Gunnhildur Kristjánsdóttir fæddist 15. júlí 1930. Hún lést 7. desember 2015.

Útför Gunnhildar fór fram 16. desember 2015.

Sæll Gunni minn, þetta er kellingin hérna – og lifandi ennþá.

Þessa setning klingir enn í huga mér því þessa setningu heyrði ég í hvert sinn seinni árin sem Gunnhildur tengdamóðir mín hringdi og ég svaraði í símann.

Frá því að við hittumst fyrst og ég var kynntur inn í fjölskylduna var mér vel tekið og alla tíð síðan var góð vinátta milli okkar Gunnhildar. Hún var stríðin og kunni vel að meta létta glettni og kom sú glettni oft upp í samskiptum okkar. Gunnhildur fór yfirleitt sínar eigin leiðir og var óhemju hugmyndarík með að bjarga sér með ýmsa hluti. Þó voru tæknimálin oft að þvælast fyrir henni og þá var kallað á tengdasoninn til að bjarga málunum, með að finna rásirnar aftur á litla túbusjónvarpinu. Að síðustu, þegar málið var orðið svo flókið með nýrri sjónvarpstækni og fjarstýringarnar orðnar tvær, var málið bara leyst með því að hætta að horfa á sjónvarpið. Það væri hvort sem er ekkert merkilegt í því. Gunnhildur var mikill lestrarhestur, las mikið guðspekirit og rit um lífsins gátur, en ekki síður skáldsögur og ljóð. Daginn áður en hún lést otaði hún að mér bók með ljóðum Arnar Arnarsonar sem hún sagði að við yrðum að lesa.

Síðustu árin hafði Gunnhildur búið á Hrafnistu og kynntist þar Herði Einarssyni, sem átti eftir að verða lífsförunautur hennar í 14 ár. Það var yndislegt að fylgjast með sambandi þeirra þessi ár. Þau nutu þess að ferðast saman bæði innan lands sem utan og gaman var að fylgjast með daglegum ferðum þeirra síðustu árin, eftir að heilsu Gunnhildar hafði hrakað nokkuð, ferðum sem ekkert mátti trufla og ekki gekk að koma í heimsókn á þessum helga tíma þeirra. Þá óku þau niður að Sundahöfn eða inn í Laugardal og þar fengu skötuhjúin sér göngutúr og settust á bekk í Grasagarðinum og skoðuðu gróðurinn í garðinum.

Seinni árin var Gunnhildi orðið tíðrætt um ellina og dauðann og var búin að velja sér stjörnu á himninum til þess að taka bólfestu á þegar yfir lyki.

Með þessum orðum kveð ég Gunnhildi tengdamóður mína, sem á örugglega eftir að líta niður til okkar frá stjörnunni sinni.

Gunnbjörn Marinósson.

Elsku amma mín,

meðan tárin renna niður vangana hugsa ég um hvað við áttum margar góðar stundir saman. Bláa lónið minnir mig á þig, en þangað fórum við oft saman – áður en það varð að túristastað. Með þér var oftast rólegt og notalegt. Til dæmis þegar þú kenndir mér að prjóna inniskó, galdrabrögð og um það bil öll þau spil sem ég kann í dag. Við eyddum ótrúlegum tíma í lönguvitleysu, kana, kasíón og manna. Þegar við fórum í skopparakringlukeppni færðist smá fjör í leikinn, en þú varst oftast miklu betri í að snúa þeim en ég. Ég held ég hafi ekki verið byrjuð í skóla þegar þú last fyrir mig Sálminn um blómið, enn þann dag í dag man ég vel eftir Sobbegga afa og Lillu Heggu.

Þú kenndir mér svo margt, en það sem stendur einna mest eftir er og verður alltaf í kollinum á mér. Með þér lærði ég að hugurinn kemur manni ansi langt, meira að segja til útlanda. Ég mun aldrei gleyma því þegar þú spurðir mig hvort ég vildi koma með þér til Kanarí.

