— Morgunblaðið/RAX
18. desember 1836 Snjóflóð féll á Norðureyri við Súgandafjörð (gegnt Suðureyri). Bærinn brotnaði í spón og fórust sex manns. Talið er að enginn bær á Íslandi hafi eyðst jafn oft af völdum snjóflóða. 18.

18. desember 1836

Snjóflóð féll á Norðureyri við Súgandafjörð (gegnt Suðureyri). Bærinn brotnaði í spón og fórust sex manns. Talið er að enginn bær á Íslandi hafi eyðst jafn oft af völdum snjóflóða.

18. desember 1958

Spámaðurinn, lífsspeki í ljóðum eftir Kahlil Gibran, kom út í íslenskri þýðingu Gunnars Dal. Bókin hefur síðan verið gefin út fimmtán sinnum og er heildarupplag hennar meira en fjörutíu þúsund eintök.

18. desember 1979

Ellefu manns slösuðust í tveimur flugslysum sem urðu með fjögurra klukkustunda millibili á Mosfellsheiði. Önnur flugvélin var einkaflugvél, hin björgunarþyrla.

18. desember 1982

Kvikmyndin „Með allt á hreinu“ var frumsýnd. Ágúst Guðmundsson og Stuðmenn stóðu að myndinni sem sló öll aðsóknarmet, um 115 þúsund manns sáu hana.

18. desember 1998

Eldgos hófst í Grímsvötnum í Vatnajökli, hið sextugasta síðan árið 1200, og stóð það í rúma viku. Í upphafi náði mökkur frá eldstöðvunum upp í tíu kílómetra hæð og öskufalls varð vart norðanlands.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson