Guðmundur Ingi Jónatansson fæddist 17. maí 1950. Hann lést 4. desember 2015.

Útför Guðmundar Inga fór fram 16. desember 2015.

Elsku pabbi minn, ég er svo feginn að við komum til ykkar í október og að við gátum eytt þessum dögum saman. Það er ekki sjálfgefið að eiga svona yndislega foreldra eins og þig og mömmu sem styðja við bakið á manni í gegnum súrt og sætt og er alltaf hægt að leita til þegar á þarf að halda. Þó að líf okkar á uppvaxtarárunum hafi ekki alltaf verið fyllt af veraldlegum gæðum var það yfirfullt af því sem skiptir mestu máli í lífinu, ást og alúð frá ykkur mömmu. Við áttum svo margar góðar stundir saman þegar við keyrðum á milli golfvalla hérna í gamla daga, þú vildir alltaf hlusta á Dubliners en ég var alltaf að lækka og segja þér brandara. Ég hélt í mörg ár að þú hefðir aldrei fattað það að Dubliners var ekki uppáhaldshljómsveitin mín, þangað til fyrir nokkrum árum að mamma sagði mér hvað þér þótti þetta skemmtilegt, og sérstaklega þar sem þú spilaðir bara með og lést mig halda að ég væri bara svona sniðugur. Þegar ég var að byrja í flugnáminu, og var engan veginn viss um að það væri rétt leið í lífinu því atvinnumöguleikar væru af mjög skornum skammti, sagðir þú við mig setningu sem ég gleymi aldrei; „Hannes ekki hafa neinar áhyggjur af því að fá vinnu, það er alltaf pláss fyrir góða menn.“ Þessi orð voru rauði þráðurinn í gegnum námið mitt og hafa heldur betur reynst orð að sönnu. Það var svo gaman að fara með þig í flug á Íslandi og þegar við flugum nánast hringinn í kringum landið á einum degi með viðkomu á golfvellinum á Dalvík var eitthvert besta flug ævi minnar.

Þú studdir alltaf svo við bakið á mér og meira en góðu hófi gegnir stundum þegar þú neyddir fólk sem kom í heimsókn á Böggvisbrautina til að horfa á Emirates-diskinn til að sýna því hvað hlutirnir væru nú flottir hjá þeim.

Við ræddum mjög oft um ferilinn hjá mér og þú varst svo spenntur yfir því að ég væri að verða flugstjóri innan skamms. Það var því mjög sárt að hugsa til þess þegar þú féllst frá langt fyrir aldur fram að þú ættir ekki eftir að sjá mig klára flugstjórann því þú áttir svo gríðarlega stóran þátt í því hvað flugnámið hjá mér gekk vel.

Elsku pabbi minn, þín er sárt saknað. Það var svo gott að vera nálægt þér og svo gaman að vera í kringum þig. Þú tókst sjálfan þig aldrei of alvarlega og ég gat alltaf strítt þér við matarborðið hvað þú varst „kurteis“.

„Pabbi, maður segir viltu rétta mér smjörið.“ „Ha, já,“ sagðir þú og svo hlógum við að öllu saman. Þú ert frábær fyrirmynd fyrir mig sem faðir og minningarnar okkar saman lifa í hjarta mér. Hvíl í friði, elsku pabbi.

Hannes Ingi Guðmundsson.

Miðvikudaginn 16. desember var til moldar borinn frá Dalvíkurkirkju samstarfsmaður minn og vinur Guðmundur Ingi Jónatansson.

Leiðir okkar Guðmundar lágu fyrst saman er hann hóf störf við Grunnskóla Ólafsfjarðar fyrir nokkrum árum. Þegar síðar meir voru sameinaðar tvær kennslustofnanir, annars vegar Grunnskóli Ólafsfjarðar og síðan Grunnskóli Siglufjarðar, í eina, þ.e. Grunnskóla Fjallabyggðar, þá hafði ég starfað í allnokkur ár við skólann í Ólafsfirði en Guðmundur hafði verið skemur. Eitt af því sem gert var til að „hrista hópinn saman“ var að farin var óvissuferð fyrsta haustið sem hin nýja stofnun var við lýði. Lá hún m.a. í Skagafjörð þar sem farið var í flúðasiglingu. Vorum við fjögur saman í bát og urðum að hafa okkur öll við til að klára þetta verkefni.

