Flakkið „Það skemmtilegasta við ferðalögin er bara giggin sjálf, í rauninni. Hjá mér er bara metnaður fyrir því að gera eins vel og hægt er hverju sinni. Allur dagurinn stefnir að þessu og það er ekkert skemmtilegra en gott gigg. Það er miklu skemmtilegri partur af ferðalögunum heldur en að sjá heiminn, finnst mér, því maður sér heiminn hvort sem er ekkert svo mikið.“
Flakkið „Það skemmtilegasta við ferðalögin er bara giggin sjálf, í rauninni. Hjá mér er bara metnaður fyrir því að gera eins vel og hægt er hverju sinni. Allur dagurinn stefnir að þessu og það er ekkert skemmtilegra en gott gigg. Það er miklu skemmtilegri partur af ferðalögunum heldur en að sjá heiminn, finnst mér, því maður sér heiminn hvort sem er ekkert svo mikið.“ — Morgunblaðið/Eggert
Ólafur Arnalds með okkar vinsælustu tónlistarmönnum og nýtur virðingar sem tónskáld víða um heim. Hann hefur síðasta árið verið á tónleikaflakki heimshorna á milli en er kominn heim til að slaka á um jólin og safna kröftum fyrir næstu sólóplötu.

Ólafur Arnalds með okkar vinsælustu tónlistarmönnum og nýtur virðingar sem tónskáld víða um heim. Hann hefur síðasta árið verið á tónleikaflakki heimshorna á milli en er kominn heim til að slaka á um jólin og safna kröftum fyrir næstu sólóplötu. Blaðamaður tyllti sér á kaffihúsi með Ólafi og spjallaði um lífið, músíkina, kampavín og náttfatatísku.

Það má segja að ég sé búinn að vera á ferðalagi með Kiasmos [rafdúettinn sem Ólafur skipar ásamt Janusi Rasmussen] síðan í apríl og ég hef í raun ekkert verið heima síðan í júlí,“ segir Ólafur þegar hann er inntur eftir ferðalögum sem hafa verið á honum undanfarna mánuði, en Ólafur hefur alla sína tíð verið ódrepandi við tónleikahald til að fylgja plötum sínum eftir. Ekki hefur heldur veitt af því hin nýklassíska tónlist hans nýtur gríðarlegra vinsælda um víða veröld og Ólfur eftirsóttur til tónleikahalds. Meðal áfangastaða á þessu ári voru ýmis lönd í Asíu, Ástralía, Evrópa vítt og breitt, einnig Suður-Ameríka og allt norður eftir til Bandaríkjanna svo eitthvað sé nefnt. En hvernig er það – er þetta nokkurt líf?

Ólafur kímir og sýpur á vatnsglasi.

Lífið á ferðinni um heiminn

Flestum þykir gaman að heimsækja framandi slóðir þó að mikil ferðalög geti orðið lýjandi til lengdar. Allt hefur þó sína kosti eins og Ólafur bendir á.

„Það skemmtilegasta við ferðalögin er bara giggin sjálf, í rauninni. Hjá mér er bara metnaður fyrir því að gera eins vel og hægt er hverju sinni. Allur dagurinn stefnir að þessu og það er ekkert skemmtilegra en gott gigg. Það er miklu skemmtilegri partur af ferðalögunum heldur en að sjá heiminn, finnst mér, því maður sér heiminn hvort sem er ekkert svo mikið. Maður stoppar oft bara í einn dag á hverjum stað og þá verður ferðalagahlutinn af þessu ekkert það heillandi.“

Ólafur bendir á að þar sem hann telur ekki eftir sér að ferðast til fjarlægra landa til tónleikahalds séu tíu tíma flugferðir ekki óalgengur hluti af rútínu hans dags daglega. Hvað verður þá um hefðbundin „gauraáhugamál“ á borð við tískufatakaup, líkamsrækt, viskí...

Það lifnar heldur en ekki yfir Ólafi.

Viskí, sund og jóga

„Ég er mikill viskíáhugamaður og er meira að segja með viskí á rider-listanum mínum. Þar næ ég að fóðra þá þörf,“ segir Ólafur og brosir við. „Skilyrðið er að það verði að vera single malt, skoskt eða japanskt.“ Skipuleggjendur tónleikanna velja svo sortina og baksviðs bíður Ólafs og félaga nánast alltaf eitthvað nýtt sem hann hefur ekkert bragðað áður. „Svo grípum við flöskuna með í rútuna eftir tónleikana því við klárum hana hvergi nærri og í rútunni myndast því jafnt og þétt myndarlegur viskíbar. Í lok túrsins fær svo bílstjórinn myndarlega gjöf – fimmtán viskíflöskur, gerðu svo vel!“

