Leifsstöð Vegabréfaskoðun.
Leifsstöð Vegabréfaskoðun.
Hæstiréttur dæmdi í gær að Sýrlendingur, sem framvísaði fölsuðu vegabréfi við komu til Íslands, skuli ekki sæta refsingu. Héraðsdómur Reykjaness hafði áður dæmt manninn í 30 daga fangelsi í samræmi við dóma, sem áður hafa fallið í svipuðum málum.

Hæstiréttur dæmdi í gær að Sýrlendingur, sem framvísaði fölsuðu vegabréfi við komu til Íslands, skuli ekki sæta refsingu.

Héraðsdómur Reykjaness hafði áður dæmt manninn í 30 daga fangelsi í samræmi við dóma, sem áður hafa fallið í svipuðum málum.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar að maðurinn, sem er 43 ára gamall sýrlenskur ríkisborgari, framvísaði albönsku vegabréfi með nafni annars manns þegar hann kom hingað til lands í apríl frá París.

Í framhaldi af því var gerð leit í farangri hans og fundust ýmis gögn á arabísku með öðru nafni. Þegar gengið var á manninn tók hann upp úr jakkavasa sýrlenskt vegabréf á sínu nafni. Sagðist hann eiga systur á Íslandi og hefði ætlað að koma inn í landið, hitta systur sína og gefa sig svo fram og sækja um hæli sem flóttamaður.

Maðurinn afplánaði fangelsisrefsinguna sem héraðsdómur dæmdi hann í en áfrýjaði samt dómnum. Hann hefur síðan fengið hæli hér á landi og dvalarleyfi til fjögurra ára.

Hæstiréttur vísar til þess að samkvæmt ákvæði alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, sem íslenska ríkið gerðist aðili að 30. nóvember 1955, skuli aðildarríkin ekki beita refsingu gagnvart flóttamönnum vegna ólöglegrar komu þeirra til landsins ef þeir koma beint frá landi, þar sem lífi þeirra eða frelsi hafi verið ógnað, enda gefi þeir sig tafarlaust fram við stjórnvöld og beri fram gildar ástæður fyrir ólöglegri komu sinni. Samningurinn hafi hins vegar ekki lagagildi hér á landi og í ljósi þess að maðurinn játaði að hafa framvísað fölsuðu vegabréfi er sakfelling hans staðfest.

Við ákvörðun refsingar mannsins sé hins vegar unnt að taka tillit til samningsins í ljósi þeirrar meginreglu íslensks réttar að leitast skuli við að skýra lög til samræmis við þjóðréttarskuldbindingar ríkisins. Í því sambandi verði að gæta að því að samkvæmt málflutningi af hálfu ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti sé ekki dregið í efa að telja megi manninn til flóttamanna og að lífi hans eða frelsi hafi verið ógnað. Því sé ekki rétt að gera honum refsingu.