Eftir á að hyggja var þetta hin besta skemmtun. Það er einkennileg tilhugsun að í dag, rúmum fimm árum síðar, erum við bara tvær eftir hérna megin úr bátnum okkar í siglingunni þarna forðum.

Guðmundur var greiðvikinn og viðræðugóður. Ósjaldan fékk ég að sitja í bílnum með honum frá Siglufirði til Ólafsfjarðar. Fyrir þær stundir sem við áttum saman og ræddum málin vil ég þakka.

Farðu í friði vinur minn.

Kristín Brynhildur

Davíðsdóttir.

Guðmundur Ingi Jónatansson, kennari og prentari á Dalvík, lést 4. desember eftir harða baráttu við illvígan sjúkdóm. Leiðir okkar lágu saman á hagyrðingamótinu í Skúlagarði 1992.

Þar var glæsilegt framhald á mótinu í Sælingsdal 1991. Starri í Garði og Björn Ingólfsson á Grenivík voru í hlutverki heiðursgests og veislustjóra, fjöldi Keldhverfinga flutti ljóð sín á palli en Sigvaldi Jónsson stóð sem styrkur klettur að baki öllum ráðagerðum. Næstu mót á Hallormsstað '93, Flúðum '94, Reykjavík '95 og Núpi '96 tóku sinn brag af þessu glæsilega norðlenska móti. Guðmundur Ingi átti eftir að taka þátt í flestum þessara móta og prentaði vísnakver frá mörgum þeirra. Hann var ekki maður sem spurði um laun að loknu dagsverki heldur hvar þörf væri á liðsinni. Hann var góður hagyrðingur auk þess að vera hagleiksmaður. Hann lagði drjúgt af mörkum í vaxandi bæjarfélagi heima á Dalvík. Guðmundur eignaðist úrvals konu úr Vatnsdal, átti sjálfur húnvetnskar rætur og kenndi við Húnavallaskóla en síðar á Dalvík, en 1985 stofnaði hann fjölritun ásamt vikublaðinu Bæjarpóstinum og hefur rekið það síðan – heitir nú Víkurprent – ásamt því að vera ritstjóri Bæjarpóstsins um árabil.

Einnig prentaði Guðmundur hvaðeina fyrir sveitunga sína, s.s. ljóðabækur og plaköt, á síðustu árum fyrir Fiskidaginn mikla, sálmaskrár fyrir útfarir og söngbækur og Stikilshefti fyrir Húnvetning búsettan suður á Selfossi sem litlu hefði komið í verk af þeim hugðarefnum sínum ef hann hefði ekki notið þessa góða vinar og kunnáttu hans.

Þeir Dalvíkingar sjá vel út á sæinn djúpa sem og yfir Eyjafjörðinn, alveg yfir á Látraströndina þaðan sem enn lýsir af ljóðum Látra-Bjargar. Um Bragaþing vestur við Húnaflóa árið 2006 orti Guðmundur Ingi á kynningarspjald:

Engan svíkur andans þing

á ýmsu ríku lumar.

Þú hittir slíkan hagyrðing

á Hólmavík í sumar.

Leiðirnar lágu saman á Bragaþingunum og þar var líka annan mann að finna og ómissandi, Jóa í Stapa, náfrænda Guðmundar, sem var upphafsmaður mótanna og sparaði aldrei tíma né fyrirhöfn við undirbúning þeirra.

Mótin lifðu í tæpan aldarfjórðung og sköpuðu stórt tengslanet um landið allt meðan þau voru í blóma.

Vin minn, sem hvarf frá svo mörgum verkefnum og ríkum draumum, vil ég kveðja með ljóði Steingerðar Guðmundsdóttur sem hún nefnir Á aðventu:

Í skammdegismyrkri

þá skuggar lengjast

er skinið frá birtunni næst

ber við himininn hæst.

Hans fótatak nálgast

þú finnur blæinn

af Frelsarans helgiró –

hann veitir þér vansælum fró.

Við dyrastaf hljóður

hann dvelur – og sjá

þá dagar í myrkum rann

hann erindi á við hvern mann.

Þinn hugur kyrrist

þitt hjarta skynjar

að hógværðin býr honum stað

þar sest hann sjálfur að.

Og jólin verða

í vitund þinni

að vermandi kærleiks yl

sem berðu bölheima til.

(SG)

Ingi Heiðmar Jónsson.