RÚV Stjórnendur og stjórnarmenn RÚV voru boðaðir á fund fjárlaganefndar Alþingis í gær. Gengið er út frá því að framlög haldist óbreytt milli ára.
RÚV Stjórnendur og stjórnarmenn RÚV voru boðaðir á fund fjárlaganefndar Alþingis í gær. Gengið er út frá því að framlög haldist óbreytt milli ára. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Andri Steinn Hilmarsson ash@mbl.is Niðurskurðaraðgerðir eru ekki á teikniborðinu hjá stjórnendum Ríkisútvarpsins þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir því að útvarpsgjald lækki úr 17.800 kr. niður í 16.400 kr. fyrir árið 2016.

Andri Steinn Hilmarsson

ash@mbl.is

Niðurskurðaraðgerðir eru ekki á teikniborðinu hjá stjórnendum Ríkisútvarpsins þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir því að útvarpsgjald lækki úr 17.800 kr. niður í 16.400 kr. fyrir árið 2016. Lækkun útvarpsgjaldsins gæti haft í för með sér tekjumissi RÚV sem nemur tæpum 500 milljónum kr., og er jafnframt reiknað með því að RÚV verði af auglýsingatekjum þar sem skera þurfi niður í dagskrárgerð.

Þetta kom fram í svörum stjórnenda og fjögurra stjórnarmanna Ríkisútvarpsins, sem kallaðir voru fyrir fjárlaganefnd í gærkvöld. Fundurinn var opinn fjölmiðlum þegar málefni RÚV voru tekin fyrir, en afar sjaldgæft er að fundir fjárlaganefndar séu opnir fjölmiðlum.

Hallarekstri verið snúið við

Í svörum RÚV kom fram að stjórnendur og stjórnarmenn hafi margoft fengið þau skilaboð frá Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra að framlög til RÚV yrðu óbreytt á milli ára. „Við vinnum miðað við það,“ sagði Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri. Þó kom það fram í svörum bæði Magnúsar og Guðlaugs G. Sverrissonar, stjórnarformanns RÚV, að hallarekstri félagsins hefði verið snúið við á undanförnum árum og hefði reksturinn verið jákvæður á síðasta ári og í slíkt hið sama stefni í ár.

Í svörum kom fram að ef til niðurskurðar komi vinni stjórnendur að því að reka RÚV án halla, en niðurskurðurinn kæmi fyrst og fremst niður á dagskrárgerð og kjarnaþjónustu sökum mikils niðurskurðar í allri umgjörð á undanförnum árum. „Það verður erfitt verk að velja og ég er sannfærður um að margir myndu sjá eftir ýmsu sem þyrfti að fara út,“ sagði Magnús og bætti við að mennta- og menningarmálaráðherra hugnaðist ekki sú mynd sem blasti við eftir slíkan niðurskurð.