Reykjavík séð frá Höfðatorgi Launakostnaður sveitarfélaganna er á uppleið í kjölfar kjarasamninga. Endurskoðun á starfsmati á þátt í að launin hækka.
Reykjavík séð frá Höfðatorgi Launakostnaður sveitarfélaganna er á uppleið í kjölfar kjarasamninga. Endurskoðun á starfsmati á þátt í að launin hækka. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Launakostnaður sveitarfélaganna mun aukast um rúman 21 milljarð á árunum 2015 og 2016. Hækkanirnar koma í kjölfar kjarasamninga. Um leið aukast lífeyrisskuldbindingar.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Launakostnaður sveitarfélaganna mun aukast um rúman 21 milljarð á árunum 2015 og 2016. Hækkanirnar koma í kjölfar kjarasamninga. Um leið aukast lífeyrisskuldbindingar.

Þetta kemur fram í samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga sem gerð var að beiðni Morgunblaðsins. Spurt var um áætlaða þróun launakostnaðar og skatttekna.

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir ýmsar breytur hafa verið teknar með í reikninginn.

„Við höfum áætlað niðurstöður rekstrarreikninga A-hluta sveitarsjóða fyrir árið 2015 á grundvelli þeirra upplýsinga sem stærstu sveitarfélögin nota við gerð fjárhagsáætlana fyrir árið 2016. Allar fjárhæðir vegna ársins 2014 liggja fyrir samkvæmt ársreikningum. Einnig höfum við lagt mat á líklegan launakostnað A-hluta sveitarsjóða á næsta ári, auk líklegra skatttekna.“

Fer í 128,9 milljarða króna

„Á grundvelli þessa er gert ráð fyrir að launakostnaðar milli áranna 2014 og 2015 hækki um 8,8% eða úr 118,5 milljörðum króna í 128,9 milljarða króna, án áhrifa af breytingum lífeyrisskuldbindinga. Hækkunin nemur því 10,4 milljörðum króna milli ára. Á sama tímabili er gert ráð fyrir að skatttekjur sveitarfélaga, án framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, hækki úr 167,9 milljörðum króna í 179,3 milljarða, eða um 11,4 milljarða sem samsvarar 6,8% hækkun.“

Karl segir mjög erfitt að áætla hversu mikið lífeyrisskuldbindingar munu aukast. Hann víkur svo að áætlaðri þróun árin 2015 og 2016.

„Áætlað er að launakostnaður sveitarfélaga milli áranna 2015 og 2016 hækki um 8,2% eða úr 128,9 milljörðum í 139,6 milljarða.

Hækkar um 9,2%

Hækkunin nemur því 10,7 milljörðum milli ára. Á sama tímabili er gert ráð fyrir að skatttekjur sveitarfélaga, án framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, hækki um 9,2% eða úr 179,1 milljarði í 195,6 milljarða. Hækkunin nemur 16,5 milljörðum.

Á þessu tveggja ára tímabili hækkar því launakostnaður samtals um 21,1 milljarð króna, en skatttekjurnar um 27,9 milljarða, samkvæmt mati okkar,“ segir Karl.

Sveiflast milli ára

Spurður hvort launakostnaður sveitarfélaganna hafi áður verið hlutfallslega jafn mikill segir Karl erfitt að meta það. Sá kostnaður sveiflist milli ára. Hann rifjar upp að með yfirfærslu málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga árið 2011 hafi starfsmönnum sveitarfélaga fjölgað. Sveitarfélög sinni fyrst og fremst þjónustu sem sé mannaflsverk. Loks bendir hann á að hækkun lægstu launa hafi hlutfallslega mikil áhrif á rekstur sveitarfélaga.

Endurmatið kostar sitt

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að þótt stöðugildum kunni að hafa fjölgað hjá sveitarfélögunum á árunum 2015 til 2016 séu áhrifin af því lítil miðað við áhrifin af kjarasamningum frá og með 2014. Þeir vegi mun þyngra í þróun launakostnaðar. Karl segir endurskoðun í ár á starfsmati félagsmanna hjá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, BSRB, og Alþýðusambands Íslands, ASÍ, sem starfa hjá sveitarfélögunum, eiga þátt í að launakostnaðurinn hækkar.

Launamyndunarkerfið hjá þessum félögum byggist á starfsmati þar sem störfin eru metin til stiga. Stigin séu tengd við launatöflu og því geti fleiri stig í kjölfar endurmats leitt til hærri launa. Þá segir Karl kjarasamninga við grunnskólakennara einnig hafa leitt til hækkana á launakostnaði sveitarfélaganna.

Var hæst í Reykjavík
» Álagt útsvar árið 2015 vegna launa 2014 var hæst í Reykjavík, eða samtals 60.686.240.282 krónur.
» Það var næst hæst í Kópavogi, eða 16.688.063.918 kr.
» Hafnarfjörður var í þriðja sæti, þar var útvarið 13.288.310.502 krónur og í fjórða sæti var Akureyri með 8.464.304.744 krónur.