Skákdómarinn Omar Salama.
Skákdómarinn Omar Salama.
Omar Salama, skákdómari og skákkennari við Hjallastefnuna, er 35 ára í dag. Hann er sá eini á Norðurlöndunum sem er með réttindi til að halda námskeið fyrir skákdómara á vegum Alþjóðaskáksambandsins, FIDE. Hann var 1.

Omar Salama, skákdómari og skákkennari við Hjallastefnuna, er 35 ára í dag. Hann er sá eini á Norðurlöndunum sem er með réttindi til að halda námskeið fyrir skákdómara á vegum Alþjóðaskáksambandsins, FIDE. Hann var 1. dómari á Ólympíuskákmótinu í Istanbúl í Tyrklandi 2012 og var fyrsti íslenski skákdómarinn á ólympíumóti. Hann dæmdi einnig á ólympíumótinu í Tromsö í Noregi 2014 og var yfirdómari á Evrópumóti landsliða sem haldið var í Laugardalshöll fyrir skemmstu. Hann situr í stjórn Skáksambands Íslands, stjórn Taflfélag Reykjavíkur og er í stjórn hjálparsamtakanna Sól í Tógó. Hann er líka formaður dómaranefndar Skáksambandsins og situr í dómaranefnd FIDE. Hann er með alþjóðleg skákmótshaldara- og skákþjálfararéttindi.

Omar hefur unnið fyrir Hjallastefnuna síðan 2009 og hafði áður kennt skák í Namibíu á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. „Í ár vann vinnustaðurinn minn, Laufásborg, hvatningarverðlaun frá Reykjavíkurborg fyrir skákkennslu í leikskólanum.“

Omar fæddist í hafnarborginni Alexandríu í Egyptalandi. „Faðir minn var stærðfræðikennari í 45 ár og móðir mín var einnig kennari. Svo á ég eldri bróður sem er verkfræðingur. Ég fluttist til Íslands árið 2006.“ Synir Omars, Adam 8 ára og Jósef 4 ára, eru báðir efnilegir skákmenn. Adam er Íslandsmeistari í skák 8 ára og yngri, en í ár var í fyrsta sinn keppt í þeim flokki, og Jósef vann sinn aldursflokk, fimm ára og yngri, á jólamóti Víkingaklúbbsins í sínu fyrsta móti sem haldið var fyrir rúmri viku.

Omar er í fríi í Kaíró þessa stundina en fer síðan til Doha, höfuðborgar Katar, að dæma á Qatar masters open, sem er sterkasta opna mótið í skáksögunni. Það var í fyrsta sinn haldið í fyrra, en mótið verður enn sterkara í ár og mun sjálfur heimsmeistarinn, Magnus Carlsen, keppa á mótinu ásamt köppum eins og Vladimir Kramnik.

„Í dag ætlar pabbi að halda stóra afmælisveislu fyrir mig og á morgun fer ég til Doha. Í byrjun janúar verð ég svo með dómaranámskeið fyrir sænska skáksambandið.“