Gæði Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, verslunarstjóri í Herragarðinum í Kringlunni, segir herrana sækjast eftir vönduðum fatnaði og persónulegum stíl. „Í þessu er okkar áskorun fólgin, að útvega herramönnum á breiðu aldursbili sinn persónulega stíl.“
Gæði Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, verslunarstjóri í Herragarðinum í Kringlunni, segir herrana sækjast eftir vönduðum fatnaði og persónulegum stíl. „Í þessu er okkar áskorun fólgin, að útvega herramönnum á breiðu aldursbili sinn persónulega stíl.“ — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Herrarnir sækjast í auknum mæli eftir gæðum og vilja gera heildarútlitið að sínu, segir Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, verslunarstjóri í Herragarðinum í Kringlunni.

Við erum náttúrlega að þjónusta mismunandi hópa og mismunandi stíla, en allt sem heitir klassískt er í fyrirrúmi, en þó þannig að menn setji sitt mark á fötin og líti ekki út eins og næsti maður,“ segir Vilhjálmur, spurður um ríkjandi stíla og strauma. „Við höfum tekið þann pólinn í hæðina að kaupa inn margar gerðir, til dæmis af yfirhöfnum, en fá eintök af hverri gerð, frekar en að taka heilan gám af einni tiltekinni flík. Það hefur verið svolítið einsleitt „lúkk“ á landanum undanfarin ár en það er að breytast mjög upp á síðkastið. Menn vilja eitthvað sem ljær þeim svolitla sérstöðu.“

Aukin sókn í sérstöðuna

Sama er uppi á teningnum hvað jakkafötin varðar, að sögn Vilhjálms. „Það eimir ennþá eftir af sixtís-stílnum sem hefur verið allsráðandi en menn eru að færa sig í aðeins meiri mynstur og meira líf. Í því sambandi höfum við líka gert talsvert af því að sérsauma en það er þjónusta sem við bjóðum upp á í fötum frá Ralph Lauren og svo Herragarðinum/Sérsaumur sem er okkar eigin lína sem við byrjuðum með í haust. Þar eru menn að leita eftir smá sérkennum – þeir passa kannski alveg í föt af slánni en langar í eitthvað aðeins öðruvísi. Fá svona mynstur eða hinsegin fóður, til að gera fötin algerlega að sínum.“ Vilhjálmur bætir því við að þegar hann byrjaði í bransanum fyrir sautján árum hafi herrarnir hérlendis mestmegnis sótt í það sama og fyrir bragðið verið meira eða minna allir eins. Í dag er öldin önnur. „Við finnum svo leiðirnar til að þjónusta þessar óskir viðskiptavinanna.“

Vilhjálmur býst við að aðsniðnar buxur haldi velli áfram og menn hérlendis vilja almennt ekki víðar buxur. „Hins vegar vilja menn í dag, við stakan jakka, oft fá flottar flannelbuxur eða vandaðar stakar buxur, í staðinn fyrir gallabuxur eða litsterkar kakíbuxur. Rauðu buxurnar sem við seldum mjög vel af fyrir nokkrum árum eru talsvert að róast niður. Menn eru frekar að horfa í brúna og bláa tóna, einnig gráa. Klassíkt og töff, og sumir biðja meira að segja um uppábrot á buxurnar.“

Bindin eru að breikka

Eftir margra ára mjóa tísku í hálsbindum, sem vitaskuld eru bein áhrif frá Mad Men-þáttunum, eru hálsbindin heldur að breikka, að sögn Vilhjálms. „Þetta er að breytast. Við seljum mest í millibreidd af bindum í dag, á bilinu 7 til 7,5 sentimetrar á breidd. Við seldum meira af mjóum bindum fyrir um tveimur árum, en millibreiddin er vinsælust í dag.“

Af öðrum vinsælum „aukahlutum“ hefur orðið alger sprenging í vönduðum skóm, að sögn Vilhjálms.

„Skór eru gríðarlega mikilvægur hluti heildarútlits og í dag vilja menn vera í klassískum, flottum skóm. Við erum að selja miklu minna af þessum sportlegu hversdagsskóm því sígilda útlitið er allsráðandi. Þar sem annars staðar eru enn að sækjast í gæði og persónulegan stíl. Í þessu er okkar áskorun fólgin, að útvega herramönnum á breiðu aldursbili sinn persónulega stíl.“

jonagnar@mbl.is