Lárus Jónsson fæddist 17. nóvember 1933. Hann lést 29. nóvember 2015.

Útför Lárusar fór fram 11. desember 2015.

Ég var svo lánsamur að kynnast Lárusi Jónssyni fyrir u.þ.b. 25 árum. Ég var þá skipaður í stjórn LÍN um leið og hann. Lánasjóður íslenskra námsmanna var þá nánast gjaldþrota eftir ráðsmennsku vinstrimanna um nokkurt árabil. Þá, eins og jafnan, lét vinstrimönnum vel að eyða annarra fé og skuldadagar eru þeim mörgum framandi hugtak. Að sjálfsögðu var Lárus skipaður formaður sjóðsins. Á fyrsta starfsári nýrrar stjórnar tókst að skera útgjöld ríkisins til sjóðsins niður um 40% og viðhalda getu sjóðsins til námsaðstoðar á sama tíma. Leiðarljós Lárusar var sanngirni og réttlæti ásamt eðlilegum kröfum um námsárangur.

Af fáum hef ég lært meira um árangur í samstarfi en Lárusi heitnum. Hann ritaði allar fundargerðir sjálfur, bæði sem formaður sjóðsins og síðar sem framkvæmdastjóri. Það voru auðvitað klókindi, í besta skilningi þess orðs. Aldrei beitti hann neinn ofríki og aldrei lét hann það í ljós með neinu offorsi ef honum mislíkaði eitthvað. Alltaf var honum mikið í mun að ná samstöðu innan stjórnar sjóðsins ef þess var nokkur kostur og yfirleitt tókst það. Öðrum stjórnarmönnum leyfði hann að njóta sín og tók öllum góðum tillögum vel og reyndi ekki að eigna sér annarra verk, heldur hvatti hann aðra áfram.

Utan funda þegar saman var komið til skemmtunar var gaman að vera með Lárusi. Hann var sögumaður góður. Þegar hann sat fyrst á þingi fengu þingmenn af landsbyggðinni greitt til að fara heim til sín einu sinni í mánuði að hitta konu og börn. Þegar matráðskonan spurði þetta sagði hún við Lárus: „Og finnst þinginu það nóg?“

Mér fannst Lárus sameina margt af því besta í fari stjórnmálamanna. Hann var öfgalaus í skoðunum og lét skynsemina ráða afstöðu sinni umfram allt. Um útgjaldatillögur án innistæðu sagði hann jafnan að ríkissjóður væri ekki ótæmandi auðlind. Það kunna að virðast einföld sannindi, en fréttamennirnir, margir hverjir, sýna og sanna að þau sannindi eru ekki öllum kunn. Lárus var mannasættir. Mættu fleiri slíkir sitja á Alþingi en nú er. Alþingi nyti þá þeirrar virðingar sem vert væri.

Einar S. Hálfdánarson.