Hvað tískubúðirnar varðar er Ólafur duglegur að koma við þegar hann er á ferðinni í Japan og Kóreu. Þar eru búðir sem bjóða upp á stíl sem hann kann að meta. „Þar finn ég föt í þessum náttfatastíl sem ég fíla,“ segir Ólafur í gamansömum tón og bendir blaðamanni á buxurnar sem hann er í. „Ef ég á frídag í Japan, og kannski sérstaklega í Kóreu, þá kíki ég í búðir og versla smá. En ég er ekkert að detta í H&M í London,“ bætir hann við. „Það er ekki alveg ég. Mér finnst meira gaman að komast í föt sem eru jafnvel ekki til í Evrópu.“

Hvað ræktina áhrærir hristir Ólafur höfuðið. „Ræktin er rútínuhlutur og það sem maður missir algerlega tökin á þegar maður ferðast svona mikið er rútínan. Ég reyni alveg, en það er bara ekki hægt. En ef hótelið er með sundlaug fer ég alltaf í sund og syndi svolítið. Svo reyni ég að stunda jóga uppi á hótelherbergi en hef aðeins dottið út úr því upp á síðkastið. En ef ég á lausan tíma þá reyni ég bara að gera ekkert. Þá er það bara room service og bók.“

Ritlist Haruki Murakami

Blaðamaður grípur bóklesturinn á lofti og innir Ólaf eftir því hvort hann hafi lesið eitthvað áhugavert nýlega.

„Ég er að lesa Murakami í augnablikinu, Kafka on the Shore . Mér finnst hún mjög góð en er ekki búinn með hana. Hún er svolítið erfið þegar maður er þreyttur,“ segir Ólafur og hlær. „Ég þarf kannski að endurhugsa það eitthvað aðeins, og horfa bara á How I Met Your Mother í staðinn,“ segir hann. Við erum sammála um að Haruki Murakami sé í senn gefandi og krefjandi höfundur. Ólafur er líka ánægður með bókina þó að honum sækist lesturinn seint.

„Djöfull er hún flott. Gott í henni plottið. Hún er alveg geðveik. Ég er um það bil hálfnaður, ég skil ekkert hvað er í gangi en ég get ekki hætt að lesa,“ segir hann. Ég bendi honum á að lesa við tækifæri The Wind-Up Bird Chronicle eftir sama höfund, einhvern tímann er um hægist, hvenær sem það nú verður, og Ólafur kinkar kolli íbygginn.

„Það eru svona bækur sem mér finnast vera hrein ritlist. Þetta er ekki alltaf endilega einhver saga, bara orð sem saman eru eitthvað fallegt.“ Murakami lýsti því einhvern tímann sem svo að þegar hann settist niður til að skrifa hefði hann ekki hugmynd um það í hvaða átt sagan færi þegar fram yndi. Skyldi Ólafur semja músík með saman hætti, af fingrum fram?

„Það er í raun svipað, og satt að segja eðlilegra í tónlist þar sem lög eru ekki beint línulegar einingar. Það er ákveðinn strúktur sem vitnar í sjálfan sig en hugmynd sem ég fæ getur endað í miðju lags eða hvar sem er á meðan bók þarf að fylgja fastari framvindu.“

Aðspurður hvort hann semji út frá litlum flugum sem hann fái í kollinn eða setjist við píanóið og gutli þangað til eitthvað fæðist segir hann síðarnefnda kostinn algengari.

„Hitt kemur alveg fyrir en það er samt hættulegt því hugurinn blekkir og það sem þú heldur að sé orginal af því þér var að detta það í hug er ekki endilega orginal. Þú manst bara ekki eftir því hvaðan það kemur. Svo ég vinn ekki mikið með það.

Sólóstöff í sjónmáli

Undanfarnar vikur og mánuði hafa Kiasmos verið á þéttu tónleikaferðalagi en Ólafur segir að tónskáldið og tónlistarmaðurinn Ólafur Arnalds fái sinn tíma eftir áramótin og þá fari hann að leggja drög að næstu sólóplötu. Sú vinna hefst snemma árs 2016 og ári síðar er svo von á plötunni. „Þegar platan kemur út þarf ég svo að taka til við að túra í heilt ár og ég er ekki alveg tilbúinn í það strax. Ég verð að leyfa mér pásu svo mig langi að fara í tónleikaferðalag. Færi ég strax á næsta ári af stað þætti mér það bara puð, hugsa ég. Mig vantar að keyra upp smá hungur í það fyrst. Maður verður alltaf að hafa hungrið til.“

Í millitíðinni er Ólafur með það verkefni að semja tónlistina við 3. seríu af sakamálaþáttunum Broadchurch, en eins og lesendum er eflaust í fersku minni hlaut Ólafur BAFTA-verðlaunin fyrir tónlist sína í fyrstu seríunni. Maður eigi einhamur, hann Ólafur.

Er kannski endurkoma harðkjarnasveitarinnar Fighting Shit á teikniborðinu? Ólafur lék þar á trommur – enn einn hatturinn sem hann á til.

„Við höfum rætt það og langar svolítið til að láta verða af því. Taka kannski eins og eitt gott Eistnaflug. Það væri ógeðslega gaman.“

Á minn sann, það væri nú eitthvað, hugsa ég með mér.

„Ekkert sem ég geri er endastöð, um leið og ég sný ekki baki við neinu.“

jonagnar@mbl.is