„Hvenær?“ spurði ég, „núna“ sagðir þú. Ég horfði stórum augum á þig og spurði svo hvort ég þyrftir ekki að hringja í mömmu. „Nei, nei. Við skulum bara koma“. Síðan elti ég, heldur undrandi, glottandi ömmu mína út úr blokkinni, gegnum undirgöng og þar vorum við komnar. Umkringdar pálmatrjám keyptum við ís, settumst á bekk og nutum sólarinnar. Síðan röltum við bara aftur heim. Auðvitað lærði ég seinna að þessi staður er kallaður Eiðistorg, en fyrir mér mun þetta alltaf vera Kanarí.

Á litla fingri vinstri handar geymi ég hringinn frá þér sem einu sinni passaði á löngutöng. Hann minnir mig á þig og söguna um það hvernig þessi hringur rataði til mín. Litla krílið sem mætir með vorinu fær að heyra ógrynni af sögum um sniðugu, stríðnu og uppátækjasömu langömmu sem skín nú svo bjart á himnum.

Hafðu það gott á stjörnunni þinni.

Björkin þín.

Björk Gunnbjörnsdóttir.

Það var mér mikil gæfa í æsku að eiga tvær yndislegar ömmur sem ég var mikið hjá. Þær bjuggu í hverfinu og meira að segja í sömu götu, Þykkvabænum. Amma Guðrún var eins og maður ímyndar sér gamlar og góðar ömmur: Með lagt hárið, í inniskóm, bauð upp á kandísmola og knús. Aðeins ofar í Þykkvabænum bjó amma Gunnhildur, þá rétt rúmlega fimmtug og kvik eins og unglingsstelpa. Hún var með slétt sítt hár, tekið saman með spennu, og var ekkert mikið fyrir að hanga heima í velúrgalla og inniskóm. Ég hentist því út um allar trissur með ömmu Gunnhildi og hundunum þegar mikið var að gera hjá mömmu í háskólanáminu.

Ein fyrsta minning mín af ferðum okkar ömmu var þegar ég var á að giska sex ára og við fórum í bíltúr upp í Rauðhóla. Amma sér smá hindrun fram undan og segir mér að halda mér fast, gefur bensínið í botn og fer í loftköstunum yfir hólinn. Lætur þar ekki staðar numið heldur spólar í hringi á sléttu þar fyrir handan. Ég næ varla andanum af gleði yfir þessari rússíbanareið en næ að kreista út úr mér orðunum: „Amma þú ert algjör, algjör ... torfæruamma!“

Eftir þetta festist viðurnefnið við ömmu Gunnhildi á mínu heimili og ég veit að henni þótti pínu vænt um það. Og það var líka lýsandi fyrir hana á þessum árum, hún var nefnilega ekkert allt of mikið fyrir að feta hinn beina og breiða veg. Hún kom sér út í alls kyns ævintýri: Rak golfskála, keypti sjoppu og flutti milli staða af hinum ýmsu ástæðum. En svona var bara amma: Hún lét vaða í torfærurnar og komst alltaf yfir þær. Ferðalagið var kannski ekki alltaf áfallalaust en hún komst alltaf á leiðarenda, reynslunni ríkari.

Amma var mikill húmoristi og pínulítill stríðnispúki. Stríðnispúkinn eltist ekkert af henni og þegar ég og María mín heimsóttum hana í sumar bauð hún okkur upp á dýrindis sveppasúpu. Við borðuðum hana með bestu lyst en ég undraðist útlitið á sveppunum og spurði hvar hún hefði fengið þá. „Nú, ég tíni þá bara hérna úti við götu,“ sagði amma. Mér svelgdist á og sá fyrir mér að nú hlyti ég að fara að sjá bleika fíla hvað úr hverju. Amma kemur svo með pottinn og býður upp á ábót. „Nei takk ómögulega, alveg pakksaddur,“ var svarið. Sé ég svo glitta í kunnuglegt stríðnisglott á ömmu þegar hún gengur til baka með pottinn.

Enga fíla sá ég þann daginn því hún amma þekkti nefnilega náttúruna betur en flestir, tíndi jurtir, grös og sveppi og var framúrstefnuleg í matargerð. Hún var líka fróð um allt milli himins og jarðar og var næm á andans mál.

