Hálka Þegar sandi hafði dreift á veginn óku skólabílarnir af stað.
Hálka Þegar sandi hafði dreift á veginn óku skólabílarnir af stað. — Morgunblaðið/Jim Smart
Andri Steinn Hilmarsson ash@mbl.is Röskun varð á skólahaldi Flóaskóla á Suðurlandi í gær vegna mikillar hálku á vegum. Sjö skólabílar sem aka 93 nemendum 1.-10. bekkjar til og frá skólanum hættu akstri tímabundið vegna flughálku á Villingaholtsvegi.

Andri Steinn Hilmarsson

ash@mbl.is

Röskun varð á skólahaldi Flóaskóla á Suðurlandi í gær vegna mikillar hálku á vegum. Sjö skólabílar sem aka 93 nemendum 1.-10. bekkjar til og frá skólanum hættu akstri tímabundið vegna flughálku á Villingaholtsvegi.

Anna Gréta Ólafsdóttir, skólastjóri Flóaskóla, segir í samtali við Morgunblaðið að búið hafi verið að biðja Vegagerðina um að sandbera og salta Villingaholtsveg, sem liggur um sveitina þar sem skólinn er til húsa. Vegagerðin hafði ekki orðið við beiðninni um hádegisbil í gær, þegar ákveðið var að stöðva tímabundið allan skólaakstur þar til Villingaholtið yrði sandborið.

Þegar Morgunblaðið ræddi við Önnu seinni partinn í gær sagði hún að Vegagerðin hefði dreift sandi á veginn um klukkan 14 í gær, og var röskun skólahaldsins því í um það bil klukkustund.

„Við höfum þurft að fella niður skólahald einu sinni það sem af er vetri,“ segir Anna, en það var daginn eftir fárviðrið sem geisaði í síðustu viku. Hún segir að bílarnir hafi allir komist á leiðarenda eftir að vegurinn hafði verið saltaður „enda fórum við ekki af stað fyrr en búið var að dreifa sandi “.