Eiríkur Björn Björgvinsson
Eiríkur Björn Björgvinsson
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Fyrirtækið KPMG hefur gert úttekt á öldrunarþjónustu Akureyrarbæjar og voru drög að skýrslunni rædd á fundi bæjarráðs Akureyrar í gær.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Fyrirtækið KPMG hefur gert úttekt á öldrunarþjónustu Akureyrarbæjar og voru drög að skýrslunni rædd á fundi bæjarráðs Akureyrar í gær.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri segir að vísbendingar séu um að sveitarfélagið beri verulegan kostnað umfram það sem það telur sig eiga að bera, eins og reyndar hafi áður verið haldið fram.

„Við sjáum í reikningum okkar að við erum farin að borga verulega mikið með þessum málaflokki. Við vildum því fá úttekt á því hvert væri okkar hlutverk í rekstri öldrunarþjónustu og hvað hún kostaði okkur raunverulega, greint niður á rekstrarliði,“ segir Eiríkur.

Hann segir að umæðum sé ekki lokið um málið og niðurstöður yfirgripsmikillar úttektar KPMG séu því enn trúnaðarmál. Þar sé fjallað um öldrunarþjónustu bæjarins í heild, þ.e. heimaþjónustu og hjúkrunarheimilin Lögmannshlíð og Hlíð, en hjúkrunarheimilin vega þyngst í þeim efnum.

Samkvæmt heimildum blaðsins hafa forystumenn ýmissa sveitarfélaga rætt rekstrarvanda hjúkrunarheimili undanfarið. Í síðustu viku var í Morgunblaðinu greint frá vanda Garðabæjar vegna reksturs hjúkrunarheimilisins Ísafoldar.

Yfirtaka ríkisins á starfsemi Ísafoldar undirbúin

Erfið staða Ísafoldar var rædd á fundi Garðbæinga með fulltrúum velferðarráðuneytisins í síðustu viku. Í fundargerð bæjarráðs Garðabæjar segir að á fundinum hafi komið fram hjá fulltrúum ráðuneytisins að ríkið hafi ekki fjármuni til að hækka daggjöld hjúkrunarheimila og þá hafi ríkið hafnað að greiða uppsafnaðan umframkostnað enda sé ekki fjárheimild til þess.

Fulltrúum ráðuneytisins var kynnt að samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2016 væri fjárveiting til rekstrar Ísafoldar aðeins í þrjá mánuði á næsta ári eða til 31. mars 2016. Á fundinum var samþykkt að hefja undirbúning að gerð samninga um yfirtöku ríkisins á starfsemi Ísafoldar 2016.

Á fundi bæjarráðs Garðabæjar síðasta þriðjudag var samþykkt að fela bæjarstjóra að undirbúa að stefna íslenska ríkinu fyrir héraðsdóm og krefja ríkið um greiðslu skaðabóta vegna uppsafnaðrar skuldar.