Þórður Jónsson fæddist í Keflavík 13. febrúar 1941. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 1. nóvember 2015.

Foreldrar hans voru Jón Einar Bjarnason, f, 21.6. 1910, d. 30.11. 1982, og Kristín Þórðardóttir, f. 21.9. 1912, d. 27.3. 1988. Systkini Þórðar eru Birkir, Sigríður, Elías (látinn), Björg, Gréta, Kristján, Ásmundur, Einar og Borgar.

Þórður fór sex ára til afa síns og nafna vestur að Stóra-Hrauni í Kolbeinsstaðahreppi. Þar var hann til 16 ára aldurs með hléum þegar hann dvaldi í Keflavík. Níu ára var hann farinn að stunda sjóinn og stundaði alla tíð sjómennsku eða störf tengd henni. Þórður hafði alla tíð áhuga á ferðalögum, bæði innanlands og utan, og fór oft með fjölskylduna um allt land.

Ungur kynnist Þórður Elínborgu Sólveigu Þorsteinsdóttur, f. 1.4. 1944. Eignuðust þau þrjú börn: 1) Helena Birna, f. 7.7. 1963. Börn hennar eru a) Þórður Valdimar, f. 25.10. 1982, maki Guðrún Jensdóttir, f. 28.11. 1981. Börn þeirra eru Óðinn Örn, f. 24.8. 2005, og Emma Dís, f. 25.8. 2011. b) Fanney Dögg, f. 10.3. 1985. Synir hennar eru Elvar Alexander, f. 5.1. 2006, og Dylan Þór, f. 19.12. 2007. c. Anton Ægir, f. 20.9. 1989, maki Aurélie Avorio. d) Adam Ingi, f. 7.10. 2001. 2) Kristín, f. 21.8. 1965, maki Þórarinn Gunnar Pétursson, f. 2.7. 1966. Börn þeirra eru: a) Sigrún Harpa, f. 27.10. 1987. b) Elín Ástrós, f. 10.7. 1992, sambýlismaður Þór Tómasarson. c) Helena Sóley, f. 6.10. 1995. 3) Ingvar Þorsteinn, f. 16.9. 1970, maki Ágústa Sigmarsdóttir, f. 11.10. 1960.

Þórður og Elínborg skildu. Seinni kona Þórðar var Kolbrún Erla Einarsdóttir, f. 22.9. 1944, d. 4.1. 2001. Barn þeirra er Linda Björk, f. 29.9. 1979, maki Gretar B. Magnússon, f. 8.7. 1970. Sonur þeirra er Baldvin Máni, f. 13.8. 2003. Góð vinkona Þórðar til 12 ára er Elín Ingólfsdóttir, f. 17.3. 1941.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Elsku besti pabbi minn.

Nú ertu farinn frá mér, farinn til mömmu. Ég veit að þið hugsið vel hvort um annað og hugsið til mín. Þið eruð mínir verndarenglar.

Ég var mikil pabbastelpa og þú hugsaðir vel um mig, varst alltaf að passa upp á mig og okkur, litlu fjölskylduna, og gerðir allt fyrir mig. Ég hugsa um þig og mömmu á hverjum degi, hugsa um allar skemmtilegu stundirnar sem við áttum saman. Sakna þess svo að geta ekki hringt í þig og spjallað um allt og ekkert. Elsku pabbi minn, þín verður sárt saknað.

Mér tregt er um orð til að þakka þér,

hvað þú hefur alla tíð verið mér.

Í munann fram myndir streyma.

Hver einasta minning er björt og blíð,

og bros þitt mun fylgja mér alla tíð,

unz hittumst við aftur heima.

Ó, elsku pabbi, ég enn þá er

aðeins barn, sem vill fylgja þér.

Þú heldur í höndina mína.

Til starfanna gekkstu með glaðri lund,

þú gleymdir ei skyldunum eina stund,

að annast um ástvini þína.

Þú farinn ert þangað á undan inn.

Á eftir komum við, pabbi minn.

Það huggar á harmastundum.

Þótt hjörtun titri af trega og þrá,

við trúum, að þig við hittum þá

í alsælu á grónum grundum.

Þú þreyttur varst orðinn og þrekið smátt,

um þrautir og baráttu ræddir fátt

og kveiðst ekki komandi degi.

(Hugrún)

Elsku Elín, Helena Birna, Steini, Kiddý og fjölskyldur, megi guð styrkja okkur á þessum erfiðum tímum.

Þín dóttir,

Linda Björk.

Elsku hjartans pabbi/tengdapabbi, núna er liðinn rétt rúmur mánuður síðan þú okkur kvaddir.

Við erum enn að reyna að ná því að þú sért farinn frá okkur, og getum ekki lýst því, elsku Þórður okkar, hversu sárt við söknum þín.

Þú verður ætíð í hjörtum okkar um ókomna tíð. Við sjáumst síðar þótt það verði einhver bið á því.

Elsku Þórður, hve sárt það er að þurfa að horfa á eftir þér.

Ljósið flæðir enn um ásýnd þína:

yfir þínum luktu hvörmum skína

sólir þær er sálu þinni frá

sínum geislum stráðu veginn á.

Myrkur dauðans megnar ekki að hylja

mannlund þína, tryggð og fórnarvilja

– eftir því sem hryggðin harðar slær

hjarta þitt er brjóstum okkar nær.

