Unnur Kristín Sumarliðadóttir var fædd í Reykjavík 5. júlí 1934. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 7. desember 2015.

Foreldrar Unnar Kristínar voru þau Bóthildur Jónsdóttir húsfreyja, f. að Ragnheiðarstöðum, Gaulverjabæjarhreppi í Árnessýslu, 18. október 1897, d. 31. janúar 1989, og Sumarliði Gíslason, f. í Bakkabúð, Akranesi, 14. mars 1892, d. 15. mars 1969. Systkini Unnar eru: Guðrún Jóna (sammæðra), f. 1921, d. 1997, Steinunn Lára, f. 1923, d. 2005, Gíslína, f. 1926, Gunnar, f 1927, d. 2015, Sigríður, f. 1931, Hildur (Stella), f. 1932, Ingibjörg, f. 1936, Gísli, f. 1938, Ásgeir, f. 1939, og Birgir, f. 1943.

Unnur Kristín giftist 2. maí 1959 Hreini Sigurðssyni, f. 20. febrúar 1930, d. 18. apríl 1993, fóstursonur þeirra er Sigurgeir Ernst, f. 11. júlí 1959. Hann er kvæntur Birnu Baldursdóttur, f. 8. september 1961, þau eiga tvær dætur 1) Viktoríu, f. 1985, sambýlismaður hennar er Jón Ingiberg Jónsteinsson, f. 1982, og börn þeirra eru Róbert Elí, f. 2011, og óskírð Jónsdóttir, f. 2015, 2) Unnur Kristín, f. 1990.

Unnur ólst upp á Hverfisgötu 104a í Reykjavík í stórum systkinahópi. Hún starfaði sem verkakona við fiskvinnslu, en rak á tímabili bensínstöðina við Vitatorg ásamt Hreini manni sínum.

Útför Unnar Kristínar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 18. desember 2015, kl. 15.

Með djúpri virðingu og þökk fyrir allt og allt, kveð ég elskulegu tengdamóður mína Unni Kristínu. Megi Guð geyma hana og vernda.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Hvíl í friði,

Þín tengdadóttir,

Birna Baldursdóttir.

Elsku amma, nú þegar við kveðjum þig í hinsta sinn er okkur efst í huga þakklæti, þakklæti fyrir að hafa alltaf átt þig að og fyrir allt það sem þú hefur gert fyrir okkur. Eftir sitja allar góðu minningarnar. Eins og allar ferðirnar í sumarbústaðinn við Hafravatn þar sem við eyddum miklum tíma með þér og afa á okkar yngri árum. Einnig fórum við í skemmtilegar ferðir til Ameríku þar sem búðaleiðangrar einkenndu ferðirnar og þér fannst nú ekki leiðinlegt að elta okkur búð úr búð.

Í þínum augum var allt sem við gerðum svo frábært. Þú varst alltaf svo stolt af okkur og af þeim afrekum sem við höfum náð í lífinu. Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur og vildir allt fyrir okkur gera. Það skipti ekki máli hvað það var, hvort sem það var að skutla okkur hingað og þangað um bæinn eða koma með mat til okkar þegar við vorum veikar heima, allt var þetta meira en sjálfsagt.

Þegar við komum í heimsókn varst þú alltaf tilbúin með mat fyrir okkur og var það alltaf íslenskur heimilismatur, það er þér að þakka að við kunnum að meta góða kjötsúpu, slátur og grjónagraut. Það verður erfitt að feta í þín fótspor þegar það kemur að matargerð.

Þú varst með góðan og hnyttinn húmor. Þú náðir alltaf að lauma að gullmolum. Þú varst alltaf svo mikill töffari. Þú kvartaðir aldrei og sýndir alltaf svo mikla hörku og það skein í gegn þegar þú veiktist. Þú varst alltaf að hlífa okkur gagnvart veikindum þínum. Talaðir alltaf um að það væru aðrir sem hefðu það verra en þú, svo þú gætir ekki kvartað.

