Næstur? Diego Simeone er sterklega orðaður við starfið hjá Chelsea.
Næstur? Diego Simeone er sterklega orðaður við starfið hjá Chelsea. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Hver er það sem þorir og vill taka við af José Mourinho, og verða þar með tíundi knattspyrnustjórinn til að stýra Chelsea frá því að Roman Abramovich keypti félagið árið 2003?

Fótbolti

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Hver er það sem þorir og vill taka við af José Mourinho, og verða þar með tíundi knattspyrnustjórinn til að stýra Chelsea frá því að Roman Abramovich keypti félagið árið 2003? Starfsöryggi knattspyrnustjóra er almennt séð ekki mikið, en á fáum stöðum er það minna en á Brúnni, eða Stamford Bridge. Ekki einu sinni sigursælasti stjóri í sögu Chelsea, maðurinn sem gerði liðið að Englandsmeistara síðasta vor og hefur unnið þrjá af fimm Englandsmeistaratitlum félagsins, og sá sem þrátt fyrir allt er enn með besta sigurhlutfall í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, hafði unnið sér inn líflínu sem þoldi álagið af níu töpum í 16 fyrstu deildarleikjum tímabilsins.

Mourinho var rekinn í gær. Í yfirlýsingu Chelsea kom fram að það væri sameiginleg ákvörðun Portúgalans og enska félagsins. Tímabilið hefur verið hreinasta martröð, ef undan er skilinn árangur í Meistaradeildinni, og þetta seinna starfsskeið Mourinho hjá Chelsea entist því aðeins í 18 mánuði.

Samkvæmt enskum miðlum og veðbönkum er líklegast að Hollendingurinn Guus Hiddink taki tímabundið við Chelsea og stýri liðinu út tímabilið. Hann er án vinnu eftir að hafa verið rekinn frá hollenska landsliðinu í júní, vegna gengisins í keppni við Íslendinga og fleiri þjóðir um sæti á EM. Hiddink er öllum hnútum kunnugur á Brúnni en hann stýrði Chelsea síðustu mánuðina tímabilið 2008-2009 og gerði liðið að bikarmeistara.

Hiddink er hins vegar ekki framtíðarlausnin. Í þeim efnum þykir Diego Simeone, sem hefur gert frábæra hluti með Atlético Madrid á Spáni, talinn líklegastur. Chelsea þyrfti þá að punga út 15 milljónum punda til að losa hann undan samningi hjá Atlético næsta sumar.

Spánverjinn Pep Guardiola hefur einnig verið nefndur, en hann sagðist í vikunni ætla að tjá sig um framtíð sína á næstu dögum. Ólíklegt þykir að hann haldi áfram sem stjóri Bayern München, en hann hefur verið sterklega orðaður við Manchester City. Carlo Ancelotti, Brendan Rodgers og Juande Ramos hafa einnig verið nefndir til sögunnar, en spurningin er hvort einhverjum þeirra þyki fýsilegt að fá starf sem þeir gætu misst jafnfljótt.

Hvað nú tekur við hjá Mourinho ríkir enn meiri óvissa um. Ljóst er að hann kveður ekki Chelsea á eigin forsendum, miðað við yfirlýsingar hans í fyrra um að hann hefði elst og vildi nú starfa lengi hjá sama félaginu. Hann var í gær orðaður við félög þar sem ólga ríkir, líkt og Manchester United og Real Madrid, en það eru líklega fremur getgátur en annað.

Mourinho er fimmti knattspyrnustjórinn sem látinn er taka pokann sinn í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. Sunderland, Liverpool, Aston Villa og Swansea hafa nú þegar öll skipt um stjóra það sem af er vetri.