London. AFP. | Síðustu djúpu kolanámunni í Bretlandi verður lokað í dag og þar með lýkur námugreftri sem var eitt sinn álitinn mikilvægasta atvinnugrein landsins.

London. AFP. | Síðustu djúpu kolanámunni í Bretlandi verður lokað í dag og þar með lýkur námugreftri sem var eitt sinn álitinn mikilvægasta atvinnugrein landsins.

„Bestu námumenn Bretlands vinna í Kellingley,“ stendur á skilti fyrir utan síðustu kolanámuna í norðausturhluta Englands. „Ég er miður mín, eins og allir aðrir hérna,“ sagði Tony Carter, einn af 450 námumönnum sem hafa starfað í námunni og missa atvinnuna þegar henni verður lokað í dag. „Þetta markar endalok sögulegs tímabils. Síðasta djúpa náman á Englandi heyrir nú sögunni til. Landið okkar var byggt á kolum – iðnbyltingunni.“

Í grennd við Kellingley-kolanámuna eru þrjú orkuver sem eru knúin með kolum, m.a. Drax-orkuverið sem framleiðir um 7-8% af allri raforku sem notuð er í Bretlandi. Drax hyggst nú nota kol sem eru flutt inn frá löndum á borð við Kólumbíu og Rússland sem selja eldsneytið á lægra verði.

Með 1,2 milljónir starfsmanna

Breska stjórnin stefnir að því að loka kolaknúnu orkuverunum, sem menga mest, ekki síðar en árið 2025 til að draga úr losun lofttegunda sem taldar eru valda hlýnun jarðar. Af orkuverunum þremur í grennd við Kellingley verður Drax-verið það eina sem notar kol eftir næsta ár.

Alls störfuðu um 1,2 milljónir manna í kolanámunum í Bretlandi árið 1920 þegar námugröfturinn náði hámarki. Starfsmönnunum fækkaði í 4.000 á síðasta ári.

Kolavinnslan var mest árið 1913 þegar 292 milljónir tonna af kolum voru framleiddar í Bretlandi. Á sjötta áratug aldarinnar sem leið voru reknar meira en 1.330 djúpar kolanámur í landinu. Kolavinnslan markaði djúp spor í sögu bresku verkalýðshreyfingarinnar.

Bresku kolanámurnar voru þjóðnýttar eftir síðari heimsstyrjöldina. Atvinnugreinin varð fyrir miklu áfalli árið 1985 vegna langvinns verkfalls námumanna og þeirrar ákvörðunar stjórnar Margaret Thatcher að loka mörgum námum.