Þú sást ekki sólina fyrir langömmubarninu þínu, honum Róberti Elí, og stjanaðir þú í kringum hann eins og þú gerðir við okkur alla tíð. Þú varst svo spennt að fá nýtt langömmubarn og þegar daman fæddist í nóvember þá skein gleðin úr augum þínum. Það er svo dýrmætt að þú fékkst að kynnast henni.

Elsku amma, við kveðjum þig með söknuði en minningin um þig lifir í hjörtum okkar alltaf.

Viktoría og Unnur Kristín.

Elsku Unnur.

Með þessum fátæklegu orðum vil ég kveðja elskulegu systur mína og þakka fyrir allar ánægjulegu stundirnar sem við áttum saman. Ég sakna þín mikið elsku systir enn ég veit að guð tekur vel á móti þér.

Ég kveð þig með þessu ljóði sem hann afi, Jón Arason orti svo fallega.

Vægðu mér, svo veðrin hörð

vængja stefnu ei breyti,

ódauðleikans inn í fjörð

er ég flugið þreyti.

Heilög veri höndin þín

hjálp mín lífs á kveldi,

syndaskjölin svo að mín

sviðni í kærleikseldi.

Það fær sálu mína mett,

merkta kjörum nauða,

vona sé ég bjartan blett

bak við gröf og dauða.

Þegar hinztu ferð ég fer

feigðar gegnum traðir,

taktu þá á móti mér,

miskunnsami faðir.

(Jón Arason.)

Þín systir,

Sigríður (Sigga).

Það fyrsta sem kemur upp í huga mínum, þegar Unnur Kristín er öll, er þegar heyjað var á Elliðakoti og slegið var með orfi og ljá. Það var gaman að sjá Hreinsa höndla orfið og ljáinn og Unni með hrífuna. Þar fékk ég að ferja heyið á hestvagni alla leið að Gunnarshólma, eftir að Unnur sýndi mér hvernig ætti að stýra hesti með heyvagni.

Búið var í Elliðakoti fram til 1940. Brá þá síðasti bóndinn búi. Búið var þó í húsunum fram til 1948 eða 1949. Brunnu húsin þá og fór jörðin þar með endanlega í eyði.

Fyrsti, og eini, reiðtúrinn sem ég fór var með Unni á hestinum Lýsingi frá Gunnarshólma, þar sem Unnur og Hreinsi stungu saman nefjum og trúlofuðust skömmu seinna.

Það var oft glatt á hjalla í sumarhúsinu Austurholti með Ingu, Unni, Gísla og Ásgeiri.

Lára, Gunnar, Gilla, Sigga og Stella voru flutt að heiman þegar hér var komið.

Þegar að mér sverfur sorg

og sortnar í mínu geði,

lít ég upp í ljóssins borg

ljómar allt af gleði.

(Jón Arason.)

Heillandi umhverfið, Nátthagavatn, Hólmsá og Gudduós, afrennsli Selvatns var leikvangur krakkanna í Austurholti. Unnur var aldrei langt undan þegar pollinn fór til veiða í Hólmsá og í Gudduóspyttinum og var hún með, sem oft áður, þegar á land kom einn stærsti urriði sem veiðst hefur á þessum slóðum. Unnur bað pabba sinn að fara til Gústa rakara, sem bjó skammt frá og var mikill veiðimaður, til að láta vigta fiskinn en hann reyndist vera átta pund. Það var þá sem ég sá rétta handbragðið við flökun þegar Unnur flakaði fiskinn!

Upp við tímans lækjarnið

stoð og stytta okkar hlið

sem heitir Unnur Kristín

stoltur, því hún er systir mín.

Birgir.

HINSTA KVEÐJA
Elsku langamma. Nú ertu farin upp til himna. Þú varst alltaf svo góð við mig og það var alltaf svo gaman að heimsækja þig í Hraunbæinn. Takk fyrir allar pönnukökurnar, takk fyrir ísinn og takk fyrir grjónagrautinn.
Ég á eftir að segja litlu systur frá því hvað þú varst góð langamma.
Þinn
Róbert Elí.