Bjarni Guðjónsson fæddist 17. ágúst 1927. Hann lést 29. nóvember 2015.

Útför Bjarna fór fram 16. desember 2015.

Stoppi hver klukka! Klippið símavír!

Þá er ég sit í sætri hafgolunni við öldurót Bengalflóa og læt hugann reika til nýlátins föður míns kallast fram glaðlegar myndir af uppvaxtarárum mínum er renna saman við aðra fjarlæga sjávarsýn, Ægisíðuna. Þar við Skerjafjörðinn blasir við fagurlega búið heimili og sú virðingarfulla og kærleiksríka tilvera er faðir minn Bjarni og móðir mín Diljá skópu okkur systkinunum, dóttur minni, ætt og vinum.

Kann ég foreldrunum þakkir fyrir ljúfar bernskuminningar og frjáls uppvaxtarár. Var oft glatt á hjalla og spennandi, einkum á hátíðastundum, er stórfjölskyldan frá Hafnarfirði og suður með sjó sameinaðist okkur.

Örlátur andi gestrisni sveif um húsakynnin og fordómalaust umburðarlyndið aflaði hjónunum samheldnu aðdáenda. Gaman var að sjá Stórval sjálfan stinga inn kolli á góðri stund og stórskrýtin vinamergð mín, tíðum framandi listaspírur frá fjarlægum ströndum, raskaði sálarlífi þeirra lítt. Allir voru jafnir og jafn velkomnir.

Faðir minn, fæddur í fátækt á Bjarnastöðum, hvar beljurnar baula, bar brátt til manns, menntaði sig af festu og varð fagmaður fram í fingurgóma. Fátítt var hversu ungur hann varð vel sigldur sem gutti á strandferðaskipinu Esju. Ók fínn um sveitir með vindinn í rauðkrulluðum makkanum á eigin drossíu. Svellkaldur töffari sem sór þess eið að kvænast móður minni þá er hann leit hana augum fyrst yfir dansgólfið í Breiðfirðingabúð. Ósk hans um vilyrði hennar varð hans gæfuspor. Þau gengu að eiga hvort annað; hún sautján kasólétt, hann nítján. Kostulegt.

Pabbi var góður félagi, ávallt til staðar með allt á hreinu; ósérhlífinn, hjálpsamur og einstaklega greiðvikinn. Satt að segja minn albezti trúnaðarvinur og höfðum við yndi af samveru og dægurhjali.

Sóttum tíðum friðsælt morgunsund í Vesturbæjarlaug og er á daginn dró, blóði drifinn kvikmyndahasar í Háskólabíó.

Gaman var að heyra ævintýrasögur hans af stríðsárunum, bísunum á Grímsstaðaholtinu, Kjarval á Holtinu, heimsreisunni viðburðaríku eða þá er hann brá sér glettilega af bæ í leit að frekari næturgamni til Karíbahafsins, kærri móður minni til ólundar og armæðu.

Þrátt fyrir farsælan ferill, veraldarsigrum og vegtyllum vel skreyttum, var framreiðslumaðurinn knái hógvær einfari og bóndi innst í eðli sínu er undi sér bezt í náttúrunni með skóflu eða haka í hönd og húfu á höfði.

Ræktaði jarðarber, fuglavinur mesti, kvikur á fæti og nánast hamslaus jarðýta til verka í frítíma sínum. Þúsundþjalasmiður í ljónsmerki með stáltaugar. Til marks um elju hans og skapfestu reisti hann risið á æskuheimilinu og sumarhús með eigin hendi hvar fjölskyldan og vinir áttu friðarskjól og ómældar unaðsstundir.

Eðlislæg umhyggja, æðruleysi og rólynd nánd aflaði pabba virðingar margra vildarvina jafnt í starfi og leik. Hann var góð mannvera. Þögull og þrautseigur öðlingur. Við Gígja munum ávallt minnast hans af þakklæti, kærleika og stolti og þökkum jafnframt starfsfólki Landspítalans, hans kæru Maríu og öðrum traustum og glaðlyndum vinum hlýju og umhyggju í hans garð.

Guðjón Bjarnason.