Jónína Marteinsdóttir fæddist 11. apríl 1974. Hún lést 13. nóvember 2015.

Útför Jónínu fór fram 15. desember 2015.

Elsku Nína mín. Hérna sit ég og hugsa hvað ég á að skrifa til þín, orð fá ekki lýst sorginni sem er í hjarta mínu núna. Mér finnst heimurinn hafa minnkað eftir að þú fórst.

Ég reyni að rifja upp góðu stundirnar okkar, en verð svo ofboðslega sár þegar ég hugsa að þú sért farinn frá okkur. Þú varst svo góð manneskja, og einn sá mesti töffari sem ég hef þekkt. Þú komst öllum til að hlæja og það var alltaf svo mikil gleði í kringum þig.

Ég man þegar ég hitti þig fyrst, mér fannst þú svo frábær og skemmtileg og úr varð mikil og góð vinátta í tíu ár.

Þú talaðir oft um Fagradal og það var þinn griðastaður, ég fékk þann heiður að koma þangað einu sinni til þín og það var æðislegt, það geislaði af þér innan um fjölskylduna þína og dýrin. Þú sýndir mér sveitina og sagðir mér sögur, ég gleymi aldrei þeim degi.

Og dagarnir þegar við rúntuðum um og töluðum saman um heima og geima.

Ég minnist ófárra stunda sem við áttum á spjalli, þú varst svo klár og vissir allt, ég leitaði oft ráða hjá þér, þú gafst mér svo mikið.

Elsku Nína mín, ég vildi að ég hefði getað kvatt þig, við höfðum ekki talað saman í nokkurn tíma en ég var svo viss um að eiga eftir að hitta þig aftur. Þú skilur eftir miklar og góðar minningar.

Ég hef aldrei kynnst eins góðri og fallegri stelpu og þér, svo hjartahlý og með svo stóran persónuleika.

Elsku Nína mín, núna ertu komin til englanna og þar hafa margir vinir tekið á móti þér. Og þangað til við sjáumst aftur: rokk og ról.

Elsku Daði, Gabríel og fjölskylda, megi algóður Guð styðja og styrkja ykkur í sorginni.

Í bljúgri bæn og þökk til þín,

sem þekkir mig og verkin mín.

Ég leita þín, Guð, leiddu mig

og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,

sú rétta virðist aldrei greið.

Ég geri margt, sem miður fer,

og man svo sjaldan eftir þér.

Sú ein er bæn í brjósti mér,

ég betur kunni þjóna þér,

því veit mér feta veginn þinn,

að verðir þú æ Drottinn minn.

(Pétur Þórarinsson)

Arinbjörn Árnason.