Hann horfði á mig eins og ég væri komin á einhvern undarlegan stað í lífinu. Fannst þetta eiginlega bara fáránlegt og ósnyrtilegt, enda erum við að tala hérna um notaða strigaskó, komna út í stofuglugga.

Þessi jól eru fyrstu jólin sem sonur minn fær í skóinn. Við hátíðlega athöfn setti ég skóinn út í glugga og sagði drengnum að ef hann yrði góður myndi jólasveinninn kannski setja eitthvað gott í skóinn hans. Ég hef beðið spennt eftir þessu augnabliki enda eru þetta mikilvæg tímamót í lífi hvers barns, þegar jólasveinninn fer að skipta máli.

Viðbrögð sonarins við þessari hugmynd, að setja skóinn út í glugga voru ekki alveg eins og ég hafði ímyndað mér þau. Hann horfði á mig eins og ég væri komin á einhvern undarlegan stað í lífinu. Fannst þetta eiginlega bara fáránlegt og ósnyrtilegt, enda erum við að tala hérna um notaða strigaskó, komna út í stofuglugga.

En ég lét þetta viðhorf ekki á mig fá og spratt upp morguninn eftir, og dró barnið á eftir mér. Nú yrði það sko hissa. Í skónum var gullfallegt, eldrautt epli. Ég hoppaði hæð mína af gleði á meðan sonurinn nældi sér í eplið, tók stóran bita og sagði: „Mamma setti epli í skóinn,“ eins og það væri daglegur viðburður.

Núna eru liðnir nokkrir dagar og sama hvað jólasveinninn setur í skóinn eru alltaf sömu viðbrögðin. Jújú, honum finnst þetta fínt en er alveg fastur á því að það var ekki neinn aldraður maður í ullarfötum sem smellti gjöfunum í skóinn, heldur var það bara mamma gamla.

En það má ekki gleyma því að barnið hefur átt í einum samskiptum við jólasveininn þessa aðventuna, á jólaballi vinnustaðarins. Það endaði ekki betur en svo að það þurfti að fara með hann á aðra hæð hússins á meðan þessir rauðklæddu, skeggjuðu villimenn luku sér af. Hræðslan var það mikil. Það er oft sagt að fyrstu kynni skipti höfuðmáli. Fyrstu kynni sonarins og jólasveina voru þau að þeir börðu á rúðu þar sem drengurinn sat og það fylgdu þvílík öskur að Tarsan sjálfur hefði verið stoltur. Þegar ég spurði hann síðar sama dag hvernig honum hefði litist á jólasveininn svaraði hann einfaldlega: „Ég kann ekki jólasveininn.“

Eftir þessa upplifun er það kannski ekkert skrýtið að barnið vilji ekki kannast við það að jólasveinninn sé að sniglast í kringum svalirnar á heimilinu á næturnar. Finnst þetta gróf árás á einkalífið. Eða kannski er hann að þykjast ekki fatta jólasveininn og bíður hefnda. Muldrar: „Þetta er geymt en ekki gleymt, sveinki“ og kjamsar á eplinu.

Auður Albertsdóttir audura@mbl.is

Höf.: Auður Albertsdóttir audura@mbl.is