við Unnur vorum aftur saman á Kanaríeyjum, og þá í kringum jólin, og á aðfangadag fórum við í göngutúr niður á strönd þar sem við fengum okkur MacDonalds í hádegismat. Það fannst okkur hreint ekkert leiðinlegt. Margir héldu að Unnur væri mamma mín af því við vorum svo líkar og ansi oft heyrði ég fólk segja að það hefði séð mömmu mína rétt í þessu, en þá sagði ég við viðkomandi að það hefði örugglega verið hún Unnur frænka en ekki mamma.

Unnur missti svo mikið þegar einkasonur hennar, Rúnar Haukur, lést langt um aldur fram nú fyrir skemmstu og það læddist að mér sá grunur að það myndi ekki líða á löngu þar til hún færi til hans því sorgin var svo mikil. Og nú eru þau mæðginin sameinuð á ný. Ég á alltaf eftir að sakna Unnar frænku og á eftir að hugsa mikið til hennar um ókomna tíð. Nú á sonardóttir Unnar, Rebekka Unnur, um sárt að binda og sendi ég henni, og einnig Telmu og Áróru, mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Elsku Unnur frænka, við eigum eftir að sakna þín endalaust, enda varstu elskuð af mörgum. Hjartans þakkir fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og fjölskylduna mína.

Þín,

Eidís Anna.