Sölvi Sveinsson
Sölvi Sveinsson
Eftir Sölva Sveinsson: "Sú tillaga sem nú er til umræðu lýsir einstöku metnaðarleysi. Hún er vottur um verðmætamat sem sæmir ekki menningarþjóð."
Ekki er ein báran stök, orti gamli Grímur. Þessi orð vakna í hug þegar fréttir berast af tillögugerð á Alþingi hinu háa. Nú er lagt til að húsnæði Þjóðskjalasafns Íslands verði selt og safninu fundinn annar staður. Lóðin er víst svo verðmæt. Kannski vilja hótelmenn byggja þar? Vestur á Melum er minnismerki um hús íslenskra fræða, hol augnatóft í ásjónu landsins. Kannski verður þar einhvern tíma byggt hótel? Náttúrugripasafn þjóðarinnar er geymt í kössum. Ekkert þessu líkt þekkist í þeim Evrópulöndum sem ég kann skil á. Kannski eigum við von á því að Þjóðleikhúsið verði flutt upp í Ögurhvarf af því að það stendur á svo dýrri lóð? Öll ofangreind söfn varðveita einstakan sögulegan arf. Í safnkosti þeirra er fólginn sjálfur grundvöllur þjóðmenningarinnar. Þessi söfn eiga að vera í alfaraleið, okkur ber skylda til þess að búa fallega um þau og opna greiðlega almenningi og erlendum gestum. Til þess þarf að kosta nokkru til; Þjóðskjalasafn Dana er t.d. í Kristjánsborg og smekklega að því hlúð. Sú tillaga sem nú er til umræðu lýsir einstöku metnaðarleysi. Hún er vottur um verðmætamat sem sæmir ekki menningarþjóð – en kannski langar okkur ekkert til að teljast með slíkum þjóðum?

Höfundur er fyrrverandi skólastjóri.