Innstu sveiflur óskastunda þinna

ennþá má í húsi þínu finna –

þangað mun hann sækja sálarró

sá er lengst að fegurð þeirra bjó.

Börnin sem þú blessun vafðir þinni

búa þér nú stað í vitund sinni:

alla sína ævi geyma þar

auðlegðina sem þeim gefin var.

Þú ert áfram líf af okkar lífi:

líkt og morgunblær um hugann svífi

ilmi og svölun andar minning hver

– athvarfið var stórt og bjart hjá þér.

Allir sem þér unnu þakkir gjalda.

Ástúð þinni handan blárra tjalda

opið standi ódauðleikans svið.

Andinn mikli gefi þér sinn frið.

(Jóhannes úr Kötlum)

Þinn sonur og tengdadóttir,

Þorsteinn Þórðarson,

Ágústa Sigmarsdóttir.

Elsku besti pabbi minn. Kveðjustundin er erfið og söknuðurinn mikill. Margar á ég minningarnar frá þessum 52 árum sem við áttum saman; ferðirnar í Sædýrasafnið, ferðalögin innanlands sem barn og fullorðin, utanlandsferðirnar sem voru mjög skemmtilegar, þegar börnin mín fæddust varstu þeim þeirra besti afi og svo komu barnabarnabörnin og þau elskuðu að koma til þín og Elínar.

Oft varstu hræddur um okkur, ein fallegasta setning sem ég hef heyrt er þegar ég og Fanney Dögg vorum að fara til Flateyrar fyrir fjórum árum með strákana, þá sagðir þú: „Farið varlega elskurnar, þið eruð með svo dýrmætan farangur.“ Elsku pabbi, ég gæti skrifað svo miklu meira en læt þetta duga, vera einu sinni fámál eins og þú. Þú varst sjómaður af lífi og sál alla þína tíð og núna hefur þú siglt á önnur mið, mjög líklega með Erlu þér við hlið. Eins og þegar presturinn spurði langafastrákana þína þrjá hvernig afi þú hefðir verið þá sögðu þeir að hann hefði verið besti afinn og sá yngsti horfði á prestinn stoltur og sagði: „Hann afi var sjómaður.“

Faðir vor, þú sem ert á himnum.

Helgist þitt nafn,

til komi þitt ríki,

verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.

Gef oss í dag vort daglegt brauð,

og fyrirgef oss vorar skuldir,

svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.

Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu.

Því að þitt er ríkið,

mátturinn og dýrðin

að eilífu. Amen.

Elsku Elín, Steini, Linda, Kiddý, barnabörn og barnabarnabörn, megi guð styrkja okkur í sorginni.

Hvíl í friði elsku pabbi.

Þín dóttir,

Helena Birna.

Elsku afi, ég er ekki orðmargur maður en ég vil þakka þér fyrir þann tíma sem við höfðum saman. Margar af mínu sterkustu minningum eru með þér. Með þér horfði ég á mína fyrstu fótboltaleiki í sjónvarpinu og þá varð ekki aftur snúið. Þegar við fjölskyldan fórum fyrst til útlanda voruð þið Erla með og er það ferð sem ég mun muna og þykja vænt um alla tíð. Það var alltaf svo gott að koma suður til Keflavíkur til ykkar Erlu og var gaman að komast í gömlu skáktölvuna þína sem þú sýndir mér mannganginn á. Ein sterkasta jólaminningin er þegar ég lá veikur á sófanum þínum ein jólin. Þín verður sárt saknað og við Gunna og krakkarnir biðjum voða vel að heilsa Erlu.

Þar til næst, þinn dóttursonur og nafni,

Þórður.

Til elsku besta afa okkar sem kvaddi okkur alltof snemma.

Þó sólin nú skíni á grænni grundu

er hjarta mitt þungt sem blý.

Því burt varst þú kallaður á örskammri stundu

í huganum hrannast upp sorgarský.

Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða

svo fallegur, einlægur og hlýr,

en örlög þín ráðin – mig setur hljóða,

við hittumst samt aftur á ný

Megi algóður guð þína sálu nú geyma,

gæta að sorgmæddum, græða djúp sár

Þó kominn sért yfir í aðra heima

mun minning þín lifa um ókomin ár.

(Höf. ók.)

Hvíl í friði, elsku afi okkar.

Fanney Dögg

Valdimarsdóttir.

Til afa.

Nú sefur þú í kyrrð og værð

og hjá englunum þú nú ert.

Umönnun og hlýju þú færð

og veit ég að ánægður þú sért.

Ég kvaddi þig í hinsta sinn.

Ég kveð þig nú í hinsta sinn.

Blessun drottins munt þú fá

og fá að standa honum nær.

Annan stað þú ferð nú á

sem ávallt verður þér kær.

Ég kvaddi þig í hinsta sinn.

Ég kveð þig nú í hinsta sinn.

Við munum hitta þig á ný

áður en langt um líður.

Sú stund verður ánægjuleg og hlý

og eftir henni sérhvert okkar bíður.

Við kveðjum þig í hinsta sinn.

Við kvöddum þig í hinsta sinn.

(Þursi)

Elsku afi, við söknum þín og munum minnast þín um ókomin ár.

Þínir afastrákar,

Anton Ægir og Adam Ingi.