Fyrsta hækkun stýrivaxta í Bandaríkjunum í tæpan áratug

Bandaríski seðlabankinn ákvað á miðvikudag að hækka stýrivexti um helming. Það kann að hljóma djarflega að tvöfalda vexti, en þá verður að hafa í huga að þeir hafa verið í námunda við núllið, á milli 0 til 0,25%, en verða nú 0,25 til 0,5%.

Þessi ákvörðun þykir söguleg vegna þess hvað lengi vextirnir hafa verið við núllið. Bandaríski seðlabankinn hækkaði síðast vexti 2006 og höfðu verið 0 til 0,25% í sjö ár upp á dag þegar hækkunin var tilkynnt. Ákvörðunin kom þó ekki á óvart og þykir bera því vitni að bandarískt efnahagslíf sé komið til nokkurrar heilsu eftir að kreppuna 2008.

Ekki er hækkunin þó óumdeild. Ákvörðunin var einróma og er hefð fyrir því í bankanum. Í aðdraganda hennar höfðu þó þrír úr bankastjórninni lýst yfir efasemdum um að bandarískur efnahagur væri undir hækkun búinn.

Demókratar hafa einnig haldið því fram að bankinn sé of bráður og muni ákvörðun hans draga úr fjölgun starfa og hækkun launa. Ekki er málið síst viðkvæmt vegna þess að innan árs verður gengið til kosninga og vilja demókratar að efnahagslífið eflist sem mest til að auka líkur á því að íbúinn í Hvíta húsinu verði áfram úr þeirra röðum.

Á hinn bóginn eykur það hættuna á bólumyndun ef ódýrt er að taka lán. Það hafa margir nýtt sér undanfarið. Fjárfestar í Bandaríkjunum hafa hlaðið upp skuldum af krafti til að kaupa hlutabréf og reyndar hafa menn tekið ódýra dollara að láni um allan heim frekar en að fá lán í eigin gjaldmiðli.

Búast má við því að haldið verði áfram að hækka stýrivexti smám saman í Bandaríkjunum.

Það er hins vegar ólíklegt að það sama verði uppi á teningnum í Evrópu. Stýrivextir seðlabanka Evrópu eru nú 0,05% og verða því vart lægri.

Lækkunin í Bandaríkjunum gæti haft verðbólguáhrif annars staðar í heiminum. Gengi dollarans er víst til að hækka. Það myndi leiða til þess að verð á olíu hækkaði annars staðar. Sömuleiðis gætu vörur frá Bandaríkjunum hækkað, en seðlabankinn vill ekki að hækkunin verði til þess að draga úr útflutningi. Hún gæti líka latt erlenda ferðamenn því dýrara yrði fyrir þá að ferðast til Bandaríkjanna. Hærri vextir lokka hins vegar fjárfesta til Bandaríkjanna.

Ákvörðunin um þessa örlitlu hækkun á stýrivöxtum getur því haft áhrif um allan heim. Bandarískur efnahagur lítur þokkalega út, þótt batinn sé ekki án veikleika, en staðan annars staðar í heiminum er mun viðkvæmari. Undanfarnir áratugir hafa sýnt tilhneigingu til voldugra sveiflna í viðkvæmu efnahagskerfi heimsins, sem er orðið svo samtengt að minnstu gárur á einum stað geta valdið flóðöldu á öðrum.