Ég hitti hana í síðasta mánuði og við ræddum heima og geima og hvað tæki við eftir dauðann. Hún var búin að lesa sér mikið til og var alveg handviss um hvernig framhaldið yrði:

Hún var búin að velja sér stjörnu og þangað var förinni heitið. Þar ætlaði hún ýmislegt að brasa, hún átti tilbúna bók sem hún ætlaði að koma í verk að gefa út og svo þurfti hún líka að gefa sér tíma til að tefla við Ella bróður.

Á mánudaginn, þegar amma fór, gekk yfir landið einn öflugasti stormur í manna minnum. Það þurfti kraft til að koma kerlu út í kosmósið.

Góða ferð, amma mín.

Baldur.

Hver hefði trúað því að einn hundur myndi breyta öllu í lífi okkar systra. Gunnhildur átti yndislega írska setter tík sem hét Heba. Við systurnar aðeins átta og níu ára gamlar fengum oft að vera með hana. Okkur langaði mikið í hund en Heba varð okkar besta vinkona og einnig Gunnhildur Hebumamma eins og við kölluðum hana. Við vorum með Hebu öllum stundum og fékk hún að fara með okkur fjölskyldunni í útilegur, í hesthúsið, reiðtúra og svo fékk Heba ómælda skemmtun af öllum gönguferðunum okkar með hana um Árbæinn. Þegar Heba sá kött eða fugl, stökk hún af stað og dró okkur, þannig að við fengum oft hrufluð hné, sem Gunnhildur okkar bjó um. Við systur urðum heimalningar hjá Gunnhildi. Hún var engin venjuleg kona. Mikill dýravinur og kenndi okkur margt í umgengni við dýrin. T.d. talaði hún við Hebu hundinn sinn eins manneskju og sagði að dýrin skildu ef maður talaði við þau. Og það er sko sannarlega rétt. Við vorum oft með henni í sjoppunni sem hún rak og átti niðri á Hverfisgötu.

Eitt sinn gisti önnur okkar hjá henni og Hebu í um viku þegar foreldrar okkar fóru í hestaferðalag. Það var góður tími.

Minnisstætt er vorið sem Heba dó og við sem og Gunnhildur fluttum úr Árbænum. Við systur tókum okkur til og fórum í reiðtúr til hennar upp í Mosó. Við geymdum hestana í garðinum og hún bauð okkur í mat. Ýmislegt var skrafað í gegnum árin og alltaf hittum við hana reglulega og þá var mikið talað. Hún sagði okkur frá æskuárum sínum í Dölunum. Hún sagði okkur frá því hvernig hún fór að því að hæna að sér styggustu hestana. Hún sagði okkur að pabbi hennar hefði oft sent hana að sækja erfiða hesta vegna þess hvað hún hafði gott lag á þeim.

Okkar vinskapur varði í um 30 ómetanleg ár. Það var ótrúlega gott að leita til hennar og hún var svo skilningsrík og var hún okkar besta trúnaðarvinkona. Hebumamman okkar var einstök og erum við svo óendanlega ríkar að hafa kynnst þessari yndislegu konu. Hún fylgdist með okkur í öll þessi ár og hún sá börnin okkar, prjónaði á þau peysur og sokka og gaf þeim teppi.

Við vitum núna að hún er komin á staðinn sem hún vildi vera á og búin að þrá að fara til í mörg ár. En við sitjum uppi með söknuðinn en minningarnar um hana ylja okkur systrum.

Hún kveður okkur í þessum dimmasta mánuði ársins. Hún sagði við okkur að henni leiddist óskaplega desember og umstangið í kringum jólin. Hún var ekki mikið fyrir veislur, en þó kom hún í útskriftarveisluna hennar Kristínar Höllu þegar hún varð stúdent. Það var ómetanlegt.

Við vottum börnum hennar, Sigrúnu, Árna og Magnúsi og barnabörnum okkar dýpstu samúð og einnig Herði hennar besta vin.

Kristín Halla og Gunnhildur (Hebustelpurnar).

HINSTA KVEÐJA
Við þökkum Gunnhildi ljúfar stundir í áratug eftir endurnýjuð kynni. Horfin er einstök kona, næm á umhverfi sitt hér og það sem við tekur handan þess.
Ragnheiður og Sigurþór.