Stjórnsýsla Fjöldi ólokinna mála er nú í kringum 150 en meðal umsækjenda um hæli er fólk frá öruggum ríkjum á borð við Kanada og Bandaríkin.
Stjórnsýsla Fjöldi ólokinna mála er nú í kringum 150 en meðal umsækjenda um hæli er fólk frá öruggum ríkjum á borð við Kanada og Bandaríkin. — Morgunblaðið/Kristinn
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Kristín María Gunnarsdóttir, staðgengill forstjóra Útlendingastofnunar, segir í samtali við Morgunblaðið einstaklinga sem ríkisfang hafa í Bandaríkjunum og Kanada vera meðal þeirra sem sótt hafa um hæli hér á landi.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Kristín María Gunnarsdóttir, staðgengill forstjóra Útlendingastofnunar, segir í samtali við Morgunblaðið einstaklinga sem ríkisfang hafa í Bandaríkjunum og Kanada vera meðal þeirra sem sótt hafa um hæli hér á landi. Það sem af er ári hefur stofnunin afgreitt þrjár umsóknir frá ríkisborgurum þessara ríkja.

„Stofnuninni hafa borist fjórar umsóknir frá ríkisborgurum þessara tveggja ríkja á árinu og afgreitt þrjár. Til þessa hafa einstaklingar frá Bandaríkjunum og Kanada ekki fengið hæli hér á landi,“ segir Kristín María og bendir á að annars staðar í Evrópu megi hins vegar finna dæmi þess að umsóknir ríkisborgara þessara ríkja hafi verið samþykktar.

„Í Svíþjóð hafa t.a.m. 28 Bandaríkjamenn sótt um hæli á þessu ári og hafa sex þeirra þegar fengið hæli og 13 verið synjað,“ segir hún og bendir á að Útlendingastofnun berist ár hvert hælisumsóknir frá ríkjum sem skilgreind eru örugg. „Það virðist frekar vera að aukast heldur en hitt,“ segir hún.

Hverjir fá hæli?

Þeir eiga rétt á hæli sem flóttamenn hér á landi sem uppfylla 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga. Er þar flóttamaður einkum skilgreindur sem „útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands.“

Þá telst viðkomandi einnig flóttamaður ef „raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalandsins. Sama gildir þegar um er að ræða ríkisfangslausan einstakling.“

Útlendingastofnun upplýsir ekki af hverju áðurnefndir ríkisborgarar hafa sótt um hæli hér á landi.

53 þjóðerni horfðu til Íslands

Á borði stofnunarinnar eru nú um 150 umsóknir um hæli í vinnslu og er heildarfjöldi þeirra einstaklinga sem eru í þjónustu við stofnunina um 300. Er þetta fólk sem t.a.m. bíður brottflutnings eða vísað hefur máli sínu í kæruferli.

Þær umsóknir sem nú eru í vinnslu koma frá einstaklingum af 25 þjóðernum en alls hefur Útlendingastofnun afgreitt eða móttekið umsóknir frá fólki af 53 þjóðernum á þessu ári. Einstaklingar með ríkisfang í fjórum ríkjum sem eru á lista Útlendingastofnunar yfir örugg ríki hafa annaðhvort átt inni umsókn á árinu eða eiga umsókn í vinnslu.

Á þessum lista má t.a.m. finna aðildarríki Evrópusambandsins, Albaníu, Bandaríkin, Kanada, Noreg og Sviss. „Öll mál sem hingað berast fá hins vegar sömu afgreiðslu, óháð því hvort umsækjandi komi frá ríki sem finna má á þessum lista eða ekki,“ segir Kristín María.

Gæti orðið fyrsta dæmið

Allsherjarnefnd Alþingis mun á næstunni taka afstöðu til alls 62 umsókna um íslenskan ríkisborgararétt, en þeir einstaklingar sem um ræðir eru þó fleiri en talan ein gefur til kynna þar sem ein umsókn getur t.a.m. verið frá foreldri með börn.

Inni í þessum hópi eru tvær albanskar fjölskyldur sem ekki fengu hæli hér á landi og fluttar voru til síns heima. Verði þeim veitt íslenskt ríkisfang er það í fyrsta skipti, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins sem hælisleitendum, sem snúið hafa aftur til síns heima, er veittur slíkur réttur á Íslandi.