[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Matthías Johannessen. Ástráður Eysteinsson annaðist útgáfuna og ritaði eftirmála. Bókaútgáfan Sæmundur 2015. Innbundin, 144 bls.

Á bókarkápu kemur fram að í þessari bók er úrval ljóða sem Matthías hefur ort sl. fimm ár. Þau eru fjölbreytt að efni og formi. Hér eru ljóð í fullkomlega frjálsum hætti og önnur sem hlíta ströngum bragreglum, fylgja fornri hefð í hvívetna; hér er sonnetta og frjálslegt fornyrðislag. Og yrkisefnin eru fjölbreytt, langir bálkar þar sem hugarfluginu er gefinn laus taumur, haglegar náttúrumyndir, hvort sem er sýn út um glugga eða úr gönguferð, myndir úr borg og óbyggð og hér eru heimsádeilur með nýju sniði, en kallast þó á við gamla hefð, hér eru ljóð sem óbeint eru vaxin úr starfi Matthíasar sem ritstjóri og hvarvetna birtast lesanda markvissar vísanir í bókmenntir og ummæli úr samtíma og fortíð. Kannski háir það lesendum hvað hann er víðlesinn! Segja má að söknuður leiki á fyrstu fiðlu í þessari hljómkviðu. Ljóðmælandinn er roskinn, hann hefur misst lífsförunaut sinn. Hann nýtur lífsins í skugga þess: „áttræður væntir einskis / utan haustmyrkurs“. Ljóðmælandi er lífsreyndur. Stjörnur himins kvikna honum eins og flugur „og fylgja mér yfir grámosótt / hraunhaf / míns innra manns“. Annað erindi ljóðsins „Þú ert minning“ er á þessa leið: „ég sakna þín, minn söknuður er eins / og sóley tregi júníbirtur þínar / en hugsun mín hún nýtur aldrei neins / en norpir eins og blóm við rætur sínar“. Lokaerindið er kannski niðurstaða, en ekki sátt: „En þessi minning mildar það sem var, / hún mildar skugga hausts í fylgd með þér / því hún er eins og ljós við lítið skar / og lýsir þessa nótt í huga mér“. Þetta er fallega kveðið og af einlægni. Dauðinn er nálægur ljóðmælanda, vinir hans hafa „horfið inní ósýnilega / ályktun dauðans, / horfið / eins og fuglar inní óvæntan / himin“. Fleiri ljóð eru vaxin af þessari rót og öll ort af yfirvegun.

Skáldinu er mikið niðri fyrir þegar hann hugsar til tíma útrásar og hruns. Matthías blæs þar á básúnu, honum óar við hugsunarhættinum: „Ég veit að tízkan telur sig ei þurfa / að tjalda því sem gerir oss að þjóð“. Spillingin er ágeng og „þjóð er óþjóð ef hún festir rót“. Hann vill að „Hólsfjöll séu áfram íslenzk jörð / og efalaust að tízkan leyfi það“; hann grunar að ýmsum standi á sama um landið því að „nú er eins og Íslendingaþættir / séu ekkert nema gamalmenna raup.“ Þjóðin hefur verið í „öskugráum byl vors hrunadans“ svo gripin sé upp lína þar sem hann skírskotar til Jónasar og hann vonar að „nýir tímar hefji vora hugi / til heiðurs arfleifð þessa kalda lands“.

Orðfæri Matthíasar er myndrænt í betra lagi. Hér eru lýsingarorð eins og fjalldauður, heststyggur, úthafsblár. Tunglið dreifir „geislablómum sínum“ sem „glitra inní nótt“. Hér er „þinglýst náð“, „skurðgróin jörð“, „fingurmjúk nærfærni“, fiðrildi flýgur „úr laufgrænum svefni“. Er „þangbrúnt hvassviðri“ ekki hundleiðinlegt veður? Snjallar smámyndir blasa við lesanda: „Leggja þrestir / langsára vængi / á vorgrænar nálar // syngja / sólgulum degi / til dýrðar, // hægt mjakast suðrið / til vesturs.“ Örnefni notar hann markvisst. Drekagil, Sprengisandur, Vegamót, Kerlingarskarð og Fróðárheiði standa hér ekki einungis til skrauts.

Eftirmáli Ástráðs er ljómandi gott vegakort fyrir lesanda á leið um skáldskap Matthíasar. Hann gerir góða grein fyrir helstu kennileitum í kveðskap hans og sérstöðu og nefnir góð dæmi máli sínu til stuðnings. Það er laukrétt sem hann segir að Matthías er marghamur. Afköst hans eru raunar með ólíkindum. Og það eru engin ellimörk á þessari bók önnur en þau að skáldið veit að nú hallar vesturaf. Öll efnistök eru óloppin og skáldinu er mikið niðri fyrir. Matthías á brýnt erindi við samtíð sína í þessari bók um leið og hann veitir okkur hljóða og einlæga sýn á viðkvæm einkamál. Þetta er einkar læsileg bók ljóðelsku fólki.

Sölvi Sveinsson