Þing Svíþjóðar hefur samþykkt umdeilt lagafrumvarp um að skoða beri vegabréf allra þeirra sem ferðast með lestum og rútum yfir Eyrarsundsbrúna frá Danmörku og einnig þeirra sem ferðast til Svíþjóðar með ferjum, meðal annars frá Þýskalandi.

Þing Svíþjóðar hefur samþykkt umdeilt lagafrumvarp um að skoða beri vegabréf allra þeirra sem ferðast með lestum og rútum yfir Eyrarsundsbrúna frá Danmörku og einnig þeirra sem ferðast til Svíþjóðar með ferjum, meðal annars frá Þýskalandi.

Alls greiddu 175 þingmenn atkvæði með frumvarpinu, 39 á móti og 117 sátu hjá. Lögin taka gildi á mánudaginn kemur en koma til framkvæmda 4. janúar.

Samkvæmt lögunum eiga fyrirtæki sem reka lestir, rútur og ferjur að annast vegabréfaeftirlitið. Fyrirtækin hafa gagnrýnt þetta og stéttarfélög eru andvíg því að félagsmönnum þeirra verði gert að sinna störfum sem þau telja að hið opinbera eigi að sjá um. Gert er ráð fyrir að fyrirkomulagið gildi í þrjú ár, að því er fram kemur á fréttavefnum Thelocal.se .

Svíþjóðardemókratar studdu stjórnina

Þingmenn Hægriflokksins (Moderatarna), Frjálslynda flokksins og Kristilegra demókrata sátu hjá eftir að breytingartillaga þeirra um að lögin giltu í sex mánuði í stað þriggja ára náði ekki fram að ganga. Miðflokkurinn og Vinstriflokkurinn greiddu atkvæði gegn lagafrumvarpinu. Það var hins vegar samþykkt með atkvæðum þingmanna stjórnarflokkanna tveggja, Jafnaðarmannaflokksins og Umhverfisflokksins Græningja, og Svíþjóðardemókrata.

„Við getum ekki staðið við alþjóðlega sáttmála um réttinn til hælis með þessu frumvarpi. Þetta er grafalvarlegt mál. Við erum að leggja til lokun landamæra innan Evrópusambandsins,“ sagði Torbjörn Björlund, þingmaður Vinstriflokksins, í ræðu sem hann flutti þegar frumvarpið var rætt á þinginu.

Nokkrir þingmenn Umhverfisflokksins Græningja gagnrýndu lagafrumvarpið fyrir atkvæðagreiðsluna en aðeins einn þeirra greiddi atkvæði gegn því og annar sat hjá. Einn þingmanna jafnaðarmanna ákvað einnig að sitja hjá.

Sænska blaðið Aftonbladet hafði eftir Morgan Johansson, ráðherra dóms- og innflytjendamála, að hann teldi ekki ástæðu til að fagna því að frumvarpið var samþykkt og hann hefði ekki samþykkt slíkt frumvarp fyrir þremur mánuðum. „Þetta er ekki eitthvað sem menn vilja gera, en þegar menn eru í ríkisstjórn þurfa þeir stundum að gera það sem þeir vilja ekki. Ástæðan er einfaldlega sú að þetta er nauðsynlegt og hinn kosturinn er verri.“ bogi@mbl.is

150.000 hælisleitendur
» Um 150.000 flóttamenn og aðrir farandmenn hafa farið til Svíþjóðar í ár til að óska eftir hæli og sænsk yfirvöld hafa átt í erfiðleikum með að útvega húsnæði fyrir fólkið. Dregið hefur úr flóttamannastraumnum á síðustu vikum.
» Hælisumsóknum hefur fjölgað mjög í landinu á síðustu árum. Ríkisstjórn mið- og hægriflokka ákvað á síðasta kjörtímabili að veita öllum hælisleitendum frá Sýrlandi dvalarleyfi í Svíþjóð.